06.12.1978
Efri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

94. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Stefán Jónsson [frh.]:

Herra forseti. Ræðu minni var frestað sökum þingflokksanna er frv. kom til umr. fyrr. Hafði ég þá tekið til máls öðru sinni og vil nú ljúka athugasemdum mínum, í fyrsta lagi við ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals sem nú er því miður af þingi brott, og segi ég þetta ekki vegna þess að ég fagni ekki hv. þm. Jóni Sólnes innilega, heldur segi ég þetta vegna þess, að ég átti enn smávegis vantalað við hv. þm. Halldór Blöndal, enda þótt ég raunar lyki máli mínu þá með því að lýsa yfir skilningi mínum á því tilfinningalega viðhorfi Halldórs Blöndals, að hann vildi ekki láta drepa fugla aðra en þá sem hann væri á móti prívat og persónulega fyrir sig. Þar með voru taldir þeir fuglar sem friðlausum er ætlað að vera í frv. þessu, svo sem hrafnar, svartbakar og kjóar, en hann vildi umfram alla muni bæta við hettumáf, vegna þess að einnig hann væri ákaflega vondur fugl við unga mófuglanna og einnig við andarunga sem hv. þm. af skiljanlegum ástæðum hefur samúð með og ber ugg út af. Það geri ég einnig.

Ég mun nú ekki orðlengja um þessi atriði, en vil þó aðeins minna á það, að fuglar þeir tveir, sem gremja höfunda þessa lagafrv. og hv. þm. Halldórs Blöndals virðist fyrst og fremst beinast að, þar sem eru svartbakurinn og hrafninn, — þessir tveir fuglar, sem vissulega valda t jóni á lífríki landsins og þ. á m. á lífi annarra fugla, vinna þó fyrir okkur ákveðið mjög mikilvægt starf fyrir þjóðarheildina sem við trössum okkur til stórskammar og allt að því heilsutjóns, þar sem þeir eru látnir annast sorphreinsun á landi hér.

Ég hygg að gegn því verði ekki mælt, eins og raunar hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á, að meginorsökin fyrir því, hversu fuglum þessum hefur fjölgað úr hófi fram, er sóðaskapur við fiskiðjuverin okkar og sláturhúsin okkar og í meðferð á sorpi á Íslandi. Gegn þessum sóðaskap vinna fuglar þessir tveir, þeir annast hér sorphreinsun. Gott og vel, ef við ætlum að fækka þessum tveim fuglum sem þjóðin elur upp með þessum hætti, ef við ætlum að koma í veg fyrir að þeir vinni tjón á öðrum og nytsamari fuglategundum, að því er við köllum, þá hljótum við að snúast gegn þeim á þeim vettvangi sem hæfilegur er: með því að setja strangari viðurlög við lagabrotum varðandi meðferð á úrgangsefnum við fiskiðjuverin og sláturhúsin, með því að herða á framkvæmd laga sem falla undir heilbrrn.

Það hefur verið reynt og fullreynt, að þessum fuglategundum verður við núverandi aðstæður ekki fækkað með skotum. Með eitri væri það e.t.v. hægt og þá með þeim afleiðingum að öðrum fuglategundum yrði grandað. Þeir yrðu þá höggnir í leiðinni. Og ef við leyfum okkur enn að ræða um afstöðuna til fugla frá tilfinningalegu sjónarmiði, þá skulum við minnast þess, að einnig þessar tvær tegundir eru lifandi. Hrafninn er að vísu svartur, en hv. þm. mega minnast þess, að hann er rauður að innan.

Ég ásakaði hv. þm. fyrir fávísi þegar hann kvaddi sér hljóðs um þetta mál. Það hefði ég betur ekki gert, vegna þess að höfundar frv., sem hér er um fjallað, — og var þó til þess trúað af ráðh. að semja lagafrv. sem hér var lagt fram í fyrra, — eru bersýnilega alls ekki betur að sér en hv. þm. Halldór Blöndal í því er lýtur að lífi íslenskra fugla eða að möguleikum á því að veiða þá.

Hv. þm. sagði að staða andarinnar væri mjög slæm. Nú er það svo, að endur hér eru ekki einnar tegundar, öndin er ekki ein. Að tala um að illa sé komið fyrir öndinni er svona eins og að segja að illa sé komið fyrir jórturdýrinu og eiga þar við sauðfé, geitur, nautpening, hreindýr og jafnvel hross, því að líffræðilegur munur er ekki öllu minni milli sumra andategunda heldur en á milli hrossa og nautpenings.

Ég vil í sambandi við þessa fullyrðingu mína um það, að frv. þetta til laga sé ekki samið af mikilli þekkingu á raunverulega efninu sem um er fjallað, geta þess, að þar ríkir grómtækur misskilningur á hegðun, lífsháttum og afkomumöguleikum ýmissa fugla og það svo, að maður undrast að fuglafræðingur, vel menntaður, skuli hafa verið með í hópnum sem um frv. fjallaði, þótt það verði skiljanlegra þegar kemur í ljós við lestur fskj. að lítið tillit hefur verið tekið til skoðana hans. Þá eru beinlínis villandi upplýsingar í fskj. frv. sem eiga að rökstyðja og útskýra hinar ýmsu greinar þess. Vafasamar staðhæfingar koma fram m.a. í því sem frá greinir um rjúpuna og afstöðuna til hennar, að maður minnist nú ekki á þá fásinnu, þar sem því er haldið fram að andartegundirnar, sem ekki fara frá Íslandi á veturna og leyfilegt er að veiða, þar sem eru stokköndin, urtöndin og rauðhöfðaöndin, haldi sig til fjalla á veturna innan um rjúpuna.

Ég vil alls ekki hrakyrða á nokkurn hátt þá menn sem fjallað hafa um frv. þetta. En draga mætti þá ályktun af ýmsu í skjali þessu, sem hér hefur verið lagt fyrir hv. Alþ., að öndin ætti ekki bara bágt, að hún hefði aldrei komist úr egginu hvað suma menn varðar.

Ég ítreka enn þá beiðni mína, að hv. menntmn., sem fær þetta frv. til meðferðar, vísi því aftur til ríkisstj. með beiðni um að um það verði fjallað öðru sinni, skipað verði öðruvísi í nefnd til undirbúnings þessu máli, og þó umfram allt að við setningu nýrra laga um málefni þessi, hvort sem þau munu þá enn heita lög um fuglaveiðar og fuglafriðun eða lög um skotveiði á Íslandi, verði þess gæfi, að ekki verði skilin eftir þess háttar réttaróvissa sem verið hefur frá setningu laganna 1954 og enn er kveðið á um í 2. málsl. 5. gr. þessa lagafrv. Sú réttaróvissa hefur valdið í vaxandi mæli úlfúð, þar sem allt er laust og annað á huldu um rétt þegnanna til þess að stunda fuglaveiði á landi hér, þar sem einstökum þegnum úr þéttbýlinu er ætlað að bítast um það við einstaka landeigendur upp á reginfjöllum í skammdeginu, hvort þeir hafi leyfi til þess að veiða þar fugla eða ekki. Þetta tel ég alveg óhæfilegt og vænti þess, að hv. Alþ. sjái sóma sinn í því að afgreiða ekki þess háttar lög, sem fremur séu fallin til þess að valda úlfúð meðal þegnanna en kveða ljósum orðum á um rétt þeirra.