19.10.1978
Sameinað þing: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það var ánægjulegur viðburður að hlýða á það hér áðan, að hv. 4. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, fyrrv. forsrh., virðist nú loksins eftir fjögurra ára setu á ráðherrastóli hafa áttað sig á því, hvernig á að fara að því að stjórna landinu. Vonandi fær hann einhvern tíma tíma til þess og tækifæri að sýna orð sín í verki.

Síðasta heila ár vinstri stjórnar á Íslandi, 1973, var afkoma atvinnuveganna allra betri en um langt árabil, og á fyrri hluta ársins 1974 var kaupmáttur launa í hámarki. Þegar hægri stjórnin skildi við s.l. sumar, 4 árum síðar, var afkoma atvinnuvega bágborin og kaupmáttur launa var sífellt skorinn niður framan af valdatíma hennar.

Blaðamenn Morgunblaðsins lýstu gjaldþrotastefnu hægri stjórnarinnar í stöðugum fréttaflutningi s.l. sumar af hallarekstri og fyrirtækjastöðvunum, og seint á hundadögum sneri blaðamaður Morgunblaðsins sér til Atvinnuleysistryggingasjóðs og spurði um síðasta hálmstráið: Er nóg til? Þá blasti það við, að 10 þúsund manns væru að missa atvinnu sína, að nær öll frystihúsin væru að lokast, að efnahagslegt hrun væri yfirvofandi. Spurning blaðamannsins var því í rökréttu samhengi við stjórnarstefnuna. En því miður, Atvinnuleysistryggingasjóður hafði ekki heldur fé nema í 2–3 vikur handa 10 þúsund atvinnuleysingjum. Þannig hafði stjórnarstefna Geirs Hallgrímssonar leikið þjóðarhag. Við þessar kringumstæður, sem verða að teljast harla erfiðar, tók við ný ríkisstj. í landinu.

Það var á Alþýðusambandsþingi á veturnóttum 1976 sem ákvarðanir voru teknar um að reyna að sameina íslensku verkalýðshreyfinguna um að hrinda af sér oki því sem fráfarandi ríkisstj. hafði lagt á herðar allra íslenskra launamanna með um 20% kjaraskerðingu. Í samræmi við ákvarðanir Alþýðusambandsþingsins haustið 1976 hófust aðgerðir með yfirvinnubanni frá 1. maí 1977, og baráttunni lyktaði með þeim sigursælu sólstöðusamningum sem gerðu ráð fyrir því, að launafólki yrði tryggður kaupmáttur launa á við það sem best hafði áður gerst. Haustið 1977 háði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sitt fyrsta verkfall. En eftir áramótin, síðustu áramót, ákvað fráfarandi ríkisstj. að grípa inn í kjarasamningana með kaupránslögunum, sem svo hafa verið nefnd, þannig að svipta í sundur þeim samningum sem gerðir höfðu verið á árinu 1977.

Þessi ákvörðun fráfarandi ríkisstj. hafði margþættar afleiðingar. M.a. opnaði hún hugi launafólks í landinu fyrir hinum órjúfanlegu tengslum milli stjórnmálabaráttunnar og hinnar faglegu baráttu. Í öðru lagi ruddi þessi ákvörðun braut fyrir víðtæka faglega og pólitíska samstöðu sem lyktaði með því eftir verkföllin 1. og 2. mars og útskipunarbann Verkamannasambands Íslands, að fyrrv. stjórnarandstaða vann stórfelldan sigur í byggðakosningunum 28. maí og síðar í alþingiskosningunum 25. júní.

Sigur fyrrv. stjórnarandstöðuflokka var svo afgerandi, að það hlaut að koma að því að þeim yrði falin þátttaka í stjórn landsins. Sú varð og raunin. Ný ríkisstj. var mynduð 1. sept. s.l. um takmörkuð, en stór og þýðingarmikil verkefni sem snerta afkomu hvers einasta manns í þessu landi.

Ríkisstj. setti sér tvö meginviðfangsefni: Í fyrsta lagi að vernda kaupmátt launa. Sett voru brbl. um kjaramál og er kaupmáttur launa nú í samræmi við sólstöðusamningana og svipaður því sem best hefur gerst áður á Íslandi, þ.e. á fyrri hluta ársins 1974. Í öðru lagi setti ríkisstj, sér það markmið að tryggja fulla atvinnu, og nú er full atvinna um allt land.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum s.l. sumar reyndi mjög verulega á það, hvernig yrði tekið á þeim vandamálum sem oft hefur verið lýst í atvinnu- og efnahagsmálum og fráfarandi ríkisstj. lét eftir sig. Átti að gera það með því að lækka kaupið eða átti að beita öðrum nýjum úrræðum? Hver átti að borga brúsann?

