23.10.1978
Sameinað þing: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Sennilega hefur þessi fsp. átt að vera fsp. innan heimilis stjórnarflokkanna. En af því að hún er flutt á fundi í Alþ. og beint til fjmrh., sem þegar hefur svarað henni, þá er ekki óeðlilegt að aðrir láti eitthvað til sín heyra í leiðinni, fyrst þessi leið var valin, að opinbera á þennan hátt þennan ágreining sem er innan stjórnarflokkanna.

Það er eðlilegt hjá fyrirspyrjanda að vitna í ummæli formanns Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og það er líka eðlilegt að formaður Bandatags starfsmanna ríkis og bæja sé mjög óánægður með þá ákvörðun fjmrh. að fá ekki að sjá fjárlagafrv. áður en Alþ. fær að líta það augum, að svo miklu leyti sem það mun vera til, vegna þess að þessi ríkisstj. byrjaði á því að gefa yfirlýsingu um að hún ætli að hafa samráð og samstarf við alla mögulega hópa úti í bæ áður en hún kynni Alþingi, löggjafarstofnun þjóðarinnar, fyrirætlanir sínar, svo að það er ósköp eðlilegt að blessaður maðurinn, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sé óánægður með fjmrh. fyrir þessi svik. Hins vegar tel ég það rétt hjá fjmrh., þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar, að Alþ. sjái fyrst fjárlagafrv., á undan þrýstihópum í þjóðfélaginu, ef á að láta Alþ. ganga eitthvað áfram, ef þrýstihóparnir eiga ekki alveg að taka við.

En hvað er þetta samráð og við hvern er samráð haft? Er ekki fjöldi af launþegasamtökum í landinu sem eru hundsuð? Eru ekki samráð bara við þá sem eru flokksbundnir í Alþb. eða krataflokknum og þó ekki alla í krataflokknum? Það er sennilega betri helmingurinn sem þar er talað við. Hvar hefur verið haft samráð við sjómannasamtökin í landinu? Hafði sjútvrh. samráð um fiskverðið við sjómannasamtökin í landinu? Hafði hann samráð við sjómannasamtökin — við Sjómannasamband Íslands í sambandi við þær aðgerðir sem hafa verið gerðar og hafa kostað sjávarútveginn stórútgjöld, sérstaklega útgerðina? Það er reynt að leysa vanda fiskvinnslunnar á kostnað útgerðar með því að stórauka hann. Var verið að leysa vanda fiskvinnslunnar með því að skattleggja hana í leiðinni eftir gengisbreytinguna? Er þetta ekki sama og sagt var í gamla daga að væri sama og að pissa í skóinn sinn? Þetta eru úrræðin sem blasa við. Hvaða samráð voru höfð við samtök verslunarmanna? Hafa menn heyrt forustumenn Bandalags háskólamanna lýsa yfir sérstakri velþóknun sinni á þessum aðgerðum? Hafa þeir lýst því yfir, að haft hafi verið samráð við þá? Ég hef ekki heyrt þess getið, heldur annað, eftir því sem fjölmiðlar hafa látið frá sér heyra.

Fjmrh. segir að það hafi verið mikið að gera og þá alveg sérstaklega í fjmrn. Ég get vel skilið það. Það hefur vafalaust verið mikið að gera áður í fjmrn. og fleiri rn. Það tók ríkisstj. við völdum 28. ágúst 1974 og lagði fjárlagafrv. fram á réttum tíma, það skakkaði þremur dögum. Samkv. því, ef vel hefði verið unnið, hefði fjárlagafrv. átt að koma hér fram 13. okt. Fjmrh. segir núna að hann stefni að því, að það komi fram fyrir mánaðamót. Og þegar maður heyrir stjórnarliða tala saman, þá segja sumir að það sé búið að ganga frá fjárlagafrv., aðrir að það sé alls ekki búið að ganga frá fjárlagafrv., og fjmrh. segir að það sé stefnt að því, að það komi hér fram fyrir mánaðamót. Þetta eru mjög ákveðnar yfirlýsingar! En ég ætla að leyfa mér að spyrja fjmrh.: Stefnir hann að því, að Alþ. ljúki afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir jól, eftir þennan mikla drátt sem þegar er orðinn? Við þm. sjáum ekki hvort það muni ekki verða töluvert lengri dráttur á framlagningu fjárlagafrv. Hvað segir hæstv. fjmrh. um það? Stefnir hann og ríkisstj. að því að afgreiða fyrir jól fjárlög sem Alþ. fær e.t.v. ekki að sjá fyrr en einhvern tíma í nóv.? Það verða þá öðruvísi vinnubrögð í fjvn. en hafa verið þar. Ég átti sæti í fjvn. í 12 ár og til afgreiðslu fjárl. veitti okkur ekki af tímanum frá því að þing kom saman og þangað til Alþ. fór í jólaleyfi. Ég veit að væntanlegur formaður fjvn., sem ég þykist vita hver verður, er vaskur og duglegur maður og sömuleiðis aðrir fjvn.menn, en ég get ekki ímyndað mér að það sé hægt að bjóða fjvn. eða Alþ. að afgreiða fjárl. fyrir jól þegar þessi vinnubrögð eru viðhöfð.

Það er allt á huldu í efnahagsmálum. Það veit enginn neitt hvaða stefnu á að taka, það eru yfirlýsingar sitt á hvað. Alþfl., sem vann stórsigur í síðustu kosningum, lofaði öllum kjósendum sínum, að ef hann næði góðum árangri í kosningunum og ynni verulega á, þá yrði tekjuskattur lagður niður. Það var ekki verið að klípa neitt utan af hlutunum þar. Og hann gleypti viðbótartekjuskatt í einum bita. Hann kokgleypti tekjuskattinn, Alþfl., með alla æskumennina, með baráttumálin og stóru breytingamar í þjóðfélaginu. Og nú segja Alþfl.menn: Við ætlum ekki að gleypa meira, nú erum við búnir að gleypa nóg. Og hvað ætlar Alþfl. að gera næst? Ætlar hann að halda áfram að gleypa? Á kannske að leggja einu sinni enn á tekjur fólks á árinu 1977?

Það væri fróðlegt að fá að vita eitthvað um þetta. Þjóðin bíður nokkuð spennt að vita hvað á að gera, hvort þar er nokkuð eftir að hrifsa. Það eru margir sem taka ekki við glaðningnum núna með neinni sérstakri ánægju, enda er þessi skattlagning siðleysi eins og allir vita og er viðurkennt líka af þeim sem standa að óhæfunni.