07.12.1978
Sameinað þing: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

Umræður utan dagskrár

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég get tæpast látið hjá líða að lýsa undrun minni á þeim umr. sem hér fara fram. Mér finnst að báðir málsaðilar hafi farið langt út fyrir það verksvið sem hér ætti að vera. Mér finnst það t.a.m. fjarstæða að bera hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur á brýn, að hún sé að mæla fyrir ritskoðun og ritbanni. Það hef ég ekki heyrt í máli hennar. Hún var að gagnrýna fjárveitingu til þessarar útgáfu. Það hlýtur hv. þm. Stefán Jónsson að hafa heyrt eins og ég. En mér finnst ekki að þetta mál eigi að ræða hér með þessum hætti, þó að það kunni að vera skemmtilegt að hlýða á bókmenntalegar skoðanir ýmissa þm., og á kannske eftir að fara enn þá batnandi því að ég veit ekki betur en hv. þm. Stefán Jónsson sé á mælendaskrá og getur þá gert aths. við það sem ég segi hér. (StJ: Þm. vill kannske segja okkur hvernig hún á að verða.) Ég ætla að koma að því og það var erindið hingað. Ef hv. þm. getur haft örlitla biðlund, þá mun ég víkja að því sem hann er að tala um.

Hér virðist mér vera um það fjallað, hvaða bækur séu þess verðar að Norræni þýðingarsjóðurinn styrki útgáfu þeirra. Það hlýtur, eins og hér hefur komið fram og viðurkennt er af öllum hv. ræðumönnum, að vera ákaflega mikið matsatriði. Bækur eru sem sagt bæði góðar og vondar. Sama bókin getur verið það eftir því hver les hana og hver það er sem dóminn fellir. Og það getur náttúrlega verið og hlýtur að vera vandaverk fyrir þá menn, sem í sjóðsstjórn sitja og eiga að fella þessa dóma, að gera það. Það verður aldrei við því búist, að þeir geri það svo að öllum líki. Þeir hljóta að verða að styðjast þar við eigin sannfæringu, við eigin könnun á því sem fram er lagt og sótt er um styrk til. Og ég ætla þá að segja hv. þm.

Stefáni Jónssyni hvað það er, sem ég tel aðallega ábótavant við þessar umræður.

Ef þetta mál á að koma til kasta Alþingis, þá finnst mér að það eigi að koma til kasta Alþingis með hefðbundnum hætti, alþm. fái tóm til að gera sér hugmynd um það, hvernig þessi bók er gerð og hvort hún sé þess virði að hún sé styrkt. Við getum ekki fellt neinn dóm um það fyrr en við höfum fengið tóm til þess að lesa bókina. Þess vegna álít ég — (StJ: Ég var að biðja hann um að lesa bókina.) Já, ég vil gjarnan gera enn þá meira. Ég er ekki alveg viss um að ég sé tilbúinn að dæma bókina eftir upplestri hér, jafnvel þó að væri upplestur hv. þm. Stefáns Jónssonar, sem er allra manna bestur lesari eins og allir vita. Ég held nefnilega að ef þetta mál ætti að verða þingmál, þá ætti það að bera að með venjulegum hætti. Það ætti að dreifa bókinni, það ætti að hafa um hana nokkrar umr., það ætti að senda hana til n., og n. mundi vafalaust senda bókina til umsagnar ýmissa aðila, eins og hér tíðkast venjulega. Þegar þær umsagnir hefðu borist og menn hefðu haft tækifæri til þess að meta bókina sjálfir, þá fyrst gætum við látið í ljós álit okkar á bókinni og starfi þeirra manna sem hafa útdeilt fjármunum til útgáfu hennar.