07.12.1978
Sameinað þing: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég ræði um notkun á almannafé það á Alþ. ef mér sýnist svo, hvort sem hv. þm. Vilmundi Gylfasyni líkar það betur eða verr. Mér þykir það koma úr hörðustu átt, að hann, sem lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi, skuli láta sér detta í hug að finna að því, sem er aðalatriði þessa máls, að hér hefur almannafé verið notað og almennur menningarsjóður verið notaður sem skálkaskjól til þess að halda afkristnunarefni að íslenskum börnum. Ég get ekki séð að alþm. komi þetta minna við en margt það sem hér er rætt á þinginu, að Alþ. komi þetta minna við en jafnvel rannsókn máls Skúla í Laxalóni, sem er ekki heldur á Alþ. fremur en höfundur eða þýðandi þessarar bókar. Aðalatriði þessa máls er þetta: Hér hefur norrænn þýðingarsjóður, sem stofnaður er í sameiginlegum menningartilgangi norrænna þjóða, verið notaður í augljósum pólitískum innrætingartilgangi. Það er aðalatriði málsins. Hitt er rétt, að vitanlega hafa þm. sem aðrir misjafnar skoðanir á því, hvaða bækur eru góðar og hvaða bækur eru vondar. Skárra væri það nú þjóðfélagið, sem við lifum í, ef það væri ekki svo, — það væri ósköp leiðinlegt. En hér er ekki um tilhneigingu til ritskoðunar að ræða. Það er um að ræða tilhneigingu til að hafa skoðanir á því, til hvers megi nota það fé sem er almannafé og á að nota í almennum menningartilgangi, með allri virðingu fyrir prófessor Sveini Skorra Höskuldssyni og hans bókmenntasmekk. Ég tel að reglur sjóðsins séu þannig, að þær skammti honum einum Íslendinga vald yfir því að ákveða hvaða umsóknir hljóti náð fyrir augum þessarar sjóðsstjórnar og hverjar ekki. Það þarf enginn að segja mér að það hafi ekki ýmsum íslenskum umsóknum verið hafnað. Ég veit að það bárust árið 1977 til þessa sjóðs 200 umsóknir. 106 umsóknum var sinnt. Einhvers staðar verður því að vel ja og hafna, og ég get ekki séð annað en það komi alþm. við rétt eins og hverjum öðrum.

Þegar menn blanda saman fjárhagslegum hagsmunum fyrirtækis, sem þeir eiga stjórnaraðild að, og hinu, hvernig á að nota almannafé, þá er dálítið vandasamt og varhugavert mál á ferð. Hv. 10. þm. Reykv. kom hér í ræðustól og sagðist eiga sæti í stjórn Máls og menningar sem hefur gefið út þessa bók með styrk úr Norræna þýðingarsjóðnum. Þarna er um peningalega hagsmuni að ræða fyrir þetta fyrirtæki, það er ljóst. Og það hefur auglýsingagildi fyrir þetta fyrirtæki að geta prentað það á kápu bókarinnar eða á spjald bókarinnar, að bókin sé gefin út með styrk úr Norræna þýðingarsjóðnum. Það á að vera gæðastimpill, svo að þarna er ekki um litla peningahagsmuni að ræða.

