19.10.1978
Sameinað þing: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Gagnrýni stjórnarandstöðunnar á brbl. um kjaramál hefur einkum beinst að tveimur atriðum, annars vegar afturvirkni laganna og hins vegar skattþunganum eða skatthlutfallinu miðað við skattgjaldstekjur. Stjórnarandstæðingar telja að skattlagningin fái ekki staðist og brjóti gegn grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar og dómstólar muni meta hana ógilda.

Þess er þá fyrst að geta, að íslensk stjórnlög geyma ekkert almennt bann við afturvirkni laga, þótt ljóst sé að löggjafarvaldið hafi ekki algerlega frjálsar hendur í þessu efni, t.d. á sviði refsiréttar. Ef lítið er til lagasetningar í skattamálum hér á landi, þá ber fyrst að nefna, að álagning tekju- og eignarskatts er í eðli sínu afturvirk vegna þess að það er lagt á tekjur ársins á undan. Skattvísitala er t.d. aldrei ákveðin fyrr en í árslok þess árs sem álagning er miðuð við, en hún verkar á skattþungann. Í annan stað hafa skattalög, sem verkað hafa aftur fyrir sig til íþyngingar gjaldenda, verið sett a.m.k. 30 sinnum síðan 1932. Ég gæti nefnt fjögur dæmi þess, að sett hafa verið skattlög eftir að regluleg álagning hefur farið fram, þar sem lagt var á tekjur og eignir fyrra árs.

En lítum til annarra landa um þessi mál.

Í Svíþjóð er algengt að skattalög séu afturvirk. Má finna þar dæmi um hliðstæða skattlagningu og felst í brbl. Sama er að segja um Bretland og einnig Bandaríkin, þótt stjórnarskráin banni almennt afturvirkni laga. Í Þýskalandi er afturvirk skattalagasetning talin óheimil, nema e.t.v. óvenjulegir efnahagsörðugleikar steðji að þjóðinni. Í norsku stjórnarskránni er afturvirkni laga bönnuð. Þrátt fyrir það hefur hæstiréttur Noregs dæmt gild afturvirk skattalög.

Ég álít að væri málið borið undir dómstóla mundu þeir dæma brbl. gild, ella væri erfitt eða jafnvel útilokað að beita lögum til stjórnunar efnahagsmála.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð var ástand efnahagsmála vægast sagt mjög ískyggilegt. Helstu útflutningsatvinnuvegirnir voru lamaðir og nokkrir stöðvaðir, verðbólga nærri því 50% og ómótmælanleg nauðsyn að grípa til einhverra efnahagsráðstafana. Vart var um annað að ræða en grípa til beinnar skattlagningar til að standa straum af kostnaði ríkissjóðs af niðurfærslu verðlags, sem var leið hins nýja pólitíska meiri hl., og slík skattlagning gat ekki byggst á öðru en þekktum skattstofnum til álagningar. Afturvirkni var löggjafanum nauðsyn til að koma efnahagsráðstöfunum í framkvæmd. Þess ber svo að geta, að sköttunum er nokkuð í hóf stillt og þeir falla ekki í gjalddaga nema að hluta á þessu ári. Af þessum ástæðum og raunar fleirum álit ég engan vafa um lagalegt gildi brbl.

Þá mun ég víkja að skattþunganum.

Þegar á heildina er litið er núverandi eignarskattur að viðbættum eignarskattsaukanum samkv. brbl. léttbærari skattur á atvinnurekstri en eignarskattur væri samkv. nýju skattalögunum sem Sjálfstfl. hafði forustu um að setja á s.l. vetri. Nokkru erfiðara er að gera samanburð á skattlagningu atvinnurekstrarins samkv. núgildandi lögum auk brbl. og nýju skattalögunum sem lagt verður á samkv. 1980. Skatthlutfall félaga er 45% af hreinum tekjum samkv. nýju lögunum miðað við staðgreiðslu, en samkv. núgildandi lögum miðað við eftirágreiðslu næsta árs. Ljóst er, miðað við þá verðbólgu sem hér hefur verið, að þungbærara verður fyrir félög að greiða skatta samkv. skattstiga hinna nýju skattalaga hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen en skattstiga núgildandi laga og það jafnvel þótt 6% brbl. verði bætt ofan á.