Sjálfstfl. var ekki í nokkrum vafa um hvaða úrræðum ætti að beita. Formaður Sjálfstfl. lýsti því yfir á fundi í flokki sínum um miðjan ágúst s.l., að það yrði að lækka kaupið enn frekar. Taldi hann farsælast að fresta öllum launahækkunum öðrum en grunnkaupshækkunum 1. sept. s.l. Þarna var blygðunarlaust boðuð 20% kjaraskerðing. Og Geir Hallgrímsson endurtók þetta hér áðan.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum lagði Alþb. hins vegar megináherslu á það, að því aðeins gæti flokkurinn átt aðild að ríkisstj. að kaupmáttur launa yrði tryggður í samræmi við niðurstöður samninganna 1977 og leysa yrði efnahagsvandann með skattlagningu á þá sem höfðu rakað saman verðbólgugróða. Vegna þess að launamenn höfðu gert sér grein fyrir samhengi hinnar faglegu og hinnar pólitísku baráttu höfðu þeir eflt Alþb. til aukinna áhrifa og valds í íslenska þjóðfélaginu í kosningunum í sumar. Alþb. er nú næststærsti flokkur þjóðarinnar, og vegna þess hefur Alþb. enn þá tekist að hindra allar tilraunir sem gerðar hafa verið til þess að brjóta á launamönnum. Þrátt fyrir þessa augljósu sterku stöðu Alþb. eftir síðustu kosningar — byggðakosningar og alþingiskosningar — gerðu ákveðin öfl í þjóðfélaginu undir forustu Sjálfstfl. tilraun til þess að útiloka Alþb. frá aðild að ríkisstj. Íslands og stjórnarþátttöku yfirleitt á ákaflega ólýðræðislegum forsendum. Hið ólýðræðislega eðli Sjálfstfl. hefur aldrei komið betur fram en s.l. sumar, þegar forseti Íslands fól Lúðvík Jósepssyni, formanni Alþb., að gera tilraun til þess að mynda ríkisstj. á Íslandi. Í forustugrein Morgunblaðsins 24. ágúst s.l. var komist svo að orði, með leyfi forseta:

„Tilraun Lúðvíks Jósepssonar til þess að mynda stjórn er mikið áfall fyrir Íslendinga í augum umheimsins.... Það hefur ekki fyrr gerst í sögu lýðræðisríkis í Vestur-Evrópu, að leiðtogar flokks af því tagi væri falin stjórnarmyndun. Ef Lúðvík Jósepsson yrði forsrh. Íslands yrði það reiðarslag fyrir álit þjóðarinnar út á við. Traust það, sem íslendingar njóta erlendis, mundi þverra á skammri stundu og afleiðingarnar verða ófyrirsjáanlegar.“

Hér var m.ö.o. haft í hótunum og sagt fullum fetum að lýðræðislegar leikreglur í landinu eigi ekki að ná yfir næststærsta flokk þjóðarinnar. Hér er því hótað að beita útlendingum fyrir vagn einræðis í þessu landi. Hér er því haldið fram, að erlend öfl muni reyna að beita Ísland efnahagslegum þvingunum ef það eitt gerist að formaður næststærsta stjórnmálaflokksins og þess flokks, sem mests trausts nýtur meðal launamanna, yrði forsrh. landsins. Hér er ýtt undir þá kenningu, sem Morgunblaðið boðaði blygðunarlaust í forustugrein rétt fyrir síðustu alþingiskosningar, að viðskiptakjör okkar á erlendum vettvangi mundu líða fyrir það, ef íslenskir sósíalistar fengju til þess styrk að hafa áhrif á sjálfa æðstu stjórn lýðveldisins.

En þessi hótun segir okkur fleira. Hún segir okkur það, að við verðum að leggja á það megináherslu að hafa ævinlega sjálf forræði yfir öllum þáttum okkar efnahagsmála. Þessi hótun segir okkur það, að baráttan gegn verðbólgunni er einnig þáttur í sífelldri, daglegri sjálfstæðisviðleitni þessarar litlu þjóðar. Því aðeins ráðum við fram úr vandamálunum að við höfum skýlaust efnahagslegt forræði í okkar höndum sjálfir.

