05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

98. mál, raungildi olíustyrks

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær upplýsingar sem hér hafa komið fram um það mikla misrétti sem við þekkjum, sem úti á landi búum, og þar hafa tölurnar talað sínu máli. Ég þarf ekki að undirstrika það frekar, en treysti því, að á þessu fáist leiðrétting við afgreiðslu fjárlaga.

Ég tel hins vegar rétt að rifja það upp í örstuttu máli, að það hafa orðið breytingar á fjárframlögum til fleiri þátta en olíustyrks. Einnig hafa orðið breytingar að því er varðar framlög vegna hitaveiturannsókna og hitaveituframkvæmda sem tengdar voru á sínum tíma þessu 1% söluskattsstigi.

Þau lög, sem sett voru þar um 1974, voru afnumin í árslok 1977, að mig minnir. Á tímabili fráfarandi ríkisstj. var þessu fjárframlagi, sem kom inn fyrir þetta 1% söluskattsstig, skipt á milli olíustyrks og hins vegar skyldi afgangurinn renna til Orkusjóðs til að standa undir hitaveiturannsóknum, hitaveituframkvæmdum og öðrum þáttum sem Orkusjóði er ætlað að styðja. Þegar um þetta mál var fjallað hér á hv. Alþ. í desember 1977 kom það fram í máli þáv. hæstv. fjmrh., að hér væri einungis um formsbreytingu að ræða, en ekki efnislega, það væri ekki hugmyndin að skerða framlög til þessara þátta þrátt fyrir lagabreytinguna. Reyndin hefur því miður orðið önnur. Við höfum fengið tölur um þróun olíustyrksins, en ekki ósvipað hefur gerst varðandi framlög til Orkusjóðs og þannig hefur skapast þar stórfelldur vandi sem fyrir lá við síðustu stjórnarskipti og nemur nú yfir hálfum milljarði kr., um 560 millj. kr. Hefur verið reiknað út af orkuráði og Orkustofnun, að ef þessi lög um 1% söluskattsstigið væri í gildi og hlutfallsskiptin væru þau sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir varðandi olíustyrkinn, þá ætti að koma um 900 millj. kr., að mig minnir, meira til Orkusjóðs en nú er gert ráð fyrir samkv. fjárlagafrv. Þannig sést að um stórskert framlag er að ræða og þarna er vandi á ferðinni einnig að því er Orkusjóð snertir sem leysa verður að mínu mati nú í tengslum við fjárlagagerð og lánsfjáráætlun.

Svo vil ég að lokum aðeins geta þess, að það eru ekki aðeins þeir, sem búa við olíukyndingu húsnæðis, sem eru miklum órétti beittir. Einnig þeir, sem búa við rafhitun húsa á þeim hinum sömu svæðum, borga margfalt meira en þeir sem hafa rafhitun þar sem raforka er hvað ódýrust. Þessi munur er í sambærilegu húsnæði um 220–250%, mismunandi eftir því hvort um einbýlishús eða sambýlishús er að ræða, sem Austfirðingar t.d. og Vestfirðingar þurfa að greiða hærra verð fyrir rathitun sinna húsa.