12.12.1978
Sameinað þing: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið 9. nóv. s.l. sem þetta mál var til umr. hér í hv. Sþ. Ég kvaddi mér þá hljóðs til að gera aths. við þá till. sem hér er til umr., og kann að vera, þar sem langt er um liðið, að eitthvað af þeim atriðum, sem ég ætlaði að taka til meðferðar, hafi fallíð mér úr minni. Mun ég þá reyna að bæta úr því síðar í umr.

Í því mikla kapphlaupi um að flytja sem allra flest mál, eins og verið hefur það sem af er þessu þingi, má e.t.v. segja að það ætti ekki að vera undrunarefni neinum þó að fljótaskrift sé á sumum málum og þau ekki mikið grunduð, ekki síst þegar reynslulitlir þm. eiga í hlut. Hitt er öllu lakara, þegar margreyndir þm. láta sig henda að flytja mál og margendurflytja það, eins og það sem hér er til umr., og láta standa sig að því að hafa hvorki þekkingu né skilning á því máli sem þeir taka sér fyrir hendur að flytja á Alþ., því ég vil ekki ætla hv. flm. þessarar þáltill. að þeir séu að reyna að villa um fyrir öðrum vitandi vits. Ekki hefur farið leynt, að hv. frsm. og 1. flm., Eyjólfur Konráð Jónsson, hefur ekki neinn sérstakan áhuga á að flytja eða fylgja máli sem yrði til þess að efla samvinnufélögin í landinu. Áhugi hv. þm. fyrir samvinnuhreyfingunni virðist nú vera annars eðlis. Þó kom mér mest á óvart þegar svo er komið, að þvílíkur kappi sem hv. þm. Páll Pétursson er fórnar höndum í þessum ræðustól og hrópar til þjóðarinnar: Ég er sigraður. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur sigrað í þessu máli. — Mér er spurn: Hvað hefur komið fyrir hv. þm. Pál Pétursson þegar hann gefst upp fyrir þvílíkum málflutningi sem hér er hafður í frammi? Einhvern tíma hefði mönnum dottið í hug að hv, þm. hafi verið beittur göldrum.

Ég vil ekki trúa því að óreyndu, að meiri hl. hv. þm. greiði atkv. með nokkurri till., sem snertir bændastéttina, þegar fyrir liggur að bændastéttin er á móti þeirri breytingu sem í till. felst. Það væri mikið óþurftarverk ef löggjafinn færi að grípa inn í þá samhjálp, sem bændur hafa komið á hjá sér í frjálsum opnum félögum þar sem hinir efnameiri styðja hina efnaminni, og brjóta þessa samhjálp niður eins og lagt er til með þessari tillögu.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gaf í skyn að umsagnaraðilar um þessa till. á síðasta þingi hefðu ekki allir verið henni mótfallnir. Ég veit ekki betur en allir — bókstaflega allir umsagnaraðilarnir hafi verið það, umsagnirnar hafi verið á einn veg: enginn mælti með því að hún yrði samþ. Ég mun koma að því betur síðar.

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda í sumar var samþ. eftirfarandi till., með leyfi forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda, haldinn á Akureyri 29.–31. ágúst 1978, telur ekki æskilegt að breyta því fyrirkomulagi, sem nú er, að afgreiða afurðalán og rekstrarlán landbúnaðarins til sölufélaga bænda.“

Aðeins tveir fulltrúar greiddu atkv. gegn þessari tillögu. Það liggur því ótvírætt fyrir, hver afstaða bænda er til þessarar till., og því liggur á borðinu að hún er ekki flutt í þágu þeirra, heldur einhverra annarra.

Hv. frsm. sagði að það væri eitt mesta hagsmunamál bænda, að rekstrar- og afurðalán færu að ganga beint til bænda og söluaðilar hættu að valsa með þessa fjármuni, eins og hv, þm. komst svo smekklega að orði. Þarna snýr hv, þm. staðreyndum algjörlega við. Sannleikurinn er nefnilega sá, að ef það fyrirkomuleg yrði upp tekið, sem í till. felst, og ef þessi lán yrðu sama hlutfall af verði afurðanna og verið hefur, þá yrði þessi breyting til stórtjóns fyrir bændur, eins og ég mun sýna fram á siðar. Það eina raunhæfa, sem að gagni mundi koma fyrir bændastéttina, er að rekstrar- og afurðalánin verði hækkuð frá því sem verið hefur. Allar aðrar breytingar munu reynast neikvæðar fyrir bændastéttina, og það er yfirleitt öllum bændum ljóst.

Hv. þm. sagði í framsöguræðu sinni, með leyfi forseta: „Alkunna er að fjármunir þessir eru notaðir í almennum rekstri ýmissa verslunarfyrirtækja.“ — Ég vil spyrja hv. þm.: Hvaða verslunarfyrirtæki eru það sem hann á við? (Gripið fram í: Veist þú ekki um það?) Nei.

