06.12.1978
Neðri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

115. mál, Ríkisendurskoðun

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í sambandi við þetta frv. sem hér er til 1. umr. Ég vil taka undir með flm. og hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Vesturl., að ég er fylgismaður þess arna. Ég hafði nokkur kynni af þessum störfum fyrir tæpum áratug eða svo, og mér er fullkomlega ljóst að hér er geysilega mikið verk að vinna. Við, sem þá tókum þátt í endurskoðuninni fyrir hönd Alþ., náðum ekki verulegum árangri fyrr en tókst gott samstarf okkar við endurskoðunarstofnanir ríkisins undir forustu núv. ríkisendurskoðanda, Halldórs V. Sigurðssonar. Það var mat okkar, að hann ynni þetta verk mjög vel og myndarlega. Það gat auðvitað ekki orðið frá okkar hendi nema mjög takmörkuð endurskoðun, og þá tókum við vissa þætti, sérstaklega þá sem þeir höfðu gert athugasemdir við, og fórum betur yfir þá.

Ég held að það beri brýna nauðsyn til þess að tengja þennan þátt mjög við Alþ., því þarna er einmitt til meðferðar sá þáttur sem Alþ. varðar verulega, hvernig farið er með það fjármagn sem Alþ. hefur ákveðið að nota skuli í ríkisreksturinn. Ég vil segja það, að þó mönnum þyki ekki nóg hafa verið að gert, sem ég tek undir líka, þá hefur verið unnið verulega mikið að þessum málum nú um nokkurt skeið. Ég efast ekki um að það hefur sótt mjög í rétta átt. En ríkisrekstur okkar er það umsvifamikill að það gerist ekki á einum degi eða svo, á einu ári eða jafnvel einu kjörtímabili að á verði verulegar breytingar.

Ég álít að það hafi verið til mikilla bóta þegar lög voru sett um að ekki væri hægt að fjölga ríkisstarfsmönnum nema með samþykki þeirra aðila sem þar eiga að vera að verki,, nefndar sem er m.a. skipuð fulltrúa frá fjmrn. og fulltrúa frá fjvn., sem hefur þá venjulega verið tilnefndur, þegar hefur verið tveggja flokka stjórn, af þeim aðila sem ekki hefur átt fjmrh.

Ég vil líka upplýsa það í sambandi við þessi mál, að sú skipulagsbreyting, sem hefur verið unnið að hjá Pósti og síma, sem er stærsta fyrirtæki í landi okkar, hefur skilað verulega miklum árangri. Það tók ein 2–3 ár að vinna að þessum málum áður en til framkvæmda kom, en síðan búið var að finna þær leiðir, sem mönnum sýndust farsælastar, hefur verið unnið alveg sleitulaust að því að hagnýta og skipuleggja þessa starfsemi betur. Núna á u.þ.b. hálfu öðru ári er búið að fækka hjá Pósti og síma um 100 ársdagsverk vegna þessara skipulagsbreytinga. Svo hefur verið á þessum málum haldið, að það hefur í reynd ekki þurft beint að segja upp fólki, heldur láta það bæði hverfa í ný störf og fella niður störf, sem fólk hætti í, sem hefur verið mikið um hjá þessari stofnun. Yfirstjórn þessara mála hefur líka mjög mikið breyst, og það gerir sitt að verkum, því að nýtingin á því fólki, sem þarna er að störfum, er miklu betri en áður hefur verið og þess vegna hefur þetta tekist. Hinu verða hv. þm. að gera sér grein fyrir, að tekjur stofnunar eins og Pósts og síma, sem sér að öllu leyti um sína starfsemi, bæði framkvæmdir og annað, hafa þurft að aukast í okkar verðbólgu, þó það hafi verið mun minna en ella vegna skipulagsbreytingarinnar. — Á þetta vil ég minna því stundum gleymist það jákvæða sem gert hefur verið, sem stefnt hefur í rétta átt, eins og t.d. hjá Pósti og síma.

Það þarf að halda áfram á þessari braut. Ég er sannfærður um að með þeirri skipulagsbreytingu, sem lögð er til með þessu lagafrv., er stefnt í rétta átt til að ná árangri í þessari starfsemi. Ég hef enga trú á því, að hægt sé að gera breytingu í ríkiskerfinn með skjótum hætti. Til þess eru mál of flókin. Þeir, sem ætla sér að gera það, hafa ekki áttað sig á því, hvernig þetta er í raun og veru upp byggt og hvað þarf til þess arna. En með markvissu starfi í þessa átt er hægt að ná verulegum árangri. Ég vona að hv. Alþ., sem nú situr að störfum, heri gæfu til þess að láta þetta frv, verða að lögum.