05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

110. mál, vandamál frystihúsa á Suðurnesjum

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. Eiríkur Alexandersson gaf mér tilefni til þess að koma hér og gera nokkrar aths. og koma á framfæri nokkrum sjónarmiðum í sambandi við þetta mál. Hv. þm. Eiríki Alexanderssyni er það e.t.v. gleymt og grafið, hver sá viðskilnaður var s.l. sumar þegar stjórnun þessara mála fór úr höndum sjálfstæðismanna. Sjálfstfl. hafði haft forustu um fiskveiðimál í sjávarútvegsráðherratíð hv. núv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og um leið þessi mál Suðurnesja. Þegar hæstv. sjútvrh. Kjartan Jóhannsson tekur við sjútvrn. var atvinnuleysi á þessu svæði. Þá höfðu fiskiðnfyrirtækin á Suðurnesjum stöðvast, sagt var: hingað og ekki lengra. Þessi fyrirtæki höfðu verið í fjársvelti nær allan þann tíma, öll þau 4 ár sem þessi mál voru undir forustu sjálfstæðismanna, og niðurstaðan varð sú, að þegar hæstv. fyrrv. sjútvrh. lét af störfum var þar atvinnuleysi á svæðinu og fyrirtækin stöðvuð.

Ég vil aftur á móti þakka hæstv. sjútvrh. hans lofsverða framtak á þessu sviði nú. Það er langt síðan heyrst hefur um slík snarhandtök sem hafa verið höfð á þessu sviði. Það hefur verið bryddað á nýjum vinnubrögðum, — vinnubrögðum sem eiga að miða að því að það fjárfestingarfjármagn nýtist sem fyrir hendi er og á að veita til þess að efla sjávarútveg og fiskvinnslu. Það kom fram í máli hv. þm. Eiríks Alexanderssonar, að fyrr á þessu ári hafi einhverju fjármagni verið veitt til þessara fyrirtækja, en það hefur auðsjáanlega farið fyrir lítið. Þess vegna er það grundvallaratriði, að rekstrarstöðukönnun fari fram á þessu svæði og gerðar verði skipulagsbreytingar þannig að fjármagnið, sem veitt verður, nýtist til hagsbóta í fiskiðnaði og sjávarútvegi og til hagsbóta fyrir fólkið allt á þessu svæði. Það er grundvallaratriði. Og það er séð að hæstv. sjútvrh. er á réttri leið í þessum efnum. Ég trúi því, að niðurstaðan úr þessari könnun og aðgerðir í framhaldi af henni eigi eftir að lyfta þessu byggðasvæði upp úr því ástandi, sem Sjálfstfl. skildi við það við síðustu stjórnarskipti.

Herra forseti. Ég verð ekki miklu langorðari, en ætla að minnast á eitt atriði þessu samtengt. Eins og okkur er kunnugt um er þarna um 6–7 verstöðvar að ræða. Íbúar þessara verstöðva eru háðir fiskveiðum og fiskvinnslu og engu öðru. Slæm fjárhagsstaða þessara fyrirtækja þýðir það, að fjárhagsstaða sveitarfélaganna sem slíkra stendur mjög völtum fótum um þessar mundir. Önnur fyrirtæki starfa í tengslum við sjávarútveg á þessu svæði, og sveitarsjóðir eru vissulega háðir þessum fiskiðnaðarfyrirtækjum, og því gefur að skilja að þegar hart er í ári og hart er í búi, þá er erfitt um aðdrætti. Það er erfitt fyrir sveitarsjóðina að innheimta sín gjöld af fiskiðnfyrirtækjum. Þetta er vandamál sem einnig þarf að horfa á í þessu samhengi. Það þarf vissulega að gera ákveðnar bráðabirgðaráðstafanir til þess að þarna geti haldið áfram að blómgast eitthvert líf, en til lengri tíma verður að gera grundvallarskipulagsbreytingar þannig að til heilla horfi um framtíðina.