Ennfremur sagði hv. þm., með leyfi forseta:

„Áður en vinstri stjórnin tók við völdum var gert ráð fyrir að útflutningsbætur og niðurgreiðslur losuðu á þessu ári 11 milljarða kr. sem til bænda eiga að renna. Þetta þýðir að meðaltali um 2.5 millj. á hvern bónda, því bændur eru taldir vera nálægt 4 500, a.m.k. ekki fleiri. Þessa fjármuni teldi ég eðlilegt að greiða t.d. mánaðarlega, þannig að meðalgreiðsla til hvers bónda væri um 200 þús. á mánuði. Væri þá hægt að fara að tala um að bændur fengju laun sín greidd á sama hátt og aðrar stéttir, enda fengju þeir þá líka yfirráð yfir því lánsfjármagni sem til landbúnaðar á að renna eins og áður getur.

Samkv. stefnu núv. ríkisstj. og fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að greiðslur þessar tvöfaldist rúmlega og verði a.m.k. 22–23 milljarðar, eða 5 millj. á meðalbú á ári, ef þær verða þá ekki enn hækkaðar til muna eins og margt bendir til. Þar við bætast svo lánin. Þannig næmu heildargreiðslur úr bankakerfinu og ríkissjóði nærri 8 millj. kr. á meðalbú á ári, — 8 millj. kr., sem bændur ættu auðvitað að fá beint, en ekki að ganga í gegnum verslunarfyrirtækin. Auðvitað dylst engum að taka þarf til hendinni þegar breytingar eins og þessar eru gerðar. En hitt er alveg ljóst að mínu mati, að fyrirkomulagið verður allt miklu einfaldara eftir en áður, gagnstætt því sem kerfið heldur nú fram. Enginn efi er á því, að breytingar í þessa átt eru eitthvert mesta hagsmunamál bændastéttarinnar, og því þarf Alþ. að taka af skarið í þessu efni fyrr en síðar.

Eins og ég gat um áðan er allt það kerfi, sem fjárstreymi í landbúnaði lýtur, með þeim ósköpum að ógerningur er að fá upplýsingar um ferðalag þessara gífurlegu fjármuna, hversu lengi aðrir en bændur ráðskast með það og hversu mikið vaxtatapið er meðan upphæðir þessar, sem eru vaxtalausar hjá þeim sem hafa þær undir höndum, eru á leiðinni til réttra móttakenda, en þar er auðvitað um stórfjárhæðir að ræða. Mig grunar raunar,“ heldur hv. frsm. áfram, „að hér sé að finna meginvanda landbúnaðarins, ekki síst á miklum verðbólgutímum, og ef þessi vandi væri leystur færi margt betur.“

Þar sem svo langt er liðið síðan hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flutti þessa ræðu taldi ég rétt að rifja upp þennan kafla úr henni, enda var allur málflutningur hans í sambandi við þetta mál með þeim hætti að furðu sætir og þó ekki síst sá kafli sem ég nú las.

Hv. þm. talar um að ef greiðslurnar gengju beint til bænda, t.d. niðurgreiðslur og útflutningsbætur, þá væri hægt að fara að tala um að bændur fengju laun sín greidd á sama hátt og aðrar stéttir fá. Veit ekki hv. þm. að flestallir bændur í landinu vita og skilja að þeir eru í flestum tilfellum búnir að fá þessa fjármuni í hendur áður en verslunarfyrirtækin fá þessa fjármuni greidda? Hv. þm. virðist leggja saman rekstrarlán og afurðalán, svo leggur hann útflutningsbætur og niðurgreiðslur við þessa tölu, og þá sýnir reikningsstokkurinn hans að verslunarfyrirtækin séu búin að fá í hendur um 8 millj. á meðalbú. Með þessa fjármuni segir hann að þau valsi að meira eða minna leyti.

Hv. þm. eru að verða ýmsu vanir síðustu mánuði, en þó hygg ég að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hafi þarna komist lengra frá raunveruleikanum en öðrum hefur tekist, sé methafi að þessu leyti, og hafa þó ýmsir hv. þm. farið frjálslega með staðreyndir að undanförnu, svo ekki sé meira sagt. Hv. þm. segir að afurðalánin hafi orðið hæst í des. 1977 12.7 milljarðar, en rekstrarlánin í okt. sama árs 3.3 milljarðar. Nú hef ég ekki sannreynt þessar tölur, en ég geng út frá því að þær séu réttar. Þó er ljóst að hv. þm. telur til rekstrarlána endurkeypta víxla vegna áburðarkaupa og uppgjörs lána sem eru í eðli sínu lán út á kjötbirgðir sem þjóðin þarf til neyslu frá því í aprílmánuði hvert ár og fram til næstu sláturtíðar, en látum svo vera. Hv. þm. segir, að ógjörningur sé að fá upplýsingar um ferðalag þessara gífurlegu fjármuna, hversu lengi aðrir en bændur ráðskast með þá. Það er engin launung með neitt í þessu sambandi, en menn verða að nenna að grafast fyrir um þessa hluti eins og aðra, þá er vandalaust að skilja og segja þessa ferðasögu.

