11.12.1978
Neðri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um breyt. á l. nr. 101/1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl. Þetta er yfirgripsmikið og veigamikið mál. Ég vil lýsa því þegar í upphafi, að þingflokkur Alþfl. hefur tekið jákvæða afstöðu gagnvart meginstefnu þessa frv., sem við teljum að horfi mjög í rétta átt, enda augljóst að engin önnur úrræði eru til þess nú að bæta úr því vandamáli, sem skapast hefur í landbúnaði hér á landi, en að draga úr framleiðslu með einhverjum ráðum. Hins vegar hafa einstakir þm. flokksins áskilið sér þann rétt að flytja hugsanlegar brtt. á milli umr., og kemur það í ljós síðar.

Þetta frv. er mjög í anda þeirrar afstöðu sem Alþfl. hefur fylgt í allri umr. um landbúnaðarmál síðustu 15 árin, ef ekki um lengri tíma. Alþfl. hefur varað við þeirri stefnu, sem fram hefur verið fylgt í landbúnaðarmálum á Íslandi, og varð einna fyrstur flokka — ef ekki sá alfyrsti — til þess að benda á að í hreint óefni stefndi. Fyrir þessa afstöðu sína í landbúnaðarmálum uppskar Alþfl. ýmis sérheiti, sem jafnvel hafa fylgt einstökum þm. hans til dagsins í dag. Ekki ætla ég að rekja þá sögu hér, enda er alþjóð ljóst að Alþfl. benti í tíma á þann vanda sem við blasti í landbúnaðarmálum ef ekki yrði spyrnt við fótum.

Það hefur nú komið í ljós, að samtök bænda um land allt eru samþykk þeim hugmyndum sem Alþfl. hefur látið frá sér fara á undanförnum árum um landbúnaðarmál. Flokkurinn boðaði þá stefnu, að framleiðsla á landbúnaðarafurðum ætti að miðast við innanlandsmarkað, innanlandsneyslu. Þá hefur flokkurinn lagt á það þunga áherslu að reyna ætti að raða búgreinum að nokkru leyti eftir landsháttum þannig að við hefðum þar mjólkurbúskap sem landshættir væru hæfilegir fyrir hann og svo aftur sauðfjárbúskap þar sem t.d. væru góð heiðalönd og annað beitarland. Einnig vil ég minnast á það, að Alþfl. hefur alla tíð lagt á það mikla áherslu, að reynt yrði að skapa meiri skilning á milli þeirra stétta sem hafa vissulega átt í nokkrum átökum undanfarin ár, þ.e.a.s. neytenda, sem kannske væri betra að flokka undir launþega í þéttbýli, og hins vegar bændastéttarinnar. Á milli þessara tveggja hópa hefur bilið sífellt verið að gliðna. Það hefur skapast djúp gjá á milli þessara hópa hér á landi, einfaldlega vegna þess að þær kynslóðir, sem fyrir einum eða tveimur áratugum röktu kannske ættir sínar í báða liði til sveita, eru að hverfa og borgar- og bæjabörnin eru að taka við. Þetta er býsna alvarlegt mál og hefur valdið því, að skilningsleysi á háttum og yfirleitt afkomu og kjörum stétta á báðar hliðar hefur farið vaxandi. Hins vegar er því ekki að leyna, að þetta frv. er samið af bændum fyrir bændur, og þess vegna mætti ætla að þeir, sem um það fjalla, þyrftu að gera einhverjar aths. við það.

Frv. er samið með það fyrir augum einkum og sér í lagi að draga úr fyrirsjáanlegri aukningu á landbúnaðarframleiðslu og reyna á næstu árum að koma í veg fyrir að upphleðsla verði á birgðum landbúnaðarafurða hér á landi. Það er hárrétt, sem hæstv. landbrh. sagði, og var ekki of djúpt tekið í árinni þegar hann nefndi það, að ástandið í landbúnaðarmálunum, þ.e.a.s. sú umframframleiðsla sem hefur átt sér stað, væri að verða ískyggilegt vandamál hér á landi. Ég held að það hljóti að vera ískyggilegt vandamál, að í birgðum lágu um síðustu mánaðamót landbúnaðarafurðir: dilkakjöt og mjólkurafurðir, fyrir 22–25 milljarða kr. Það er ekki nokkur vafi á því að gera verður gangskör að því að breyta þessum þáttum. Mig langar að minna á að á síðasta ári var u.þ.b. þriðjungur kindakjötsframleiðslu fluttur út og sjötti hluti framleiddra mjólkurafurða og fyrir þessar afurðir hefur aðeins fengist 25–50% af grundvallarverði. Það er líka orðið mjög alvarlegt mál þegar bændur fá ekki fyrir 1 kg af smjöri andvirði þess fóðurbætis sem fer til þess að framleiða kg. En þetta eru dæmi, sem allir þekkja, og óþarfi að rekja það, enda ætla ég að fara í stuttu máli yfir þá þætti sem ég tel annaðhvort gagnrýni verða eða þá jákvæða, eftir því sem þeir koma fyrir.

