05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

110. mál, vandamál frystihúsa á Suðurnesjum

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt hefur útgerð og fiskvinnsla á Suðurnesjum og reyndar Suðvesturlandi staðið afar illa að undanförnu. Ástæður fyrir þessum vandamálum eru vafalaust margar og flóknar, en hæst ber minnkandi aflabrögð og einnig að samsetning afla hefur verið mjög óhagstæð. Einnig er það skoðun mín, að stjórnvöld hafi ekki brugðist svo fljótt við vandanum sem þurft hefði. Áður fyrr eða allt til 1971 var atvinnulíf á Suðurnesjum eða Suðvesturlandi afar blómlegt og lagði jafnframt mikið fram í þá sjóði er voru til styrktar þeim landssvæðum er þá áttu við staðbundin vandamál að stríða. Í vor og sumar var hagur fiskvinnslu á Suðurnesjum svo bágborin, að frystihúsin hættu um skeið starfsemi og atvinnuleysi var verulegt af þeim sökum. Þegar ný ríkisstj. tók við völdum fóru hjól atvinnulífsins að snúast á nýjan leik. Vonir manna um betri tíð hafa eflaust átt þátt í því að svo varð.

Skömmu eftir að Kjartan Jóhannsson sjútvrh. tók við störfum skipaði hann starfshóp er átti að gera úttekt á vandamálum frystihúsanna. Að undanförnu hafa borist fréttir um að enn sæki í sama horf og fyrr í atvinnumálum Suðurnesjamanna, og má geta þess, að nú fyrir helgina var á annað hundrað manns sagt upp störfum í frystihúsunum. Því þótti mér brýnt að spyrjast fyrir um það, hvað liði fyrrgreindri úttekt, og jafnframt þurfa að fylgja upplýsingar um tillögur til úrbóta og hve miklu fjármagni verður veitt á svæðið svo að þær tillögur geti orðið að veruleika.

Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta: „Hvað líður úttekt þeirri á vandamálum frystihúsanna á Suðurnesjum sem sérstakur starfshópur vinnur að á vegum sjútvrh.?“