05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

336. mál, störf byggðanefndar

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á fundi Sþ. 18. apríl 1973 var kosin nefnd 7 þm. til þess að gera tillögur um markmið, leiðir og mörkun almennrar stefnu í byggðamálum. Kosningin fór fram að viðhafðri hlutfallskosningu skv. ályktun Alþ. frá 13. apríl 1973 um þn. í byggðamálum. Í n. þessa voru kosnir þáv. hv. alþm. Steingrímur Hermannsson, Lárus Jónsson, Helgi F. Seljan, Matthías Bjarnason, Ingvar Gíslason, Karvel Pálmason og Pétur Pétursson.

Síðan þetta gerðist er liðinn alllangur tími, og enda þótt hér hafi stundum á hinu háa Alþ. komið fram einstakar, afmarkaðar tillögur í formi þingmála frá þeim hv. þm. sem skipað hafa þessa n., þá hef ég ekki orðið þess var, að n. hafi skilað áliti.

Ekki þarf að rek ja hér í löngu máli og ekki ástæða til að rekja umr. um byggðamál á liðnum árum. Þær hafa verið miklar, bæði fyrir þann tíma sem þessi n. var kjörin og eins síðan. Margt hefur verið vel gert í byggðamálum, en margt er þó ógert. Aðstöðumunur fólks, sem býr úti á landsbyggðinni, er mjög mikill í sumum greinum, m.a. að því er snertir þá þætti mála sem hér voru ræddir síðast. Þess vegna er mér og sjálfsagt ýmsum öðrum forvitni á að vita hvort þessi n. hefur skilað áliti og — ef svo er — hverjar séu þá niðurstöður hennar um markmið, leiðir og mörkun almennrar stefnu í byggðamálum.

Ég kýs ekki að hafa lengri formála að þessari fsp., herra forseti, en ég hef leyft mér að spyrjast fyrir um það, og beini fsp. minni til hæstv. forsrh., hvað líði störfum byggðanefndar sem kosin var af Alþ. 18. apríl 1973:

a) Hefur n. lokið störfum og ef svo er, hvenær má vænta þess, að nál. verði birt?

b) Hver voru laun nm. og hver var annar kostnaður við störf nefndarinnar?