05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

110. mál, vandamál frystihúsa á Suðurnesjum

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Fsp., sem hér liggur fyrir, hljóðar þannig: „Hvað líður úttekt þeirri á vandamálum frystihúsanna á Suðurnesjum sem sérstakur starfshópur vinnur að á vegum sjútvrh.?“

Fsp. svipaðs eðlis hefur borist frá hv. þm. Eiríki Alexanderssyni þar sem óskað er skriflegs svars. Ég hef skilað því svari og því verður væntanlega útbýtt.

Það er rétt að minna á aðdraganda þessa máls. Með bréfi, dags. 21. sept. 1978, óskaði sjútvrn. eftir að Þjóðhagsstofnun tilnefndi einn mann og Framkvæmdastofnun 2–3 menn í starfshóp til að gera athugun á stöðu fiskvinnslufyrirtækja, sem búa við svæðisbundin vandamál, og gera tillögur um úrlausn þeirra. Þjóðhagsstofnun tilnefndi einn mann og Framkvæmdastofnun ríkisins tilnefndi tvo. Í erindisbréfi starfshópsins er honum ætlað að hafa samráð við heimamenn svo og hagsmunaaðila og lánastofnanir sjávarútvegsins. Í erindisbréfinu segir enn fremur:

„Starfshópurinn skal skila tillögum um fjárhagslega, tæknilega og stjórnunarlega endurskipulagningu fyrirtækja í sjávarútvegi á hverju svæði. Við athugun og áætlanagerð skal sérstaklega stefnt að því að tryggja atvinnuöryggi, samræmi í uppbyggingu veiða og vinnslu og aukna hagkvæmi og bætta nýtingu í vinnslunni.“ Starfshópurinn tók til starfa í lok. sept. s.l.

Þessi starfshópur var skipaður í framhaldi af setningu reglugerðar um ráðstöfun gengismunar eða samhliða henni. Tilgangurinn var auðvitað í fyrsta lagi að athuga stöðu fyrirtækjanna og í öðru lagi að skila áliti sem gæti verið til hliðsjónar við stefnumörkun. Það er tekið fram í reglugerðinni að stuðla eigi að bættu skipulagi í veiðum og vinnslu og jafnframt að þar sem rekstur hafi stöðvast skuli fyrirtæki hafa forgang.

Fyrsta verkefni þessa starfshóps var svæðisbundinn vandi frystihúsanna á Suðurnesjum. Ástæður þess, að Suðurnesin voru tekin fyrst, voru einkum tvær. Frystihúsin á Suðurnesjum höfðu þegar stöðvast, og í öðru lagi var vitað fyrir að svæðisbundinn vandi frystihúsanna var mestur á Suðurnesjum. Í því sambandi er rétt að benda á að í sérstakri athugun á afkomu frystihúsa eftir landshlutum, sem Þjóðhagsstofnun gerði í okt. 1977, kom m.a. fram að afkoma frystihúsanna á Suður- og Suðvesturlandi var sýnu lökust. Athugun starfshópsins hefur þannig beinst fyrst og fremst að frystihúsunum á svæðinu frá Grindavík til Voga, en á þessu svæði eru nú 24 frystihús.

Eftirfarandi atriði hafa verið sérstaklega könnuð: Mikilvægi fyrirtækjanna í atvinnulífi á hverjum stað, í annan stað fjárhagsstaða fyrirtækjanna nú, rekstrarárangur þeirra á þessu ári og undanförnum árum og almennt mat á stjórnun fyrirtækjanna, og í þriðja lagi tæknibúnaður fyrirtækjanna, afkastageta og nýting.

Starfshópurinn hefur skilað fyrstu tillögum sínum og þar kemur m.a. fram, að starfshópurinn telur að af þeim 24 frystihúsum, sem eru á svæðinu, skipti 9–11 höfuðmáli, bæði að því er varðar atvinnulíf og framleiðslu. Fyrirtækin 11 eru með nálægt 80%, af freðfisksframleiðslunni á svæðinu, þannig að atvinnulega séð skiptir höfuðmáli að þau séu starfrækt. Séu þau ekki starfrækt er atvinnulífi sérstök hætta búin.

Starfshópurinn hefur kannað fjárhagsstöðu og tæknibúnað áður greindra fyrirtækja, sem talin eru mikilvægust frá atvinnusjónarmiði, og við athugun á fjárhagsstöðu hefur sérstaklega verið kannaður rekstrarárangur og greiðslugeta og greiðsluþol fyrirtækjanna. Þá hefur verið lagt mat á kostnað við brýnustu tæknilegu endurbætur í þessum fyrirtækjum ásamt nauðsynlegri styrkingu fjárhagsstöðu og settar fram hugmyndir um þetta efni.

