11.12.1978
Neðri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Enda þótt ég sé í þeirri n. í hv. d. sem fær mál þetta til skoðunar, þá vildi ég eigi að síður segja örfá orð við 1. umr.

Það mun einsdæmi í því kröfugerðarþjóðfélagi, sem við lifum í, að ákveðin stétt manna kjósi yfir sig skatta og skyldur eins og frv. þetta gerir ráð fyrir, ef að lögum verður, en frv. þetta er flutt samkv. ósk bændasamtakanna, eins og segir í grg. Þetta er út af fyrir sig fallegt og mættu fleiri gera, einkum hálaunahópar, en sýnir að bændur viðurkenna vissan vanda offramleiðslu. Ég vil þó draga í efa að bændur almennt styðji þessar tillögur, enda leysa höfuðatriði þeirra, sem aðallega er mænt á, ekki þann vanda sem við er að etja.

Það er vissulega dálítið hart að bændur, sem hafa haft miklu minni tekjur en viðmiðunarstéttir á undanförnum árum, þurfi að ganga á undan að skattleggja sjálfa sig. Þeir, sem framleiðslustörfin vinna til sjós og lands, eru þó undirstaðan undir því, að við getum lifað í þessu landi. Miklu eðlilegra hefði verið að á undan þessari tillögu hefði í dag verið rætt um lækkun á kaupi okkar hv. alþm. um 20–30%, en ef á því væri byrjað gætu fleiri á eftir komið. — En verst er að þetta frv., sem hér liggur fyrir, leysir ekki þann vanda sem því er ætlað að leysa. Ég er því í meginatriðum andsnúinn frv., en mun gera tilraun til að hið jákvæða í tillögunum nái fram að ganga.

Það er uppgjöf að snúast við vandanum eins og hér er gert með því að gera bara eitthvað. Það er ekki leiðin. Frv. dregur ekki úr framleiðslunni. Hin stærri bú og betur settu munu auka við sig til að borga skattinn og fóðurbætisskatturinn verður aldrei það hár að hann dragi neitt verulega úr framleiðslunni.

Það, sem mest ber á í frv. og mest er hampað, er að allt á að færast í viðjar skatts- og skipulagsstefnu. Þó ber að viðurkenna vissa þörf á skipulagningu. Allt á að færa í meðalmennsku. Arðsemisjónarmið víki til hliðar. Mönnum er refsað fyrir dugnað. Það liggur við að maður segi að skipuleggja eigi fátækt meðal bænda á Íslandi. Bændastéttin og þjóðfélagið í heild þurfa að gera sér þess grein, að búskapur og búseta eru ekki sama. Þjóðin vill halda byggð um allt landið, en það má ekki verða á kostnað einnar stéttar, heldur þarf þjóðin öll að taka þátt í því.

Fellt hefur verið úr frv., frá því sem sjömannanefndin gerði tillögur um varðandi fóðurbætisskattinn, að miða við ákveðið magn á búfjáreiningu. Það hefði mátt — og má athuga — hafa þá nógu mikinn skatt á umframmagn. En í a-lið 2. gr. frv. er að finna einu leiðina í þessu máli sem hefur áhrif án þess að drepa allt í dróma. Þar stendur:

„Á sama hátt er Framleiðsluráði heimilt að ákveða framleiðendum sérstakar verðbætur ef þeir draga úr framleiðslu sinni um ákveðinn hundraðshluta.“

Þetta þýðir m.ö.o. að ef sett væri í gang 10–15% framleiðslurýrnun með því að nota útflutningsuppbæturnar til að greiða mönnum fyrir ákveðinn samdrátt t.d. fengi maður bætur fyrir að minnka framleiðslu mjólkur um 15 þús. kg, hann fengi 7 500 kr. borgaðar. Þetta er bandaríska reglan. Með henni væri hægt að leysa vandann á stuttum tíma. Þetta ætti að gilda í 3–5 ár, fer eftir tíðarfari og ýmsu. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að bændur munu að sjálfsögðu ekki gefa eftir 10% regluna. Á stuttum tíma mætti með þessum hætti stórdraga úr útflutningsuppbótum, en meðan á breytingatíma stendur munu þær að sjálfsögðu verða óbreyttar og veitir ekki af til að bændur haldi sínu kaupi. Og meira þarf til á breytingatíma. Ríkið þyrfti að koma til móts við þær birgðir sem til eru þegar þetta kerfi yrði sett í gang, ef af yrði. Aðalatriðið er að það fé, sem til landbúnaðarins fer, sé notað með sem skynsamlegustum hætti til að draga úr offramleiðslu jafnframt því sem gætt sé hagsmuna bænda.

Ég er sannfærður um að með því að setja í gang 10–15% framleiðslusamdráttaráætlun, sem allir tækju þátt í, mætti leysa vandann á mjög stuttum tíma og með minnstri skerðingu fyrir bændastéttina, elstu stétt landsins, sem um aldaraðir hefur varðveitt menningu og sögu þessarar þjóðar, tungu hennar og frelsi.