11.12.1978
Efri deild: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, í samræmi við þingsköp, því að ég hef þegar talað tvisvar, enda er þetta satt að segja að verða eins konar framhaldssaga.

Ég gagnrýndi síðast nokkur atriði í ræðu hv. 3. landsk. þm. sem hann flutti um þetta mál á sínum tíma. Hann hélt því fram, að Félagsmálaskóli alþýðu ætti ekki á nokkurn hátt að tengjast annarri fullorðinsfræðslu, heldur ætti hann að einbeita sér að því að þjálfa meðlimi launþegasamtakanna til baráttu m.a. gegn ríkisvaldinu, en ríkið ætti svo að kosta að fullu þessa starfsemi og þessi ríkisstj. skyldi einbeita sér að því að styðja þennan þátt „fullorðinsfræðslunnar“ hjá þessum félagssamtökum og svo væntanlega önnur ríkisstj. aðra þætti hjá sínum skjólstæðingum. Ég gagnrýndi þetta, vegna þess að ég er því algerlega andvígur, er á þveröfugri skoðun. Ég álít að það eigi að efla fullorðinsfræðsluna í mörgum greinum og auka stuðning ríkissjóðs við hana eftir því sem við verður komið á hverjum tíma. En ég tel alveg nauðsynlegt að gæta nokkurs samræmis í fjárstuðningi og í skipulagi, löggjöf um þetta efni o.s.frv. Og auðvitað hljótum við að verða að gæta hófs í greiðslum úr ríkissjóði til þessa eins og annars.

Gagnrýni mín olli nokkru hugarróti hjá hv. þm. Hann er nú ekki við, en hann les það í Alþt. sem ég kann að segja. En það var mjög eftirtektarvert, að í ræðu sinni, sem var eins konar svar til mín, minntist hann ekkert á fyrri staðhæfingar og fyrri tillögur. Ég held að þetta bendi til þess að hann sé eitthvað að sjá að sér að þessu leyti og sjái að það er ekki hægt að bjóða hv. þm. kenningar eins og þær sem þarna voru fram bornar. Það er hins vegar erfitt að komast frá þeim ræðum sem maður hefur flutt hér á hv. Alþ. eftir að segulbandið kom.

Hv. 3. landsk. þm. gerði sig nokkuð ábúðarmikinn og sviðsetti eins konar réttarhald yfir mér gerði úttekt á samvinnuhreyfingunni og Framsfl. og fór vítt um án þess, eins og ég sagði áðan, að víkja nokkuð að fyrri ræðu sinni. Nú orkar vitanlega flest tvímælis þó gert sé. En eitt er víst, að ég mun ekki biðja þennan hv. þm. eða nokkurn annan afsökunar á tilveru minni né heldur því sem mín kynslóð hefur verið að aðhafast á undangengnum áratugum, hvorki það sem unnið hefur verið í atvinnulífinu eða í félagsmálum, að öflun verðmæta eða við uppbyggingarstarf. Ræður á borð við þessa hjá hv. 3. landsk. snerta mig ekki hið minnsta. En mér finnst það hins vegar skiljanlegt, að þegar alls er gætt, þ. á m. mismunandi baksviðs hjá okkur hv. 3. landsk., þó að okkur gangi svolítið illa að skilja hvor annan og komast í takt. Ég nánast komst aldrei inn í skólana. Hv. þm. hefur aldrei komist út úr þeim. Eftir langa og ágæta skólagöngu er hann nú kennari við Háskóla Íslands, rétt skreppur hingað niður eftir til að taka þátt í umr., og sumarleyfin hafa farið í búferlaflutninga milli stjórnmálaflokka árum saman! Þetta getur valdið því, að við eigum erfitt með að komast í takt. En hitt er ég sannfærður um, að við reynum það, og ekki síst eins og nú er ástatt, þegar við höfum svarist í fóstbræðralag um að stjórna landinu ásamt fleiri góðum mönnum.

Ég vil svo aðeins að lokum árétta tvö atriði alveg sérstaklega, — efnisatriði sem hafa komið fram í þessum orðaskiptum mínum við hv. 3. landsk. Annað er varðandi Samvinnuskólann, samanburð á Samvinnuskólanum og Félagsmálaskóla alþýðu. Það eru náttúrlega alveg ósambærilegar stofnanir. Það sést þegar þess er gætt, að í Samvinnuskólanum fer fram samfelld kennsla í marga mánuði, missirum saman raunar. En Félagsmálaskóli alþýðu starfar í námskeiðsformi, þar eru stutt námskeið, yfirleitt hálfsmánaðar námskeið. Þetta er alveg ósambærilegt, því í Félagsmálaskólunum er, eins og kom fram í fréttum nýlega, lögð áhersla á ýmiss konar félagsmálefni, fundarstjórn og fundarreglur, sögu verkalýðshreyfingarinnar o.fl. Samvinnuskólinn er hins vegar fagskóli sem fellur inn í hið almenna skólakerfi. Hann er sérskóli í sinni grein. Þetta er því engan veginn sambærilegt. Í öðrum skólanum er fyrst og fremst unnið eftir hinu almenna fræðslukerfi í landinu, en í hinum er frjálst starf, eins og háttur er í þeim stofnunum líkum, sem ýmis félög reka. Þetta mun þó vera sá sem athafnasamastur er þegar er um alveg frjálst skólastarf að ræða óháð hinn skipulega skólastarfi innan skólakerfisins. Svo er hitt, að mér virtist hv. 3. landsk. gefa það í skyn, að ég vilji ekki styðja fræðslu utan ríkisskólanna, utan skólakerfisins, t.d. hjá einstökum stéttarfélögum, einstökum menningarfélögum, í einstökum atvinnugreinum o.s.frv. Þetta er alls ekki rétt. Ég vil að það sé leitast við að efla stuðning við þessa starfsemi ýmiss konar, sbr. það sem ég tók fram fyrst þegar ég tók til máls í þessu máli. Ég gerði tilraun í sambandi við fullorðinstræðslufrv. að fá námsflokka og bréfaskóla tekna út úr og flýtt auknum stuðningi ríkisins við þá. En ég árétta það jafnframt, að ég tel alveg nauðsynlegt að reynt sé að gæta samræmis í stuðningi ríkisvaldsins, eftir því sem við verður komið, bæði í löggjöf og í fjárstuðningi. Ég ætlast þó ekki til þess, að menn haldi sér svo fast við slíkt samræmi að þess vegna vilji menn ekki veita stuðning þeim sem eru á undan, þeim sem hafa brotið nýjar leiðir, vegna þess að hliðstætt sé ekki komið yfir alla línuna. Ég er ekki með neinn slíkan einstrengingshátt að þessu leyti. En ég tel alveg nauðsynlegt, að það sé reynt að gæta samræmis. Ég tel því alveg fráleitt að afgreiða þessi mál eftir einhverjum tilfinningalegum leiðum eða eftir því hvernig ríkisstj. er skipuð þá og þá.