Ég lít svo á, að það hefði verið miklu þekkilegra og miklu vænlegri ráðstöfun, ef unnt hefði verið í þessu tilviki að koma á ákveðnu kvótakerfi. Menn tala mikið um kvótakerfi eins og það sé allsherjarlausnin, en í þessu tilviki hefði ég talið að beinn niðurskurður á framleiðslu mjólkurafurða, t.d. sem næmi 10–15% á næsta ári, hefði verið miklu vænlegri til árangurs. Þá hefði auðvitað þurft að koma á móti einhver aðstoð við þá bændur, sem hefðu orðið að draga úr þessari framleiðslu, og framleiðslumörkin hefði orðið að draga við tilteknar bústærðir eða framleiðslumagn búanna. Ég held, og óttast það mjög, að fóðurbætisskatturinn, eins og hann er lagður fram núna, komi ekki til með að verka fyrr en á árinu 1980, einfaldlega vegna þess að ég hef fregnir af því, að efnameiri bændur séu þegar farnir að birgja sig upp af fóðurbæti vegna frétta um þennan skatt og m.a. þess vegna muni vart draga mjög verulega úr mjólkurframleiðslu hjá þeim á næsta ári. Það gefur líka auga leið, að þessi fóðurbætisskattur bitnar að þessu leyti mun harkalegar á efnaminni bændum. Ef efnameiri bændur geta birgt sig upp af fóðurbæti, þá er augljóst að efnaminni bændur geta það hins vegar ekki og verða því mun harkalegar fyrir barðinu á þessum skatti.

Þá er það ein spurning, sem ég vil beina til hæstv. landbrh. Hún er einfaldlega þessi: Hvað gerist þegar um er að ræða mikla magnminnkun á framleiðslu mjólkur? Ég ætla að ef bændum verður gert með þessum fóðurbætisskatti, sem þeim er augljóslega gert, að draga mjög verulega úr mjólkurframleiðslunni, þá sé ekkert vit í því fyrir þá að hafa allar mjólkurkýr sínar á gjöf í vetur. Það er líklega vænlegra að hreyta sama magnið úr fáum kúm en mörgum. Þá spyr ég: Hvað verður um það kjötmagn, það nautgripakjöt sem fyrirsjáanlega kemur á markað vegna þessarar minnkunar mjólkurframleiðslunnar? Það er augljóst að bændur láta varla allar kýr sínar lifa ef þeir verða vegna minnkandi fóðurbætis að draga úr mjólkurframleiðslunni. Er þetta dæmi gert upp þegar talað er um vandamál landbúnaðarins? Verður þetta ekki viðbót við dilkakjötsframleiðsluna?

Ég vil fagna því sérstaklega, að í c-lið 2. gr. þessa frv. er svo hljóðandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta: „Gjöld þessi skulu ekki leiða til hækkunar á verði búvöru sem Sexmannanefnd ákveður, enda sé fjármagninu ráðstafað að öllu leyti til framleiðenda búvöru.“

Ég hafði af því verulegar áhyggjur, eins og raunar fulltrúar launþegahreyfingarinnar í framleiðsluráðslaganefnd, að fóðurbætisgjaldið kæmi til kostnaðarliða grundvallarbúsins. Ég hefði talið það hreina óhæfu og lögin því mun lakari og vart til þess hæf að þau yrðu samþykkt, ef þetta ákvæði hefði ekki verið með.

Mig langar í þessu sambandi og vegna þeirrar umr., sem hér fer fram, að minna á eitt atriði sem ég held að hv. þm. hafi ekki gefið nægjanlegan gaum þegar talað er um fóðurbætiskostnað í landbúnaði. Mér segja fróðir menn, að hér á Íslandi megi framleiða megnið af þeim fóðurbæti sem notaður er, til falli verulegt magn af fiskúrgangi, einnig sé um að ræða grasmjöl, grasköggla, kalk og fleiri tegundir sem með nokkrum rannsóknum mætti búa til úr mjög góðan fóðurbæti og jafnvel betri en við Íslendingar kaupum fyrir 3 milljarða — að öllum líkindum — á þessu ári. Ég vil skjóta því að hæstv. landbrh., hvort einhverjar athuganir hefðu verið gerðar eða tilmælum beint til þeirra stofnana landbúnaðarins, sem fylgjast með þessum málum, að kanna hugsanlega fóðurbætisframleiðslu hér á landi með það fyrir augum að Íslendingar gætu sparað sér þann gífurlega gjaldeyriskostnað sem þeir verða að bera vegna hinnar miklu fóðurbætisnotkunar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hef komið til skila þeim atriðum sem skipta Alþfl. máli. — Mér er ekki alveg ljóst af þessu frv. hver verða kjör þeirra bænda, sem nú sinna svína- og alifuglarækt, hvort þeim verður gert að bera þyngri álögur en öðrum bændum í þessu landi. Ef svo er, þá verður ekki annað séð en verið sé að leggja þyngri álögur á þá og beina þannig neyslunni að sauðfjár- og nautgripaafurðum í mun ríkari mæli en nú er gert.

En í fáum orðum sagt: Alþfl. hefur tekið jákvæða afstöðu til þessa máls. Hann telur að þarna sé stigið skref á þeirri braut, sem Alþfl. hefði viljað að gengið hefði verið út á fyrir langalöngu, og fagnar því að þessu leyti þessu frv. Ekki er þó unnt annað en að gera nokkrar aths. og hugleiða, hvort eitthvað mætti koma í staðinn fyrir þann fóðurbætisskatt, sem nú hefur verið settur inn í þetta frv. — eitthvað sem verkar hraðar og verkar betur.