04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

114. mál, dómari og rannsóknardeild í skattamálum og bókhaldsmálum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er nú kominn upp í mér kappreiðadómarinn. Ég er svo lukkulegur, að mér hefur af góðum félögum mínum í hestamannastétt verið falið um nokkuð langt árabil að vera dómari á ýmsum góðum hestamannamótum. — Það mátti ekki seinna vera, að hv. þm. Alþfl. kæmu í mark. Þeir náðu öðru sætinu með sóma. Fyrsta sætið hlaut að þessu sinni hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem flutti á þskj. 123 till. til þál. um herferð stjórnvalda gegn skattsvikum. Þessi till. er flutt í Sþ. og vonandi gefst okkur tækifæri til þess að ræða hana seinna og taka til skoðunar, en út á þetta fékk hann fyrsta sætið. Annað sætið fellur sem sagt í hlut hv. þm. Vilmundar Gylfasonar og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir frv. til l. á þskj. 128. Það fer nú að liggja eftir hlutur okkar framsóknarmanna. Ég verð að játa það, þó að dómarar á kappreiðum eigi að vera óhlutdrægir, að ég bíð með önd í hálsinum eftir skattafræðingi okkar framsóknarmanna, hv. þm. Jóni Helgasyni. Kemur hann ei senn? Hann er nefnilega formaður þeirrar nefndar, sem ríkisstj. hefur að störfum við endurskoðun skattalaganna. Þessa nefnd skipa — mönnum til upplýsingar ef það vita það ekki allir: Fulltrúi Alþb. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem raunar tók forustuna eins og ég hef áður lýst, annar nm. er hv. þm. Ágúst Einarsson, flokksbróðir þeirra hv. þm. Vilmundar og Jóhönnu, sem eru búin að rétta rækilega hlut hans, en hv. þm. Jón Helgason, og fjmrh. eru seinastir. Ég vil nú geta þess, að ég geri ráð fyrir því að þeir muni fá knapaverðlaunin, því að þeir koma nú sennilega fallegast að marki. (Gripið fram í.) Ég á fastlega von á því að þeir nái marki, enda hef ég fyrir því orð dómsmrh. héðan úr ræðustólnum, og hann fer nú ekki með neitt fleipur eins og menn vita.

Ég er efnislega samþykkur því, að skattsvik eru slæmur glæpur og það eru vafalaust mikil brögð að skattsvikum í þessu þjóðfélagi. Hve mikil brögð eru að þeim veit ég ekki, hvort þau eru 27 milljarðar eða eitthvað annað. Ég verð að játa það, að ég þekki ekki þetta neðanjarðarhagkerfi heldur, ég er ekki kunnugur þar. Ég er ekki heldur kunnugur meðal huldufólks eða álfa, sem ég hef líka heyrt sagt að væru til og m.a.s. vildi gjarnan trúa að væru til, en er reyndar ekki alveg viss um.

Í grg. þessari, sem síðasti ræðumaður gerði mjög að umræðuefni, er þó nokkuð þungum steinum kastað, m.a. að starfsmönnum skattstofa. Á þeirri skattstofu þar sem ég þekki til, skattstofunni í Norðurlandskjördæmi vestra, á Siglufirði, vinnur samviskusamt fólk, og ég held að það vinni býsna gott starf.

Það er kastað þungum steinum að dómskerfinu, en það hefur nú verið gert fyrr af sumum hv. þm. og raunar áður en þeir urðu þm. Þetta, að tala um getuleysi dómskerfisins og hvað það sé nú mikið vandræðabarn og hvað óskaplega mörg brot viðgangist nú til og frá um þjóðfélagið, minnir mig á söguna af stráknum — það var smali — sem sat yfir kindum suður í Alpafjöllum, og honum leiddist. Hann var einn og hann langaði til þess að láta á sér bera. Honum datt þá í hug að æpa: „úlfur, úlfur.“ Þá kom fólk hlaupandi úr þorpinu til þess að hjálpa stráknum og gá að úlfinum. En það var enginn úlfur. Það sneri nú heim og var hálfergilegt yfir þessu. Nokkrum dögum seinna kallar strákurinn aftur: „úlfur, úlfur“, og þá koma þó nokkrir hlaupandi, en sneru við því að enginn úlfur var á ferðinni. Í þriðja sinn kom úlfurinn, og ég undirstrika að það getur vel verið að úlfurinn sé á ferðinni, en þá var búið að hvekkja fólkið, það tók enginn mark á stráknum og déskotans úlfurinn át strákinn.

Það eru nokkuð miklar sakfellingar í þessari grg. og komist þannig að orði, að ég er ekki alveg samþykkur því, T.d. segir hér, með leyfi forseta: „Jafnljóst er, að stjórnkerfið hefur reynst mikið til ófært um að snúast gegn þessari þróun. Alkunn eru dæmi um að mál af þessari tegund hafa verið á ferðinni fyrir dómstólum á annan áratug. Fjölmörg mál af þessu tagi, sem um hefur verið fjallað í opinberri blaðamennsku samtímans, hafa hins vegar tafist mjög fyrir dómstólum.“ — Miklir menn erum við, Hrólfur minn, í þessari opinberu blaðamennsku samtímans.

Ég er að nokkru leyti sammála hv. síðasta ræðumanni, Albert Guðmundssyni, um að það sé ósmekklegt að láta að því liggja að skattsvik þrífist hvergi nema hjá atvinnurekendum, eins og mér virðist tónninn í þessari grg. gefa nokkurt tilefni til. Það getur vel verið að atvinnurekendur svíki undan skatti, ég er ekki að mótmæla því. En það eru fleiri smugur á skattalögunum en svo, að atvinnurekendur hafi einir möguleika á að hagnýta sér þær. Þess vegna vona ég, þegar þeir flokksbræður mínir koma að marki, að takist að gildra upp í eitthvað af þeim götum.

Ég óska sem sagt hv. flm. þessa máls til hamingju með annað sætið. Ég endurtek andstöðu mína við skattsvikasvínaríið í landinu. En ég vil, með leyfi forseta, fá að fara með eina setningu, sem er merkileg að mínum dómi, úr grg. með till. til þál. á þskj. 123 frá Ólafi Ragnari Grímssyni og fleirum. Þar segir með leyfi forseta: „Aldrei fæst neinn botn í allsherjarupprætingu tiltekinna afbrota.“ — Ég er dauðhræddur um að svo verði enn um sinn.