Hitt er svo annað mál, að ræða hv. 10. þm. Reykv. var með þeim hætti, að ég hlýt að harma að áður svo mæt kona sem hún skuli hafa flutt þá ræðu. Hún var svo full af rangfærslum og pólitískri blindu og undarlegri — ekki beinlínis velviljaðri — óskhyggju að undrum sætti. Hv. þm. talaði um að ég hefði krafist ritskoðunar, ég hefði krafist þess að bækur væru bannaðar og fleira í þeim dúr. Það, sem ég sagði, var þetta: Rétt stjórnvöld eiga að taka ákvarðanir um hvaða viðbrögð á að viðhafa. Ég talaði efnislega um að það ætti að bera saman þessa bók og efni tiltekinnar lagagreinar og efni tiltekinnar stjórnarskrárgreinar. Annað sagði ég ekki um það atriði. Ég sagði aldrei að ætti að banna þessa bók, það er einfaldlega ósatt. (SvJ: Mælir þá með að hún verði lesin?) Ég mæli með því að þm. lesi hana, en ég mæli ekki með því, að henni sé haldið að ungum börnum. Og það er smekksatriði. Það getur hv. þm., prestsfrúin, gert ef henni sýnist svo. (Gripið fram í: Þm. er að auglýsa bókina.) Víst er það. Hún hefur þegar fengið ærna auglýsingu, ekki kannske af öllum prédikunarstólum borgarinnar, en velflestum. (Gripið fram í: Hefur þm. aldrei reynt að lesa fyrir börn?) Þm. hefur, hugsa ég, í lengri tíma og í fleiri ár lesið fyrir börn en hv. þm. sá sem núna spurði. (Gripið fram í.) Einmitt. Og kannske þykir þm. börn vera svo skarpir gagnrýnendur um bækur, að þeim sé ætlandi að gleypa með hrifningu við þeim kenningum, sem hv. þm. hefur fram að færa um þjóðfélagið og eru í þeim barnabókmenntum sem hann hefur staðið að að fluttar yrðu í Ríkisútvarpinu í sínum tíma. Hann um það.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir lýsti viðhorfi sínu til frelsis með athyglisverðum hætti, þeim hætti að menn ættu e.t.v. að hugleiða það með tilliti til örlaga ýmissa mann í veröldinni fyrr og síðar, til hvers menn nota frelsið. Hv. þm. vill hafa óskorað frelsi til þess að ausa hvaða sora sem henni sýnist yfir hvern sem er, hvaða svívirðingum og hvaða sora sem mönnum sýnist að ausa yfir fólk. Það finnst hv. þm. sjálfsagt ef það er í prentuðu máli. Það er prentfrelsisákvæði í stjórnarskránni, en þar og í lögum eru líka önnur ákvæði sem eiga að skapa aðhald til þess að menn misnoti ekki frelsið til þess að fótumtroða það, sem öðrum er heilagt, og æru annars fólks, rétt eins og athafnafrelsi manna má ekki nota til þess að beita aðra ofbeldi. Ef menn hefðu í höndum vopn, sem hægt væri að nota til ofbeldisverka, þá mundi hv. þm. ekki mæla því bót héðan úr ræðustóli að það væri notað með þeim hætti. En þeim, sem hafa hlotið þá náðargáfu að geta notað orðsins list sem vopn, — og ég skal ekkert úr því draga að það getur hv. þm. Svava Jakobsdóttir ef henni sýnist svo, — a.m.k. getur hún notað orðsins list öðrum til gleði þegar svo liggur á henni, e.t.v. ekki sem vopn, — þeim, sem hafa svo mikið vald yfir orðsins list að þeir gætu notað það sem vopn, finnst að þeir megi nota það vopn til illra verka og þeir einir, sem beita því, eigi sjálfir að meta hvaða verk eru ill og hver ekki. Þeir, sem fyrir því verða, eiga ekkert að hafa um þau verk að segja. Þetta er skilningur hv. þm. á þessum þætti athafnafrelsisins. (Gripið fram í.) Hv. þm., ég vil ekki níðast á umburðarlyndi hæstv. forseta með því að fara að lesa heila bók sem er búið að auglýsa jafnrækilega og þessa. Hv. þm. fékk einnig lánaða bókina hjá mér áðan og er þegar búinn að lesa nokkrar síður í henni. (Gripið fram í.) Það eru e.t.v. einhverjir, sem hafa einhverjar „kommissionir“ sem þeim kemur illa að eitthvað yrði nartað í ef menn önduðu á þessa bók. Ég veit ekki alveg hvað hv. 3. landsk. þm. á við, en það mætti ætla að hv. 3. landsk. þm., hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 10. þm. Reykv. stæðu sameiginlega á bak við útgáfu þessarar umræddu bókar. Það kemur þá fram í skýrslu hæstv. ráðh. þegar þar að kemur.