06.12.1978
Efri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

80. mál, sala notaðra lausafjármuna

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við frv. sjálft. Seint hygg ég að við verðum ásáttir um þær kjarabætur sem alþýða manna fær af því að leggja niður verðlagseftirlit og láta það algerlega í hendur hinnar frjálsu samkeppni sem við höfum ekki beint góða reynslu af hér á Íslandi. Við höfum nú hvort tveggja, verðlagseftirlit á sumu og frjálsa samkeppni í öðru, og ég hygg að menn vilji yfirleitt ekki skipta yfir í það sem er þar sem hin frjálsa samkeppni er í algleymingi.

Um þau atriði önnur, sem hv. þm. minntist á varðandi gjaldeyrislöggjöf og almenna vegferð fjármagns, sem hann er allra manna kunnugastur og hefur einmitt flutt um að mínu viti merk frv. sem vissulega ber að skoða, þá er ég ekki svo kunnugur því, að ég þori út í að fara eða skeggræða við hann um þá hluti, enda mun hv. þm. vera nokkurn veginn sérhæfður í þessari almennu vegferð fjármagns, eins og hann kallar svo.

Ég vil aðeins taka það fram, að það er rétt að í sambandi við allt af þessu tagi kemur upp viss hræðsla við að skriffinnska kunni að verða mikil. Ég vil þó aðeins benda á að sú heimildarskrá, sem gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi eigi að færa, er mjög fljótfærð, og þó að þetta sé talið upp í sjö tölul., þá er það ekki erfiðara fyrir þann, sem með þetta á að fara, en það, að hann á að skrá eftir því sem við verður komið þessar upplýsingar: móttökunúmer hlutar, það er fljótgert; móttökudag, það er fljótgert einnig; lýsingu hlutar, það getur kannske vafist fyrir því eldra fólki, sem þarna er að selja, að lýsa því svo nákvæmlega að vel fari; nafn, stöðu og heimilisfang þess sem hlutinn afhenti, það held ég að sé mjög fljótgert: söludag hlutar: nafn, stöðu og heimili kaupanda hlutar; innkaupsverð, viðgerðarkostnað, ef einhver er, og söluverð hlutar. Þetta er allt og sumt sem heimildarskráin á að innihalda, og ég held að sá, sem treystir sér til að versla með notaða hluti, hljóti einnig að vera fær um það að færa inn í slíka heimildarskrá. Ég held að hér sé ekki um hindrun á starfsemi að ræða sem ég tek fyllilega undir að á rétt á sér, einkum hjá eldra fólki sem fæst við þetta.

Ég vil einnig taka það fram, af því að það kom fram nokkur misskilningur um það í fyrra á Alþ., að hér er auðvitað ekki um neinar hömlur að ræða á sölu sem fer beint fram milli tveggja aðila. Hér er eingöngu um umboðssölu á vörunum að ræða.

Ég segi ekki að við eigum að taka okkur Norðurlönd til fyrirmyndar í öllu. En ég held að það standi, sem ég sagði áðan, ekki síst í ljósi þess sem upp hefur komið varðandi bílasölurnar okkar, að ekki sé minni ástæða til varfærni og varnagla af okkar hálfu í sambandi við þessa verslun heldur en er hjá grönnum okkar. Það er þess vegna sem ég held að við eigum að taka á þessu máli eins vel og hægt er. Ég er ekki að segja að þetta frv. nái fyllilega þeim tilgangi, en ég treysti þá n. til að sjá svo um að þar verði sá varnagli sleginn sem dugi sem allra best.

Ég skal vera til viðtals við hv. þm. um lagafrv. af ýmsu tagi sem samhæfi löggjöf okkar löggjöf Norðurlandaþjóðanna um viðskipti almennt, þó að ég undanskilji nú strax verðlagseftirlitið, af því að á því kann ég svolítil skil, en ekki eins mikil á hinu. Þó tek ég fram að við munum líklega seint verða samferða í áfengismálinu.