07.12.1978
Sameinað þing: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

Umræður utan dagskrár

Bragi Jósepsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að leggja örfá orð í belg. Mér finnst að þessar umr. hafi verið mjög athyglisverðar, og ég er ekki sammála ýmsum þeim, sem hér hafa talað, um að hér sé um lítið mál að ræða.

Ég hef í sjálfu sér mjög mikla samúð með hv. þm., sem kom fram með þetta mál í upphafi. Það sýnir að þm. hefur áhyggjur af framgangi kristinnar trúar á Íslandi. Það eru fjöldamargir Íslendingar sem hafa gilda ástæðu til þess að óttast um framgang kristilegs siðgæðis í þjóðfélagi okkar. Ég held þess vegna að rótin til þessarar umr. sé ekki sú, sem umr. hafa aðallega snúist um, heldur sé þetta vísbending til okkar þm. og þjóðarinnar í heild um að enn sé til fólk á Íslandi sem hefur áhyggjur af því, að kristið siðgæði sé fótum troðið og það hljóti ekki þá virðingu sem því ber. Þar af leiðandi tel ég að þessar umr. hafi verið gagnlegar.

Þá er það eitt, sem ég fæ út úr þessum umr., og það er vísbending eða ábending til okkar um það hversu illa hefur tekist til um kristindómsfræðslu á Íslandi. Það er kannske hægt að benda á það, og ég geri ráð fyrir að flestir þeir, sem hafa fengist við kennslu, séu mér sammála um að kennslubækur í kristindómi séu einstaklega leiðinlegar bækur, illa gerðar og óárennilegar. Þær hafa verið það alla tíð. Efnið hefur verið sett fram þurrt og leiðinlegt, og það er mjög almennt að börnum í skólum finnist kristinfræði leiðinleg fræði. Það má vel vera að þeir, sem standa að bókagerð á Íslandi, eigi nokkuð mikla sök á hversu til hefur tekist í innprentun kristilegs siðgæðis. Ég held þess vegna að þessar umr. geti e.t.v. vakið okkur til umhugsunar um það, að ástæða sé til þess að vanda betur gerð bóka í kristnum fræðum og e.t.v. séum við farin að dragast nokkuð aftur úr og höfum ekki tekið upp nægilega nútímaleg tjáningarform.

Þar sem ég hef ekki lesið þessa bók, þá get ég ekkert um hana sagt. Hins vegar get ég ekki neitað því, að þessar umr. hafa verið forvitnilegar og bókin er forvitnileg, og ég geri ráð fyrir að ég muni gera það að mínu fyrsta verki á morgun að kaupa þessa bók og lesa hana.