05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

98. mál, raungildi olíustyrks

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það eru fróðlegar upplýsingar sem hér koma fram, þótt þær komi mér á engan hátt á óvart. Ég ætla ekki að fara að efast um þá útreikninga sem hér voru settir fram, sjálfsagt eru þeir endurbættir, en á sínum tíma, þegar var verið að reikna þetta hlutfall, var ávallt miðað við 12 lítra af olíu til þess að kynda upp einn rúmmetra húsnæðis. Í þessum útreikningum var reiknað með 12 –15 lítrum og munar þar litlu. Einnig var ávallt reiknað með 2.15 tonnum af heitu vatni til þess að kynda einn rúmmetra af húsnæði, en nú er það 1.9 tonn, þannig að þarna eru væntanlega einhverjar nýjar niðurstöður sem hafa breikkað þetta bil.

Ég ætla ekki að fjölyrða um olíustyrkinn og þann mismun sem er á kyndingarkostnaði. En það er eitt sem mér finnst vanta í þessar upplýsingar, og það er hvað kostar að kynda tilsvarandi húsnæði með rafmagni. Þess hefur alltaf verið gætt í sambandi við ákvörðun á olíustyrknum, að kyndingarkostnaður með olíu yrði þó ekki lægri en með rafmagni. Og ég held að það sé nauðsynlegt fyrir menn að gera sér nokkra grein fyrir því líka, því að það er mjög margt fólk sem hitar húsnæði sitt upp með rafmagni.

Nú er í gildi og hefur verið lengi, frá 1973 eða 1974, skattur á olíu, innflutningsgjald, sem ég man nú ekki hvað er mikið. Það er einhvers staðar á milli 1 og 2%, og það mun vera samsvarandi því að 10% skattur eða mjög nálægt því væri lagður á sölu á heitu vatni hér í Reykjavík. Hér er fyrst og fremst um að ræða að Alþ. hafi áhuga á að jafna þessa skattheimtu, því einhvers staðar þarf að ná þessum peningum. Ég vil því spyrja hæstv. viðskrh., hvort hann gæti hugsað sér að jafna þetta að nokkru leyti með því að leggja tilsvarandi skatt á heitt vatn og lagður er á olíu með þessu innflutningsgjaldi sem yrði þá til jöfnunar meðal landsmanna.

Eitt atriði, sem hefur einnig að mínum dómi staðið í vegi fyrir því, að þarna hafi náðst meiri jöfnuður, er okkar vísitölukerfi, því vísitölufjölskyldan býr hér í Reykjavík og kyndir hús sitt með heitu vatni, og vísitalan reiknast út frá því. Þess vegna hefur ávallt verið tilhneiging til þess, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að halda verði á heitu vatni jafnvel innan eðlilegra marka. Það hafa ávallt verið óskir um það hjá Hitaveitu Reykjavíkur að hækka vatnið miklum mun meir en raun ber vitni, en þetta hefur að mínum dómi staðið í vegi fyrir eðlilegri jöfnun, þ.e.a.s. að vísitölufjölskyldan skuli aðeins búa hér í Reykjavík.

Ég vil endurtaka spurningu mína til hæstv. viðskrh., hvort hann telji eðlilegt og réttlætanlegt að a.m.k. samsvarandi skattur sé lagður á heitt vatn og olíu, þó ekki væri lengra gengið til að byrja með.