06.12.1978
Efri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

53. mál, verðjöfnunargjald af sauðfjárafurðum

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um greiðslu verðjöfnunargjalds af sauðfjárafurðum, sem er komið til þessarar hv. d., er flutt til að framkvæma það ákvæði í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna að endurgreiða það verðjöfnunargjald, sem Framleiðsluráð landbúnaðarins ákvað að leggja á sauðfjárafurðir s.l. vor til jöfnunar á útflutningsverði sauðfjárafurða. Áætlað er að gjald þetta muni samtals verða um 1300 millj. kr., eins og fram kemur í grg. með þessu frv.

Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál. Þó vil ég aðeins rekja aðdraganda og sögu útflutningsbóta. Útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir voru ákveðnar 1961 og var þá ákveðið og sett í lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins, að heimilt skuli vera að greiða úr ríkissjóði til bænda allt að 10% af afurðaverði landbúnaðarafurða sem útflutningsbætur. Þarna er hugsunin að sjálfsögðu sú að tryggja bændum tekjur fyrir framleiðslu, sem er umfram innanlandsþarfir, með greiðslu slíkra útflutningsbóta, og vísast að sjálfsögðu til þess, að útflutningsverð hefur ekki almennt náð því verði sem gert er ráð fyrir í grundvallarverði og samkv. ákvörðun um útsöluverð landbúnaðarafurða. Þessar útflutningsbætur hafa gegnum árin yfirleitt nægt til þess að jafna, eins og ég hef skýrt frá, útflutningsverð, nema tvö síðustu árin, þar sem nokkur munur hefur verið á og farið vaxandi. Árið 1977 vantaði tæplega 500 millj. til þess að fullar útflutningsbætur næðust. Þá náðist samkomulag um það innan ríkisstj., að heimilt var að greiða umfram 10% af uppsöfnuðum útflutningsbótum, getum við sagt, þrjú ár þar á undan. Á s.l. ári var þessi munur hins vegar miklu meiri. Eins og fram kemur, var þá áætlað að 1300 millj. kr. vanti til þess að jafna útflutninginn að fullu. Var það ástæðan til þess, að bændasamtökin ákváðu að leggja á þetta gjald.

Því miður horfir nú svo, að jafnvel enn muni aukast það bil sem er á milli heimilaðra útflutningsbóta og nauðsynlegs útflutnings. Allt bendir til þess, að nauðsynlegt reynist að flytja út sauðfjárafurðir á yfirstandandi verðlagsári landbúnaðarins sem verði jafnvel um 50% af innanlandsneyslu sauðfjárafurða. Sömuleiðis er umframframleiðslan á mjólkurafurðum mjög mikil eða nálægt 25% af innanlandsneyslunni. Því hefur verið gert átak í markaðsleit. En ekkert bendir til þess að markaður fáist fyrir sauðfjárafurðir sem gefi meira en í besta lagi um 50% af heildsöluverði sauðfjárafurða, og ástandið er enn þá verra með í mjólkurafurðir. Þar má segja að aðeins osturinn og nánast þó ein osttegund, óðalsostur, sé sæmilega seljanlegur og fáist fyrir hann um 50% af kostnaðarverði. Ég ætla ekki að fara að rekja þetta nánar. Þetta er ástand sem um mun verða rætt á þinginu fljótlega. Ég hef boðað að frv. verði lögð fram nú innan örfárra daga. Geri ég ráð fyrir að svo verði, og þá skapast betra tækifæri til að ræða þessi mál.

Í hv. Nd. lagði ég til að þessu frv. yrði vísað til hv. landbn. Vera má, að það hafi verið skakkt, og vera má að frv. hafi átt að fara til fjh.- og viðskn. Þessi varð þó niðurstaðan í hv. Nd. og því leyfi ég mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.