23.10.1978
Sameinað þing: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og hv. alþm. og reyndar alþjóð er kunnugt, þá er eitt af þeim grundvallaratriðum, sem núv. ríkisstjórnarsamstarf er byggt á, samráð við hreyfingar launafólksins í landinu, sem jafnframt er leiðarljós og grundvallarvinnuaðferð við stefnumótun af hálfu stjórnarinnar. Í stefnuræðu forsrh., sem kom fram hér á Alþ. í síðustu viku, var þetta megineinkenni samstarfsins orðað á eftirfarandi hátt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar er í fyrsta lagi lögð áhersla á samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins og er þar í raun og veru um að ræða eins konar hornsteina, sem samstarfsyfirlýsingin er reist á, og er þar að finna undirstöðu þessa stjórnarsamstarfs.“

Enn fremur segir, með leyfi hæstv. forseta: „Reyndar má segja, að til þessa samráðs hafi verið stofnað þegar áður en stjórnin var mynduð og þá alveg sérstaklega við helstu launþegasamtökin. Var einmitt með þeim hætti lagður grundvöllur að ýmsum efnisatriðum stjórnarsáttmálans.

Reynslan ein fær úr því skorið, hvernig til tekst um þetta samráð og hvort það ber tilætlaðan árangur. Auðvitað getur ríkisstj. aldrei skotið sér undan neinni ábyrgð með skírskotun til þessa ákvæðis. En hér er í öllu falli um merkilega tilraun að ræða.“

Það er ljóst að sú hugsun, sem þarna kemur fram, er í röðum stuðningssamtaka og stuðningsfólks ríkisstj. það kjarnaatriði sem við í senn byggjum mestar vonir á og leggjum höfuðáherslu á. Það er rétt sem fram hefur komið, að þau vinnubrögð, sem höfð voru við myndun þessarar stjórnar og við setningu brbl., einkenndust mjög ríkulega af þeirri stefnumótun sem svo réttilega var þannig orðuð í stefnuræðu forsrh.

S.l. föstudag var haldinn fyrsti fundur þeirra aðila, sem ríkisstj. hefur kvatt til þessa samráðs, og þeirrar ráðherranefndar, sem ríkisstj. valdi til þess. Í frétt af þessum fundi, sem birtist í Morgunblaðinu s.l. laugardag, kemur hins vegar fram mjög svo villandi lýsing á því sem þar hefur væntanlega gerst, og áður en ég kem að því nánar ætla ég með leyfi hæstv. forseta að vitna í þessa frásögn. Hún er svo hljóðandi:

„Allmargir aðilar, sem boðaðir voru á fundinn, höfðu vænst þess, að ráðh. gerðu þar grein fyrir fjárlagafrv. ríkisstj., sem enn hefur ekki verið lagt fyrir Alþingi. Tómas Árnason sagði á fundinum, að svo væri ekki, slíkt væri ekki við hæfi þar sem frv. yrði fyrst að leggja fyrir Alþingi. Kristján Thorlacius, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, lýsti þá á fundinum furðu sinni á ummælum Tómasar, að ekki væri við hæfi að ræða fjárlagafrv., þeir væru einmitt komnir á fundinn til þess að ræða það þar.“

Eins og ég vék að áðan og í samræmi við þau vinnubrögð, sem viðhöfð voru við setningu brbl., þá mun ríkisstj. væntanlega hér eftir sem hingað til hafa í grundvallaratriðum samráð við hreyfingar launafólks um öll meginatriði efnahagsstefnu sinnar, enda er fjárlagafrv., eins og fjmrh. sagði í viðtali við Tímann fyrir nokkrum dögum, þess eðlis, að þar kemur stefna ríkisstj. fyrst og fremst fram.

Þessi frétt gefur mjög villandi mynd af því formi og þeim anda þess samráðs, sem fram kemur í stefnuræðu forsrh. Mér er kunnugt um það, að af hálfu ráðh. Alþb. var þessi fyrsti fundur fyrst og fremst skoðaður sem vettvangur til þess að ræða á hvern hátt þessu samráði yrði skipað og síðan yrði næstu daga rætt við fulltrúa samtaka launafólks og aðra aðila um þau grundvallaratriði efnahagsstefnunnar á næstu vikum og mánuðum sem felast í fjárlagafrv. og reyndar öðrum þeim málefnatilbúnaði sem stjórnin þarf óhjákvæmilega að koma fram. Það samráð hlýtur óhjákvæmilega að fela í sér viðræður um þá tekjustefnu sem ríkisstj. mun fylgja, t.d. framhald niðurgreiðslnanna, stuðning við grundvallaratvinnuvegina, þau atriði í málefnasamningnum sem snerta aðildina að EFTA, fjárfestingarstefnuna, rekstrarstefnu ríkisins og fjölmörg önnur atriði.

Þar eð önnur frásögn hefur ekki komið fram af þessum fundi heldur en sú sem ég vitnaði til hér áðan, fannst mér nauðsynlegt, vegna þess að hér er í raun og veru um hornstein stjórnarsamstarfsins að ræða og það atriði sem sker þessa ríkisstj. fyrst og fremst frá fyrri ríkisstj., að óska eftir því við hæstv. forseta Sþ., að mér gæfist tækifæri til þess að spyrja fjmrh. hér strax í dag nánari frétta af þessum fundi og útskýringa á þeirri villandi frásögn sem kom fram í áður tilvitnaðri frétt Morgunblaðsins. Ég er þess fullviss, að launafólkið í landinu og samtök þess binda miklar vonir við það, að verði þeim samráðs- og samstarfsaðferðum, sem hófust við tilkomu ríkisstj. og settu svip sinn á setningu brbl., haldið áfram í þeirri mynd, þá muni þessari ríkisstj. vel farnast. Og það er nauðsynlegt að þær þúsundir, þær tugþúsundir launafólks í landinu, sem líta á þetta samráð sem hornstein stjórnarsamstarfsins, eins og við stuðningsmenn þessarar ríkisstj. gerum, fái sem fyrst rétta og sanna mynd af því, hvernig því verður háttað.