04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

92. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að mæla eindregið með samþykkt þessa frv. Eins og kom fram hjá hv. 1. flm. er um að ræða gjöld upp á 7–8 millj. á ársgrundvelli miðað við þær tölur sem lagðar voru til grundvallar, en sparnaður gæti numið 70–100 millj. kr. fyrir ríkissjóð. Þegar af þeirri ástæðu er rétt að taka þetta mál til mjög gaumgæfilegrar athugunar. Þar við bætist svo auðvitað hitt, sem er aðalatriðið, að fólkinu líður miklu betur.

Þetta mál hefur verið rætt af og til í heilbrrn., og menn hafa verið sammála um að sjálfsagt sé að gera eitthvað í þessa átt, en aftur á móti hafa menn látið í ljós nokkurn ugg um að það mundu kannske fleiri á eftir fylgja, þ.e.a.s. það vanti nokkuð öruggar reglur um það, hverjir fái að fara og hverjir ekki. Forsvarsmenn þessara sjúklinga vilja miða við að enginn fái stuðning nema hann sé það veikur að hann eigi að leggjast inn á sjúkrahús. Einhverja slíka fasta reglu þarf að hafa til þess að þetta verði ekki misnotað.

Ég endurtek svo fullan stuðning minn við þetta frv.