Núv. ríkisstj., sem hefur setið að völdum í 7 vikur, hefur ekki gefið stór loforð. Loforð hennar eru í fyrsta lagi að treysta kaupmátt launa, í öðru lagi að tryggja það, að atvinnuvegirnir gangi þannig að við festum efnahagslegt sjálfstæði okkar í sessi. 1 þriðja lagi hefur þessi ríkisstj. lagt áherslu á að hornsteinninn að stjórnarsamstarfinu eru samráð stjórnarflokkanna við verkalýðshreyfinguna, samtök launafólks.

Ég vænti þess fastlega, að sá mikli styrkur, sem verkalýðshreyfingin sýndi s.l. vor í glímunni við fjandsamlega ríkisstj., sé einnig til marks um hæfni hreyfingarinnar til þess að ráða fram úr þeim vandamálum sem nú er við að glíma. Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur öðlast mikið vald. Flokkur hennar, Alþb., er nú stærri en nokkru sinni fyrr. Spurningin er sú, hvernig tekst að beita þessu afli til þess að hafa varanleg áhrif á íslenska þjóðfélagið í þágu launafólksins og íslensks þjóðfrelsis. En í þeim efnum er ekki við okkur eina að eiga. Við þurfum daglega að gera samkomulag við aðra aðila um framkvæmd þeirrar stefnu sem fylgt er. Oft á tíðum kann okkur að virðast sem beri af leið. Meginatriðið er þá að hreyfing okkar, flokkur og verkalýðshreyfing séu virkir aðilar í þeirri stefnumótun sem fram fer á hverjum tíma.

Nú verðum við að takast á við mikil og erfið verkefni og flókin. Árangur launamanna í kosningunum 1978 liggur þegar fyrir með brbl. um kjaramál sem ríkisstj. gaf út snemma í síðasta mánuði. En næsta verkefni er að gera ráðstafanir sem tryggja að sá árangur, sem birtist í brbl., verði varanleg eign íslenskra launamanna. Það tekst aðeins með sameiginlegu átaki okkar allra.

Ég skora á íslenska launamenn að veita þeirri ríkisstj., sem nú situr við völd í landinu, fyllsta stuðning og aðhald við framkvæmd þeirrar róttæku efnahagsstefnu sem nú er nauðsynlegt svar við efnahagslegum vandamálum íslenska þjóðfélagsins.

Íslenska þjóðin vinnur langan vinnudag og hún skapar mikil verðmæti með starfi sínu. Spurningin er um það, hvernig verðmætunum er skipt. Hlutverk Alþb. í þessari ríkisstj. er að tryggja að afurðunum sé skipt launafólki í vil. Við það eitt, að Alþb. á aðild að ríkisstj., hver sem hún er, verða þó ekki neinar stökkbreytingar á íslensku þjóðfélagi. Það tekur tíma að breyta þjóðfélagi sem hefur staðið kyrrt og lítt breytt um áratugaskeið. Hagsmunanet auðstéttarinnar er þétt riðið um ríkiskerfi, stórfyrirtæki og hagsmunasamtök. Það er ekkert áhlaupaverk að rjúfa þetta hagsmunanet, en það mun takast með þrotlausu starfi og samstöðu um grundvallaratriði og með því að gæta þess vandlega að útiloka ævinlega áhrifavald flugumanna stéttarandstæðingsins.

Í upphafi minnti ég á það, að verkefni þessarar ríkisstj. væru einkum tvíþætt og þau stór og viðamikil. Þau eru þó að mati okkar íslenskra sósíalista aðeins hluti af stærri heild. Á næsta ári munu ríkisstjórnarflokkarnir halda áfram gerð málefnasamningsins sem yrði ítarlegri, en um leið rökrétt framhald þeirrar samstarfsyfirlýsingar sem hæstv. forsrh. gerði grein fyrir hér á undan.

Samstarfsyfirlýsing flokkanna nú byggist á því að tryggja mannsæmandi lífskjör og þar með fulla atvinnu. Markmiðið er að treysta efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og leggja grundvöll að því, að unnt verði að draga verulega úr verðbólgunni og stöðva aukningu erlendra skulda.

