04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

114. mál, dómari og rannsóknardeild í skattamálum og bókhaldsmálum

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Það veldur óneitanlega nokkrum vonbrigðum, að hæstv. dómsmrh. skuli ekki vera samþykkur þeirri hugmynd sem hér er verið að leggja til. Það hefur komið fram, að í sambandi við stjórnarmyndunarviðræðurnar s.l. sumar voru þessi mál einmitt rædd og reifuð, og það er rétt, að það var áherslumunur af því tagi sem hér hefur verið gerður að umræðuefni. Við í mínum flokki vorum þeirrar skoðunar, að þetta væri skynsamleg og fær leið, en í flokki hæstv. dómsmrh. voru menn annarrar skoðunar. En hvað sem því líður er það eðlileg leið að reyna að koma þessu með þinglegum hætti fram.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að þetta mundi verða dýrt. Auðvitað er það rétt. Það hefur orðið samkomulag um að það verði eins og síðasti ræðumaður raunar gat um, 75 millj. kr. varið sérstaklega til aukins skatteftirlits á nýjum fjárlögum sem hér hafa verið til umr. Og þar sem sérstakri fjárveitingu er að þessu sinni varið til þessa verkefnis, þá hygg ég að það væri skynsamlegt ef hægt væri að nota þetta fjármagn, sem þegar hefur verið gerð till. um, til þess að fara nýjar leiðir og byrja á nýjum aðferðum til þess að snúast gegn þessum vágesti. Það er sannfæring mín, að þó að þetta sé auðvitað dýrt — 75 millj. kr. eru miklir fjármunir — sé þetta á hinn bóginn í þessu tilfelli fjármagn sem áreiðanlega mundi margfalt skila sér aftur. Út af fyrir sig hygg ég því, að þetta mundi, þegar fram líða stundir, vera ríkissjóði ábatasamt í beinum peningalegum skilningi. En þar fyrir utan þjónar það markmiðum bæði siðferðis og réttlætis, að svo sé búið um hnútana að því er tekur til skattamála að menn geti ekki stundað það í ábataskyni að svíkja undan skatti, eins og hæstv. dómsmrh. sagði og sagði áreiðanlega réttilega að hér hefði verið gert um langt skeið og er einkenni á þessu samfélagi.

Hæstv. dómsmrh. gat um að það væru margir í dómskerfinu þeirrar skoðunar, að þetta væri ekki skynsamlegt. Um þetta eru skiptar skoðanir. Ég vísa til þess, að í sjónvarpsþætti fyrir tveimur eða þremur vikum var einmitt skattrannsóknastjóri þeirrar skoðunar, að þetta mundi vera viturleg og árangursrík leið. En það er auðvitað rétt, að um þetta eru skiptar skoðanir meðal sérfróðra manna. Sjálfur hef ég rætt um þetta við fjölmarga sem við þessi störf vinna, og annars vegar þykir mér það vera samdóma niðurstaða, hvað þetta er mikið vandamál hér í samfélaginu, og svo hitt, að það verði með einhverjum hætti að snúast gegn þessu eftir öðrum og árangursríkari leiðum en við höfum gert undanfarið.

Hæstv, ráðh. gat um það í umfjöllun sinni um þessi mál, sem annars var afar vinsamleg, að það væri jafnvel verið að leggja til að flækja þetta kerfi. Um það er ég honum ekki sammála, vegna þess að töluvert kjaraatriði þessa máls er að þessi mál verði öll flutt undir eitt rn., verði flutt undir dómsmrn. Það spor út af fyrir sig held ég að væri til einföldunar og ekki til þess fallið að flækja þessi mál.

Hv. 1. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, fór nokkrum orðum um þetta frv. Hann talaði um að menn hefðu verið að blaðra í útvarpi og sjónvarpi. Ég verð nú að segja eins og er, að það er hægt að blaðra víðar en í útvarpi og sjónvarpi, m.a. í ræðustól á Alþingi, eins og mér þótti má! hans bera rækilegt vitni um.

Það hefur aldrei verið skoðun eða stefna Alþfl., að báknið skyldi fara burt. Við töluðum gjarnan um að bæta báknið, og það er vissulega margt sem þar þarf að bæta. Það er hins vegar misskilningur að þetta sé einhver sameiginleg stefna þessa tveggja flokka.

Í framhaldi af því spurði hv. 1. þm. Reykv., hvað gert væri ráð fyrir að þetta væru stórar upphæðir. Í fjárlagafrv., sem legið hefur hér á borðum, er talað um 75 millj. kr. til þessa tiltekna verkefnis. Það eðlilega hangir saman við þessa hugmynd, að ef þetta yrði að lögum, þá geri ég ráð fyrir að þeim fjármunum yrði til þess varið eða mestum hluta þeirra.