En hvað um skattþunga beinu skattanna á einstaklinga? Hámark gjalda er nú 53% af topptekjum hér á landi. Ef bætt er við 6% brbl. verður þetta 59%. Þessi gjöld eru greidd árið eftir, og ef verðbólgan er 40% milli ára verður hámarksskattprósenta 42% af tekjum greiðsluársins. Í Danmörku er hliðstæð prósenta 69,8%, en þar er staðgreiðsla skatta, í Noregi er sambærileg prósenta 79,2% og í Svíþjóð 80%. Meðaltalshámark gjalda af tekjum á Norðurlöndum er því 76% á móti 42% á Íslandi miðað við 40% verðbólgu. Skyldusparnaðurinn, sem nú er 10%, verður ekki talinn með sköttum þar sem hann er endurgreiddur með verðbótum. Af þessu er ljóst, að þeir, sem komast í hæstu skattstiga á Norðurlöndum, greiða miklu hærri skatta en hér tíðkast þótt skattar samkv. brbl. séu taldir með. Í Bretlandi er hliðstæð prósenta 83%, en í Vestur-Þýskalandi 56%. Hins er svo rétt og skylt að geta, að í þessum löndum byrjar hæsti jaðarskattur við hærra tekjumark en hér á landi. Þetta er þó sú mynd sem við blasir þegar toppskatturinn er borinn saman við önnur þau lönd sem við gjarnan viljum miða við. Það er því meira en hæpið að hér á landi sé verið að kæfa allt í skattþunga með beinum sköttum.

En hvað er þá að segja um heildarskattþunga, þ.e.a.s. gjöld til ríkis og sveitarfélaga að meðtöldum óbeinum sköttum?

Árið 1977 voru skatttekjur hins opinbera 33% af þjóðarframleiðslunni. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er hliðstæð tala 43–46%. Á þessu ári mættum við því bæta við 50–60 millj. kr. til að heildarskattþunginn yrði sá sami og er hjá þessum þjóðum.

En hvernig er ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar? Lítum fyrst á ríkisfjármálin. 31. des. s.l. var skuld ríkissjóðs í Seðlabankanum 14.9 milljarðar kr. Í dag er þessi skuld a.m.k. 31.3 milljarðar. Það segir sig sjálft, að þessi skuldasöfnun ríkissjóðs hlýtur að þrengja svigrúm Seðlabankans til eðlilegra útlána til atvinnuveganna. Útgáfa ríkissjóðs á innstæðulausum ávísunum á Seðlabankann er ein af rótum verðbólgunnar þegar framleiðslugeta þjóðarinnar er fullnýtt. Útkoman verður erlend skuldasöfnun og aukin verðbólga. Allir sérfræðingar og stjórnmálamenn eru sammála um að á verðbólgutímum verður ekki hamlað gegn verðbólgunni með árangri nema ríkisbúskapurinn sé í lagi, ríkissjóður hafi bæði rekstrarafgang og einnig greiðsluafgang. Jafnframt verður að stefna markvisst að því að lækka skuldasúpu ríkissjóðs við Seðlabankann.

Við núverandi aðstæður á Íslandi verður ríkisbúskapurinn að vera sterkur. Skuldasöfnun verður að linna, ef menn meina eitthvað með öllu talinu um skaðsemi verðbólgunnar og nauðsyninni á því að vinna gegn henni.

Fyrir nokkrum vikum sótti ég ársfund Alþjóðabankans. Á fundinum fluttu margir heimsþekktir stjórnmálamenn og fjmrh. ræður. Engu máli skipti hvort þeir voru vinstri- eða hægrisinnaðir í stjórnmálum. Allir höfðu þeir miklar áhyggjur af verðbólgunni í veröldinni sem er 9–10% að meðaltali. En hvernig er þá ástandið hjá okkur sem búum við 40–50% verðbólgu? Auðvitað er það stórháskalegt fyrir efnahagslífið og atvinnuöryggið og veldur auk þess hrikalegu misrétti í þjóðfélaginu sem gerist af sjálfu sér frá degi til dags. Baráttan gegn verðbólgunni hlýtur því að verða helsta mál ríkisstj.

Með setningu brbl. um kjaramál er stigið fyrsta skrefið í þá átt að rjúfa þann vítahring víxlhækkana verðlags og launa sem valdið hefur gífurlegum usla og erfiðleikum undirstöðuatvinnuveganna, svo að við liggur rekstrarstöðvun og atvinnuleysi. Hér er farin sú leið að draga úr verðbólgunni með auknum niðurgreiðslum og lækka óbeina skatta á nauðsynjum. Á þennan hátt hefur verðbólgunni verið mætt að nokkru með skattheimtu þegar á þessu ári. En vegna þess, hversu liðið er á árið, verður að dreifa skattheimtunni á lengri tíma en útgjöldunum og því kann að verða einhver lítils háttar greiðsluhalli á ríkissjóði á árinu. Þennan halla ásamt útgjaldaaukningu brbl. þyrfti að vinna upp þegar á næsta ári, þannig að jöfnuður náist fyrir árslok. Þessi stefna er að mínum dómi m.a. forsenda þess, að árangur náist í baráttunni gegn verðbólgunni. Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar eru ákveðin í að reka ríkissjóð með jafnvægi fyrstu 16 mánuðina.