Af öðrum tillögum starfshópsins má nefna, að lagt er til að komið verði á fót sameiginlegri fiskmóttöku og fiskmiðlun fyrir togaraafla á svæðinu, þannig að hráefnið berist jafnt að og unnt sé að vinna það nýtt.

Í öðru lagi er lagt til að komið verði á fót á svæðinu sameiginlegri reiknistofu frystihúsanna, sem m.a. fylgdist með hráefnisaukningu og vinnulaunakostnaði frystihúsanna og veitti þeim almenna rekstrarráðgjöf. Hráefni og vinnulaun eru sem kunnugt er að jafnaði um 3/4 hlutar af rekstrarkostnaði hvers frystihúss, og af hálfu starfshópsins er þessi aðgerð hugsuð til þess að stuðla að betri og öruggari stjórnun fyrirtækjanna.

Þá telur starfshópurinn þýðingarmikið að togaraaflinn gegni veigameira hlutverki í hráefnisöflun frystihúsanna en nú er. Togaraútgerð tryggir öruggari og jafnaði hráefnisöflun allt árið en bátaútgerð megnar, og þess vegna verður rekstur frystihúsanna jafnari og öruggari á grundvelli togaraútgerðar heldur en bátaútgerðar að dómi starfshópsins, og sjálfsagt eru fleiri um það álit. Eins og nú er kemur nálægt helmingi þess afla, sem frystihúsin 11 taka á móti í frystingu, söltun og herslu, af togurum.

Í raun er hér um margþætt verkefni að ræða, eins og af þessu má ráða. Í fyrsta lagi er hin fjárhagslega endurskipulagning eða lagfæring á fjárhagsstöðu fyrirtækjanna. án þess að hún komi til með einum eða öðrum hætti er þess ekki að vænta, að þau verði rekin. Í annan stað þurfa að eiga sér stað vissar tæknilegar úrbætur til þess að fyrirtækin séu betur í stakk búin til þess að skila góðum rekstrarárangri. Í þriðja lagi er um að ræða stjórnunaraðgerðir sem geta verið mikilvægar með tilliti til þess, að reksturinn gangi sem best. Í því sambandi leggur starfshópurinn til að komið verði á reiknistofu. Í fjórða lagi er það hráefnisjöfnun eða miðlun, og þá má tala um það annars vegar út frá því hráefni, sem nú berst á land, og hins vegar, að til lengri tíma litið yrði hráefnisöflun traustari með því að stærri hluti þess afla, sem á land berst, kæmi af togurum. Og það er hugmynd starfshópsins að auka eigi togaraútgerð á kostnað bátaútgerðar á svæðinu.

Nú er unnið að framkvæmd þeirra tillagna starfshópsins sem lúta að styrkingu á fjárhagsstöðu fyrirtækjanna með breytingu á lausaskuldum í lán. Í þessu sambandi standa yfir viðræður við viðskiptabanka fyrirtækjanna og fleiri aðila um þátttöku í lánalengingum. Verður leitast við að hraða framkvæmd málsins eins og kostur er, þannig að þessum þætti verði lokið fyrir áramót. Eftir því sem þurfa þykir verða sett skilyrði fyrir lánveitingum og þá í því skyni að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri og stjórnunarlegum endurbótum.

Nú þegar þessar tillögur liggja fyrir um aðgerðir í málefnum frystiiðnaðarins á Suðurnesjum verða aðrir landshlutar eða landssvæði tekin fyrir. Raunar er þegar hafin athugun á stöðu frystihúsanna á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, og í framhaldi af því koma önnur landssvæði. Í þessu sambandi vil ég minna á, að þegar núv. ríkisstj. tók við var alger rekstrarstöðvun eða að hluta á stórum hlutum af Reykjanesi og Suðvesturlandi. Það er því ómótmælanlegt, að á þessu svæði var við erfiðasta vandann að glíma og þess vegna eðlilegt og sjálfsagt að fyrst yrði tekist á við vandamálin á þessu svæði og þau könnuð sérstaklega.

Ég tel að sá vandi, sem við er að glíma á Suðurnesjum, sé margþættur, og ég held að það sé ljóst, að hann eigi sér langan aðdraganda. Það, sem skiptir meginmáli, er að feta stig af stigi til betra ástands en verið hefur, og eins og ég gat um þarf þar margt til að koma. Annars er ekki að vænta en að nokkurn tíma taki að ná árangri og vinna verði málið lið fyrir lið.