05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

110. mál, vandamál frystihúsa á Suðurnesjum

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég get nú ekki annað gert en lýsa undrun minni yfir þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram. Ég vil minna á að það var allt saman dautt á Suðurnesjum hinn 1. sept. þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, en fyrirtækin hafa verið starfrækt síðan. Ég held líka að einmitt það starf, sem hefur verið unnið, sé unnið í þeim anda að styrkja grundvöllinn til frambúðar, og það var einmitt í þeim anda og með tilliti til stefnumörkunar sem þessi starfshópur var settur til starfa. Það er ljóst, að til þess að treysta þetta til frambúðar þarf margt til að koma, eins og ég rakti hér á undan, m.a. fjárhagsleg og tæknileg endurskipulagning. Hvort tveggja þetta kemur fram í störfum starfshópsins og að hvoru tveggja þessu hefur verið unnið. Ég gat þess, að nú væri unnið að viðræðum við viðskiptabanka og fleiri aðila um lengingu lána til þess að treysta fjárhagsstöðuna. Ég gat þess líka, að þó að byrjað væri á þessum stað þýddi það ekki að aðrir staðir, sem ættu við sérstök vandamál að glíma, yrðu ekki teknir fyrir, heldur yrði farið yfir landið allt.

Ég get vel tekið undir það með hv. þm. Kjartani Ólafssyni, að víða sé pottur brotinn og það verður að skoða þá staði sérstaklega sem verst eru settir, enda er það sérstaklega tekið fram í reglugerðinni sem starfað er eftir.

Að því er varðar hugmyndir hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, þá veit ég að það er ábending sem á fullan rétt á sér, enda munn mál af þessu tagi einungis leysast af heimamönnum. hvernig flotinn skuli vera upp byggður, og fyrst og fremst með hliðsjón af mörgum sjónarmiðum. Engu að síður held ég að það sé ljóst, ef litið er á frystinguna eina sér, að togaraútgerð hentar betur til þess að skapa örugga hráefnisöflun og jafna hráefnisöflun til frystingarinnar, svo að það sjónarmið á fullan rétt á sér. Ég tel að með því starfi, sem hér hefur verið unnið, hafi verið stefnt að því að ná fram aðalatriðunum í þessu máli að því er Suðurnesin varðar, fá fram hvað væri mikilvægast með tilliti til þess að treysta atvinnuöryggi á staðnum, hver væru mikilvægustu sjónarmiðin með tilliti til þess, að atvinnulífið stæði þar traustari fótum. Ég tel líka að það hafi verið unnið að því af fullum þrótti að fyrirtækin þarna suður frá gætu skrimt eins og önnur fyrirtæki hér á landi í þessari vinnslugrein, því að afkoman er nú ekki betri en það, að það er ekki hægt að tala um að þau geri meira en að skrimta. Ýmiss konar kröfugerð, sem er uppi um margvíslega hluti hér í þjóðfélaginu, ætti ekki síður að beinast að því að skapa undirstöðuatvinnuvegunum góðan rekstrargrundvöll.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta. Ég tel að þau svör, sem hér hafa verið gefin, svari þeirri fsp. sem fram hefur verið borin. Áfram verður unnið að því að ná fram þeim markmiðum sem eru mikilvægust fyrir Reyknesinga, nefnilega að treysta grundvöll þessarar undirstöðuatvinnugreinar. En jafnframt verður á hverjum tíma að sjá til þess, eftir því sem frekast er unnt, að til atvinnustöðvunar komi ekki. Þetta hvort tveggja hefur þó tekist. Það tókst að koma atvinnulífinu í gang, það er verið að vinna að því að treysta grundvöllinn að því er hina fjárhagslegu stöðu varðar, og það kemur að því að það verður að treysta hana líka skipulagslega séð og að því er tæknibúnað húsanna varðar. En menn skulu gæta að því, að þetta er svæði, sem hefur dregist stórlega aftur út á undanförnum árum, og margra ára vanræksla verður ekki unnin upp á þremur mánuðum.