07.12.1978
Sameinað þing: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessar umr. mikið, vil aðeins í upphafi máls míns geta mér þess til, að hv. þm. Einar Ágústsson hafi látið þess ógetið að samkv. þeirri málsmeðferð, sem hann lagði til að viðhöfð yrði hér á hv. Alþ. um bókarmál þetta, þá yrði hún að endingu samþ. sem ályktun Alþingis eða hafnað.

Ég get ekki með öllu hneykslast á því þótt hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir risi hér á fætur til þess að ræða um það hjartans mál sitt sem er útgáfa á íslenskum barnabókum. Ég er ákaflega feginn því, að í þeim hópi skuli vera menn, sem annað slagið leyfa sér að hlýða svo hjartans kalli, hvort heldur sem um er að ræða útgáfu á bók eða t.d. meðferð íslenskrar tungu eða friðun rjúpunnar. Ég tel það ákaflega gott, að slík mál skuli enn eiga leið inn í umr. á Alþ.

En hitt má hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir ekki í sömu andránni gera, að neita því að hún hafi fordæmt þessa bók frammi fyrir okkur, í öðru orðinu heitið því að lesa okkur dæmi um svívirðilega túlkun á ævisögu Jesú Krists og svíkja okkur um það síðan. Til þess arna hafði hún ærið tóm í máli sínu áðan. Hún segist ekki hafa krafist þess, að bók þessi væri bönnuð, segir þó að í þessari bók sé fjallað um líf og kenningar Jesú Krists á óþolandi hátt, nefnir í sömu andránni og við hliðina á og sitt hvorum megin við klámritaútgáfu á Íslandi, sorpútgáfu, og segist draga í efa að ríkisvaldið rísi undir því samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar um þjóðkirkju okkar, að hún skuli vera evangelísk lúthersk kirkja, að gera ekkert í þessu máli, skorar á Alþ. að gera sínar ráðstafanir, að vísu í tengslum við þann styrk sem norræni sjóðurinn veitti til þessarar þýðingar. Hvað sagði hv. þm. á sínum tíma um sýningu á kvikmyndinni og síðan leikritinu og plötuútgáfunni um Jesus Christ Superstar?

Ég hef ekki enn þá fengið tækifæri til þess að lesa þessa bók, sem hv. þm. léði mér af mikilli vinsemd, nema 3–4 fyrstu síðurnar, þar sem ég fékk ekki betur séð en sagt væri frá því í upphafi með hvaða hætti Jesús Kristur, trésmiðssonurinn frá Nasaret, tók af biðlund þátt í hasarleik með strákum þar í Nasaret.

Ef við ætluðum að ráðast af slíkum hita gegn öllum þeim skáldskap sem skrifaður hefur verið um ævi Jesú Krists frá Nasaret, sennilega að langmestu leyti í mikilli alvöru, þá mundum við lenda í vandræðum t.d. með leikrit eins og The Vigil — Vakan — sem ungverski rithöfundurinn Vladislav Fodor skrifaði á ensku á sínum tíma um krossfestingu Krists, sem kemur nú ekki aldeilis heim og saman við hin hefðbundnu kristnu fræði, en hefur þótt býsna góður kristindómur fram að þessu og ekki beinlínis verið bannað af kaþólsku kirkjunni. Ef mig minnir rétt þá ortu þeir Rupert Brook og Shelley töluvert um ævi Jesú Krists og gengu þar í berhögg við hin klerklegu fræði.

Til þess að taka af allan vafa um að bókin væri vond, þá minnti Friðrik Sophusson á söguna sem lesin var í útvarp um Max bragðaref sem studdi braskarana og svíðingana á kostnað fátæka fólksins, sem sagt: Max bragðarefur rak þá ekki út úr musterinu.

Dæmin eru ótalmörg í íslenskum skáldskap og skandinavískum skáldskap. Mér kemur nú helst í hug margendurtekin útgáfa Norsk Gyldendal á ljóðum Rudolfs Nielsen, sem orti e.t.v. öllum skandinavískum skáldum meir um líf og kenningar Jesú Krists og var kommúnisti. Nú hefur Norsk Gyldendal ekki beinlínis þótt vera kommúnistaútgáfufyrirtæki, a.m.k. ekki á börð við Mál og menningu, og ég minnist erindis, sem ég man nú ekki hvort Magnús Ásgeirsson eða Steinn Steinarr þýddi, sem gæti kannske komið í stað þeirrar útvarpssögu um Max bragðaref sem studdi braskarana til þess að vega upp á móti þeim svívirðilega og hættulega boðskap sem í þeirri sögu fólst. Ef mig minnir rétt, þá hefst lokaerindi þessa kvæðis á þeim orðum:

„Þeim ríku small svipan með ógnarorð,

í þeim átti vonskan rætur,

en þjófurinn mettist við meistarans börð

og mellan lá við hans fætur,

og rættist undurvel úr honum, takk,

í umgengni við slíkt skítapakk.“

Ég tek undir hugmyndina um það, að alþm. gefi sér tóm til þess að ræða útgáfu þessarar bókar nánar, þegar þeir hafa fengið tækifæri til þess að lesa hana. En feginn er ég nú að þýðingin var styrkt, því mér skilst að með þessum styrk kosti bókin á þriðja þús. kr., en hefði orðið dýr ella.