11.12.1978
Neðri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þó ég sé hvorki óðalsbóndi né eggjaframleiðandi, eins og þeir sem hafa talað hér næst á undan, þá ætla ég samt að leyfa mér að leggja nokkur orð í belg um þetta frv. til l. um breyt. á 1. um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl.

Ég hygg að það megi segja með nokkrum sanni, að hér sé á ýmsan hátt um tímamótafrv. að ræða. Það er það a.m.k. að mínum dómi, því hér er sá vandi, sem við er að etja í íslenskum landbúnaði, að hluta viðurkenndur, en á það hefur verulega skort að sú viðurkenning hafi áður verið til staðar. Þeir flokkar tveir, sem lengst af hafa farið með stjórn landbúnaðarmála, hafa ekki viðurkennt þennan vanda. Aldrei léð máls á því. Þvert á móti hefur sú landbúnaðarstefna, sem þeir hafa fylgt, komið þessum málum í óhöndulegan keng og algjört óefni á ýmsum sviðum, en nú hafa bændur með nokkrum hætti tekið af þeim ráðin og hefði kannske fyrr mátt vera.

Eins og hér hefur komið fram, er um flókið mál og margbrotið að ræða, og eins og ýmsir af þeim, sem hér hafa komið í þennan ræðustól í dag og kvöld, hafa lagt áherslu á, þá er ekki um eina eða einfalda eða auðvelda lausn að ræða. Þetta frv. er hins vegar skref í þá átt að beina þessum málum inn á skynsamlegri brautir.

Það var á ýmsan hátt mjög athyglisvert að hlusta á 1. þm. Austurl. halda, eins og hans var von og vísa, mjög langa og ítarlega ræðu um þetta. Hann gerði ekki mikið úr því, að það færi verulegt fjármagn í að greiða útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir. Ég hygg að flestir séu á því samt, að það sé of mikið. Hann nefndi til samanburðar, að við hefðum flutt inn bíla fyrir 11 milljarða fyrstu 9 eða 10 mánuði þessa árs. Ég hygg að þarna sé nokkuð ólíku saman að jafna. Það skyldi þó aldrei vera að það yrði skarð fyrir skildi hjá ríkissjóði ef verulega yrði dregið úr bílainnflutningi, því ég veit ekki betur en ríkissjóður fái sennilega 2 kr. af hverjum þremur sem eru greiddar fyrir bíla í þessu landi.

1. þm. Austurl. gerði ekki heldur mikið úr þeim vanda, að við þyrftum að flytja út 5 400 tonn af lambakjöti. Honum fannst það svo sem ekkert verulegt vandamál. En ég hygg að ýmsir þm. muni vera á öðru máli. Hann vildi nánast halda því fram, að hér væri ekki um neina eða um mjög óverulega framleiðsluaukningu að ræða, en nefndi síðan ýmsar tölur um neyslu kindakjöts. Auðvitað er það verðið, sem ræður neyslu kindakjöts hér að mjög verulegu leyti, og þá ekki hvað síst niðurgreiðslurnar. Ég er ansi hræddur um að ef kjötið væri ekki niðurgreitt mundi neyslan ekki vera mikil. Svo er margt fleira sem hefur komið til, eins og hér hefur raunar verið vikið að, þ.e. breyttar neysluvenjur og meira framboð af öðrum kjöttegundum. Það er af sú tíð sem áður var, þegar þetta var svo gott sem eina kjöttegundin sem hér var á boðstólum. En um þetta þarf ekki að fara mörgum orðum.

Það er ekkert furðulegt að Alþb.-menn skuli gera lítið úr þessum vanda sem við er að etja, því á s.l. vori biðluðu þeir býsna mikið til bænda. Ég minnist þess, og gera áreiðanlega fleiri hv. þm., að Alþb.-menn riðu eins og hetjur um héruð í vor og héldu fundi með bændum. Þeir sögðu í stuttu máli: Þið skuluð bara framleiða meira. Við skulum sjá um að neyslan aukist. — Þetta er auðvitað fáránlegt, því áreiðanlegt er að neysla dilkakjöts hér er í því hámarki að hún verður ekki öllu meiri nema Alþb. stígi þá skrefið til fulls, sem manni skilst að gæti verið á næstu grösum, að lögbjóða að menn borði kindakjöt a.m.k. fjórum til fimm sinnum í viku. Það er sjálfsagt eina ráðið, sem þeir gætu gripið til til að standa við loforð sín gagnvart bændum frá því í vor þegar þeir sögðu að það væri aðeins hlutverk bændanna að framleiða meira, þeir skyldu sjá um að kjötið yrði étið.

En á eitt í þessu sambandi er ástæða til að minnast á sérstaklega, að ríkið sjálft skuli vera verulegur framleiðandi á kjöti. Ég held að það sé með öllu ástæðulaust fyrir ríkið að halda uppi jafnumfangsmiklum búrekstri og það gerir nú á tilraunabúunum. Þær tilraunir, sem þar fara fram, gætu mætavel átt sér stað á góðum búum undir umsjón og eftirliti bænda og sérfræðinga. Ég tel algjörlega ástæðulaust að ríkið sé umfangsmikill rekstraraðili og kjötframleiðandi á þessu sviði. Þetta er rekstur sem ég held að ætti að leggja niður hið fyrsta, og er þá fundin ein leið af mörgum, þó ekki sé hún kannske stór eða áhrifamikil, til að spara í ríkisrekstrinum.

Hv. þm. Eggert Haukdal tók svo til orða, að þetta frv. miðaði að því að skipuleggja fátækt hjá bændum. Ég held nú að þetta hafi frekar verið sagt í hita augnabliksins en að hv. þm. hafi meint þetta, því varla get ég ímyndað mér það. Svo skulum við líka hafa það í huga, að þessar tillögur eru komnar frá bændum.

Frá mínum sjónarhóli er kjarni þessa máls að vissu leyti sá, að bændur hafa viðurkennt þennan vanda. Þetta er vandi sem Alþfl. hefur bent á margítrekað. Það hefur verið tekið sem fjandskapur við bændur og gert mikið úr því að það væri fjandskapur við bændur. En það hefur verið fjandskapur við þá stefnu sem fylgt hefur verið í landbúnaðarmálum, og það er svolítið annað.

Ég held að þetta frv. geti orðið til bóta. Reynslan á eftir að skera úr um það. Alla vega er sá andi, sem í því er, í rétta átt, og þetta er tilraun til að koma þessu inn á skynsamlegri brautir en verið hefur. Þar held ég að við séum á réttri leið.