Erlend skuldasöfnun er einmitt eitt alvarlegasta vandamálið sem fráfarandi ríkisstj. skildi eftir sig. Greiðslubyrði af löngum erlendum lánum var 13,8% 1976, 13,7% 1977, tæp 14% í ár, og eins og nú horfir gerir Seðlabankinn ráð fyrir að 1979 verði hlutfallið 14–15% af öllum útflutningstekjum okkar. Ég tel að þarna sé þjóðin á háskalegri braut og gæta beri ítrasta aðhalds í þessum efnum. Við bætum ekki stöðu þjóðarbús okkar með því að taka erlend lán í slitlag undir bílana okkar sem eru greiddir með erlendum gjaldeyri. Við bætum ekki efnahag þjóðarinnar með því að flytja inn erlent kjarnfóður sem við notum til þess að framleiða vöru sem við svo gefum með til útflutnings. Það eru vond hagvísindi að mylja þýsk mörk ofan í vegina og fóðra kýrnar á dollurum um hágróandann.

Við þurfum að taka alla meðferð gjaldeyrismála okkar og utanríkisviðskipti til athugunar. Ef við athugum ekki okkar gang í þessum efnum gætu erlend afskipti af stjórnmálum hér farið vaxandi og þær hótandir, sem Morgunblaðið birti s.l. sumar er Lúðvík Jósepssyni var fatið að mynda ríkisstj., gætu þá breyst í veruleika.

Í stefnumótun ríkisstj. á næstunni þarf að leggja megináherslu á eftirfarandi atriði í efnahagsmálum:

1. Að tryggja núverandi kaupmáttarstig.

2. Lífskjör ber að jafna með aukinn samneyslu.

3. Leggja ber skatta á þau fyrirtæki og á þá hátekjumenn sem hafa sloppið við skattgreiðslur á undanförnum árum þrátt fyrir verulega gróðasöfnun. Efla ber skattaeftirlit.

4. Taka ber upp stranga fjárfestingarstjórn sem nær til fjárfestingarsjóða og banka, þannig að verðbólgufjárfestingin verði stöðvuð og fjárfesting opinberra aðila og einkaaðila haldist sem næst í sama hlutfalli og innlendum sparnaði nemur.

5. Tryggja verður fullan rekstur atvinnuveganna, en stöðva ber brask og eyðslufjárfestingu og misnotkun fjármuna í atvinnulífinu í skjóli þess skilnings sem atvinnuvegirnir njóta.

6. Draga verður úr milliliðakostnaði og yfirbyggingu. Rannsókn á innflutningsversluninni er þegar hafin.

7. Leggja ber grundvöll að íslenskri iðnþróun, og orkustefnu ber að fella í meginfarveg eftir hagsmunum heildarinnar, eins og núv. iðnrh. hefur lagt drög að.

Við mótun nýs málefnasamnings stjórnmálaflokkanna munum við því leggja áherslu á efnahagslegt öryggi og jöfnun lífskjara innanlands, en sjálfstæði út á við. Þess vegna munum við taka herstöðvamálið upp og leita samkomulags um að ná árangri. Það er því of snemmt fyrir hv. 4. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, að fagna stefnu ríkisstj. í þessu máli.

Við munum einnig leggja á það áherslu að breyta hinni ranglátu kjördæmaskipan.

Verður þessi ríkisstj. langlíf? Þannig spyrja margir, og það er ekki laust við að nokkurra efasemda gæti stundum í röddinni. Þær efasemdir eru eðlilegar því að flokkarnir eru ólíkir um margt. En spurningunni um langlífi stjórnarinnar er hægt að svara svo frá bæjardyrum Alþb.: Stjórnin verður langlíf, ef allir stjórnarflokkarnir gera sér í daglegum störfum grein fyrir forsendum stjórnarsamstarfsins, þ.e. tryggingu kaupmáttar og atvinnu og mótun nýrrar, róttækrar efnahagsstefnu í samráði við launafólk. Stjórnin verður langlíf, ef kjaraskerðingaröflunum verður úthýst. Stjórnin verður langlíf, ef hún markar sannfærandi framtíðarstefnu sem getur leitt þjóðina út úr þeim ógöngum erlendra skulda og óðaverðbólgu sem fráfarandi ríkisstj. lét eftir sig. Stjórnin verður langlíf, ef hún þorir að leggja byrðarnar á þá sem hafa rakað saman verðbólgugróða. Stjórnin verður langlíf, ef hún í öllum athöfnum sínum verður trú lífshagsmunum alþýðunnar og þjóðfrelsi Íslendinga. Á þetta verður látið reyna.