12.12.1978
Sameinað þing: 33. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna

Forseti (Gils Guðmundsson):

Við upphaf þessa fundar þykir mér hlýða að minnast með nokkrum orðum þess, að nú eru liðin 30 ár frá því að birt var mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, en það afmæli bar upp á s.l. sunnudag, hinn 10. des., og er þetta því fyrsti fundur Sþ. eftir afmælið.

Yfirlýsing þessi í 30 greinum má segja að verið hafi helsta undirstaða þess sem unnist hefur á sviði mannréttinda frá þeirri niðurlægingu mannkyns sem víða blasti við í lok síðari heimsstyrjaldar. Vernd mannréttinda var mikið rædd við undirbúning að stofnun samtaka Hinna sameinuðu þjóða 1945, og litlu síðar hófst markviss undirbúningur mannréttindayfirlýsingar, sem 48 ríki samþykktu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í París 10. des. 1948, og var Ísland í þeirra hópi. Í yfirlýsingunni er áréttað, að hver maður sé borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum og að mönnum beri að breyta bróðurlega hverjum við annan. Þar eru tilgreind hin margvíslegu réttindi, borgaraleg, stjórnmálaleg, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg, sem tryggja og vernda ber.

Við Íslendingar getum góðu heilli glaðst yfir því, að virðing fyrir mannréttindum er rík í landi okkar og vernd þeirra vel skipað. En sama máli gegnir um mannréttindi og sjálfstæði þjóða, að þau verða ekki tryggð í eitt skipti fyrir öll, heldur þarf jafnan árvekni þeim til viðhalds og styrktar. Þar getur mannréttindayfirlýsing Hinna sameinuðu þjóða gegnt þörfu hlutverki til hvatningar og aukins skilnings.

Ég vil á 30 ára afmæli mannréttindayfirlýsingarinnar bera fram þá einlægu ósk, að yfirlýsingin megi á ókomnum árum í enn ríkara mæli en hingað til verða þjóðum heims leiðarljós í viðleitni til verndar mannhelgi og mannréttindum og skin hennar vaxa hvarvetna þar sem nú hvíla skuggar yfir.

Forseti tók öll dagskrármálin af dagskrá. Sameinað þing, 34. fundur. Þriðjudaginn 12. des., að loknum 33. fundi.