05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

330. mál, atvinnumál aldraðra

Fyrirspyrjandi (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. félmrh., hvað liði framkvæmd þál. frá 14. maí 1975 um atvinnumál aldraðra. Þetta mun vera í þriðja sinn sem ég stend hér upp til þess að spyrjast fyrir um framkvæmd þessa máls, því það verður að segjast eins og er, að fyrrv. félmrh. virtist því miður engan áhuga hafa á því að hrinda þessu máli í framkvæmd þrátt fyrir góð loforð.

Hér er vissulega um að ræða margþætt og vandasamt mál. Ályktunin, sem hlaut samþykki á sínum tíma á Alþ., var á þá leið, að ríkisstj. skyldi undirbúa í samráði við aðila vinnumarkaðarins frv. til laga um atvinnumál aldraðra og yrði að því stefnt, að allir 67 ára og eldri, sem til þess hefðu þrek og vilja, gætu átt kost á atvinnu við sitt hæfi. Eins og ég sagði er hér um viðamikið mál að ræða, en svo vel vill til, að fyrir liggur ákaflega vel unnin og ítarleg rannsókn Jóns Björnssonar sálfræðings um atvinnuþörf og atvinnumöguleika aldraðs fólks. Þessa skýrslu vann Jón Björnsson á sínum tíma fyrir Reykjavíkurborg. Hún var fullbúin, að því er ég best veit, vorið 1976. Við höfum því ákaflega góðar upplýsingar um hin ýmsu vandamál, sem aldrað fólk á við að stríða og varða atvinnumöguleika þess og afkomu og andlega og líkamlega vellíðan eða vansæld. Í þessari skýrslu sinni leggur Jón Björnsson fram raunhæfar tillögur til úrbóta og leggur áherslu á samræmdar aðgerðir til þess að leysa úr atvinnuvanda aldraðs fólks. Til þess að leysa mörg þessi vandamál þarf að koma til kasta hins opinbera að áliti Jóns Björnssonar. Hér er því miður ekki tóm til að ræða í löngu máli skýrslu hans, en ég læt mér nægja að koma með stutta tilvitnun. Í þessari skýrslu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tillögunum er ekki einasta miðað að því að laga tilboð vinnumarkaðarins að þörfum og getu hinna öldruðu, heldur einnig að því, að hinir öldruðu sjálfir lagi sig að möguleikum þeim sem vinnumarkaðurinn hefur að bjóða þeim á hverju stigi öldrunarinnar. Hér er því um gagnkvæma aðlögun að ræða, en á hvorugan bóginn einhliða. Hlutverk hins opinbera að þessari gagnkvæmu aðlögun hlýtur að mestu leyti að felast í hvatningu, upplýsingaþjónustu og áróðri, einnig því að taka frumkvæði um að opna henni nýjar leiðir, samræma hana og efla á allan veg. Enn fremur hlýtur hið opinbera að vernda rétt hins aldraða til vinnu og tryggja honum sem mest valfrelsi til vinnu áháð andlegu og líkamlegu ástandi hans. Að tillögum þessum er hið opinbera einnig bakhjarl hins aldraða og trygging gegn sveiflum atvinnumarkaðarins, breytingum á kröfum hans og gegn einhliða hagsmunum vinnuveitenda.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar þessarar er vandinn, sem við er að etja, tvenns konar. Annars vegar er um að ræða miðaldra og aldraða einstaklinga við vinnu sem er þeim á einn eða annan veg ofviða og kemur ónauðsynlega fljótt til með að slíta líkamsorku þeirra og binda of bráðan enda á valfrelsi þeirra gagnvart vinnu. Úrbætur á þessum vanda felast í fyrirbyggjandi aðgerðum, sem stuðla að aukinni aðlögun þessa hóps að breyttum forsendum til vinnu. Hins vegar er um að ræða miðaldra og eldra fólk sem þegar hefur hætt atvinnuþátttöku í trássi við eigin langanir og af illri nauðsyn, þar eð engin tilboð vinnumarkaðarins svöruðu til meintrar eða raunverulegrar vinnugetu þeirra.“

Ég vil minna á að fyrir þessu þingi liggur einnig till. til þál. flutt af Helga F. Seljan og fleiri þm. Alþb. um eflingu þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum, þar sem þeir leggja áherslu á að hér væri eitt verkefni sem komið gæti til góða hinum öldruðu í dreifbýlinu, sem ella sætu auðum höndum, og væri hægt með dálítilli atorku og áhuga að leysa úr brýnustu þörfum þeirra til vinnu: Hér er að mínu viti þörf rammalöggjafar, og ég treysti því, að hæstv. félmrh. taki þetta mál föstum tökum til þess að ég þurfi ekki enn að ári að standa upp og spyrjast fyrir um þetta mál.