Þeirra tekna, sem aflað er til að tryggja jafnvægi í ríkisbúskapnum, er aflað með beinum sköttum, en bein skattlagning er leið til að afla ríkissjóði tekna án þess að það hafi áhrif á vísitöluna til hækkunar og leiði til aukinnar verðbólgu. Það er áríðandi að fólk geri sér ljóst að beinu skattarnir eru utan við vísitöluna, en óbeinu skattarnir fara beint inn í vísitöluna og spenna upp verðlagið og verðbólguna. Af þessum ástæðum eiga menn þann eina kost að nota beina skatta til að tryggja traustan hag ríkissjóðs meðan menn koma sér ekki saman um breytingar á vísitölunni. Þetta er því skattlagningaraðferð til að berjast gegn verðbólgunni. Beinu skattarnir hafa því verið valdir beinlínis til þess að forðast aukna verðbólgu um sinn.

Það er því deginum ljósara, að vísitölukerfið hefur áhrif á skattlagninguna og neyðir menn nánast í baráttunni við verðbólguna til að nota beina skatta til tekjuöflunar. Ég tel þó að beinir skattar eigi fullan rétt á sér ef þeir eru innan hóflegra marka. En ríkisbúskapurinn verður ekki traustur nema einnig sé gætt ráðdeildar og aðhalds í útgjöldum ríkisins.

Eins og nú háttar verður að draga nokkuð úr opinberum og öðrum framkvæmdum til þess að minnka spennuna í þjóðfélaginu og vinna gegn verðbólgunni. En félagshyggjumenn verða að gæta að sér að draga ekki um of úr opinberri þjónustu. Það kemur fljótlega inn í kvikuna í heilbrigðismálum, tryggingamálum, fræðslu- og félagsmálum, svo að dæmi séu tekin. Þó álit ég að það ætti að geta tekist að draga úr kostnaði án þess að það komi að sök.

Það, sem ég er að undirstrika, er nauðsyn þess, að ríkisbúskapurinn sé rekinn með þeim hætti að hann sé hemill, en ekki verðbólguvaldur. Fjárlögin mega ekki verka sem undirspilun verðbólgunnar, heldur verður að beita þeim gegn henni. Við 40–50% verðbólguástand og hrikaskuldir ríkissjóðs við Seðlabankann verður að reka ríkissjóð með ríflegum rekstrar- og greiðsluafgangi. Það verður einnig að stöðva skuldasöfnun og hefja endurgreiðslu lána, og það verður að beita beinum sköttum til tekjuöflunar. Þetta eru þær aðferðir sem m.a. verður að nota eins og sakir standa til að beita fjárlögum og lánsfjáráætlun sem hagstjórnartækjum í baráttunni gegn verðbólgunni.

Góðir áheyrendur. Við Íslendingar búum nú við betri og jafnari lífskjör en flestar aðrar þjóðir. Verðbólgan mun koma velmegun þjóðarinnar fyrir kattarnef ef svo heldur fram sem horfir. Ríkisvaldið velur þá leið að hemla verðbólguna að höfðu samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Tekna er aflað með skjótum hætti og þá miðað við efni og ástæður. Ég mótmæli því harðlega, sem Geir Hallgrímsson sagði, að Framsfl. láti sér fátt um finnast í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um stjórn landsins. Þegar Framsfl. hefur farið með stjórnarforustu hefur hann þvert á móti einmitt lagt áherslu á þetta atriði.

Þessum fyrstu aðgerðum í efnahagsmálum er ætlað að skapa svigrúm til ráðstafana sem verða að duga gegn óðaverðbólgunni. Þar ber hæst samþykkt ábyrgra fjárlaga og mörkun skynsamlegrar stefnu í launamálum sem í senn treystir atvinnuöryggi og góð lífskjör. Sem flestir Íslendingar verða að standa saman og láta eitthvað af mörkum í hlutfalli við tekjur og efnahag til að vinna á verðbólguófreskjunni sem er undirrót þess sem verst fer í þjóðfélaginu, bæði efnalega og andlega. — Góða nótt.