Hv. 1. þm. Reykv. fór nokkrum orðum um þá grg., sem þessu frv. fylgir, og þ. á m. með ívitnanir í svokallað neðanjarðarhagkerfi, sem mér skildist að hann þekkti ekki eða vissi ekkert af. Ég held að þeir, sem hafa augu sem sjá og eyru sem heyra í þessu þjóðfélagi, viti það mætavel, að úti um samfélagið allt er iðulega hrópandi misræmi á milli uppgefinna tekna fjölmargra einstaklin a annars vegar og hins vegar lifnaðarhátta þessa fólks. Ég verð að segja það alveg eins og er, að þeir, sem ekki þykjast um þetta vita og aldrei hafa um þetta heyrt, eru annaðhvort blindir eða heyrnarlausir — nema hvort tveggja sé. Þetta er svo áberandi einkenni á efnahagslífi í samfélagi okkar, að ég hefði haldið að um það þyrfti ekki að deila að þetta væri til, heldur um hitt, hversu háar upphæðir þetta væru og með hverjum hætti væri skynsamlegast að uppræta þetta. Ég fullyrði það, sem í þessari grg. segir, að þrátt fyrir almennar yfirlýsingar, sem iðulega hafa orðið almennt hjal, hefur ekki verið pólitískur vilji meiri hl. hér til þess að snúast gegn þessu, því að ef svo hefði verið — við skulum segja á s.l. tveimur áratugum eða lengur, þá væri þetta ástand ekki eins alvarlegt og það er. Með þessu frv. er verið að gera alvarlega tilraun til þess að löggjafinn snúist gegn þessu með áþreifanlegum aðferðum. Ef fleiri eru sömu skoðunar og hv. 1. þm. Reykv., að raunverulega sé þetta svo lítið að varla þurfi um það að tala, þá geri ég auðvitað ráð fyrir að umbótaviðleitnin muni ganga hægt.

Hv. 1. þm. Reykv. fjallaði um það í nokkrum orðum líka, að í grg. með þessu frv. væri sérstaklega snúist gegn atvinnurekstri. Ég fullyrði að þetta, sem við höfum kallað neðanjarðarhagkerfi og er m.a. það, hvernig einkaneysla er skráð sem rekstrarkostnaður við fyrirtæki, er sérstaklega áberandi hjá rekendum fyrirtækja eðli málsins samkvæmt. Og ég endurtek, að það er eðli málsins samkvæmt. Hvort einhverjir kennarar t.a.m. taka aukatíma og gefa ekki upp til skatts, — ég efa ekki að það er eitthvað um það líka, og það er lögbrot alveg sams konar náttúru og það sem hér hefur verið lýst. Ég fullyrði hins vegar að fjárupphæðirnar þar eru miklum mun minni en í því dæmi, sem fyrr var um getið.

Ég verð að segja alveg eins og er, að mér þykja ræður eins og þær, sem hv. 1. þm. Reykv. flutti hér áðan, vera til þess fallnar að draga úr viðleitni eins og þeirri sem hér er verið að reyna að hafa í frammi, og ég dreg enga dul á að mér leiðist að þurfa að sitja undir slíku. Ég hef á tilfinningunni að verið sé að gera lítið úr þeim vandamálum sem hér eru, og þar held ég að sé rangt að staðið hjá hv. 1. þm. Reykv.

Hv. þm. Páll Pétursson talaði hér á eftir hv. þm. Albert Guðmundssyni og sagði alkunna dæmisögu íhaldsmanna allra tíma, söguna um úlfinn. Þessi saga virðist alltaf vera sögð af náttúrlegum íhaldsmönnum. þegar þeir snúast gegn umbótum af því tagi sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni. En vandinn í sögunni var óvart sá, að úlfurinn var til og það endaði á því að hann át strákinn. Hann er nú búinn að éta u.þ.b. helminginn af stjórnmálaflokki hv. þm. Ég satt að segja sting upp á því við hann í fullri vinsemd, að hann hverfi frá þessari brandaralegu íhaldssemi sinni og fari heldur að snúa sér að alvörumálum.

Það reyndist vera svo, að úlfurinn var til. Það er alveg eins með neðanjarðarhagkerfið: úlfurinn er til. Þó að menn snúist gegn hugmyndum af þessu tagi, eins og þm. raunverulega var að gera, finni þeim allt til foráttu, en segist svo almennt vera samþykkir þeim engu að síður, þá er málflutningur af því tagi ekki fallinn til þess að bæta um í samfélaginu.

Að lokum vil ég segja að ég er sammála hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni þegar hann segir að þrátt fyrir allt sé kjarni málsins sá, að hér þurfi að koma til hugarfarsbreyting. Þetta er rétt. Ég held að það sé líka rétt hjá honum, að á miðunum að því er tekur til landhelgisbrota hafi verulegur ávinningur orðið á s.l. árum, vegna þess fyrst og fremst að það hefur farið fram hugarfarsbreyting. Til að vitna í alkunn orð: Brot af þessu tagi eru litin alvarlegri augum en gert var fyrir nokkrum árum. Sams konar breyting verður að fara fram í samfélaginu að því er tekur til skattsvika. Hvort sem menn vilja afneita því, að þau séu til, eins og hv. 1. þm. Reykv, var raunar efnislega að gera, eða menn vilja verja þau með fimmaurabröndurum, eins og hv. þm. frá Norðurl. v. gerði, þá sér samfélagið allt að þetta er til og þetta er mikið vandamál. En ég vil samt taka undir með hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, að mikilvægari en allar kerfisbreytingar er sú breyting að það fari fram hugarfarsbreyting í samfélaginu sjálfu, að stjórnvöld hafi um það nánast forgöngu að rækta hugarfarsbreytingu, að rækta þá afstöðu manna, að skattsvik og efnahagsleg afbrot af öðru tagi séu tekin alvarlega, þau séu ekki vægari brot en önnur afbrot. Þetta er ein tegund þjófnaðar og gegn þessum atbrotum ber að snúast sem slíkum. Eigi þessi hugarfarsbreyting sér stað, — það hefur ekki gerst enn, en eigi hún sér stað, — þá verður mikið af vandanum yfirunnið, en aðrar breytingar eru minni háttar miðað við það sem hér hefur verið lýst.