Afurðalán á sauðfjárafurðir 1977 — því miður hef ég ekki tölurnar í ár — miðað við dilk, sem vegur 15 kg, eru þessi: 15 kg kjöts kosta 749 kr., eru niðurgreidd um 210 kr., en gæran á meðaldilk er niðurgreidd um 397 kr., kostar 1250 kr., slátur 1 067 kr. Lán endurkeypt af Seðlabankanum út á kjöt af 15 kg dilk er 532 sinnum 15, eða 7 980 kr. Gæran var endurkeypt fyrir 730 kr., en aðeins lifrin úr slátrinu, sem er 420 g á 184 kr. Samtals voru lánin frá Seðlabankanum út á dilk þetta ár 8 894 kr. eða 53.25% af heildsölukostnaði. Frá viðskiptabanka eru þau 30% eða 2 668, samtals 11 562 eða 69.20% af verðmæti dilksins. Að vísu segir Seðlabankinn að hann láni út á kjötið 58.5%, gæruna 56.7% og lifrina 56.75%, en það er vegna þess að hann miðar aðeins við 95% af verðinu og tekur ekki sjóðagjöldin þar inn í. Enn fremur, eins og ég sagði áðan, lánar hann ekki út á slátrið nema út á lifrina eina. Þess vegna kemur sá munur sem er á tölum Seðlabankans og þeim sem ég er með.

Afurðalánin frá Seðlabankanum eru afgreidd síðast í nóvembermánuði og um leið eru öll rekstrarlán greidd upp. Viðskiptabankarnir hafa greitt lán sín yfirleitt þannig, að helmingurinn hefur verið greiddur í lok nóvembermánaðar og hinn hlutinn í lok desember, þar til nú, að öll þessi lán munu hafa verið greidd um mánaðamótin nóv.–des. Hins vegar færa a.m.k. kaupfélögin 80% af haustverðinu, flestöll 85% og sum þar yfir, inn í reikning bænda um mánaðamótin nóv.–des., þó þau hafi ekki fengið fram að þessu nema um 60% af verðinu í afurðalán. Sum bæta við 1. jan., svo að greiðslan sé þá komin í 90%, þó heildarlánin séu ekki nema rúm 69%, eins og áður segir.

Á fundi, sem var haldinn á Kjalarnesi fyrir skömmu, þar sem þessi mál voru rædd, spurði formaður Sláturfélags Suðurlands, Gísli bóndi á Hálsi, að því, hvernig kaupfélögin færu að því að greiða bændum þetta miklu meira en næmi afurðalánunum. Hann fékk þau svör, að skýringin á því mundi vera sú, að fyrir utan eigið fé félaganna ættu bændur og ýmsir aðrir félagsmenn inni í reikningum í kaupfélögunum, sem yrði til þess að þessar greiðslur reyndust framkvæmanlegar. Á þessum fundi kom fram, að Sláturfélagið greiðir bændum þá prósentu sem þeir fá hverju sinni út á afurðirnar, og því greiðir það bændum a.m.k. 15% minna en kaupfélögin gera fyrir áramót. Það er einmitt þetta sem hv. flm. þessarar till. eru í raun og veru að berjast fyrir — það er sú kjarabót sem þeir ætlast til að bændur verði aðnjótandi ef þeir fá að ráða.

Það næsta, sem hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson gerir, er að leggja niðurgreiðslur og útflutningsbætur við afurðalánin og ekki er hægt að skilja annað af máli hans en að hann standi í þeirri trú, að söluaðilarnir fái í hendur þessar greiðslur áður en þeir greiða afurðalánin. Hann segir að þessar greiðslur séu samtals um 8 millj. á meðalbú, sem eftir hans útreikningi ætti að vera um 36 milljarðar í heild á sauðfjárafurðirnar þar sem hann telur að bændur séu 4 500 talsins. Hv. þm. virðist ekki skilja að niðurgreiðslur og útflutningsbætur eru hluti af verðinu og fara alltaf til að greiða niður afurðalánin, og oft hafa söluaðilar orðið að greiða þau nokkru fyrr er niðurgreiðslurnar berast þeim í hendur. Um hver mánaðamót verður hver söluaðili að gefa viðskiptabanka sínum birgðaskýrslu og hann verður að greiða niður afurðalánin miðað við sölu liðins mánaðar. Það væri hagur að því fyrir söluaðilann að þessar vörur væru ekki niðurgreiddar, því þá fengi hann allt verðið borgað um leið og hann afhendir vöruna og þá væri hann ekki í neinum vandræðum að borga afurðalánin sem mánaðarsölunni nemur. Í þess stað má hann borga lánin og bíða síðan eftir því að fá þann hluta verðsins er niðurgreiðslunni nemur hverju sinni. Og hver skyldi vera hagnaður hans af þessum niðurgreiðslum, sem hv. þm. ræðir um? Það er vaxtatapið sem hann verður fyrir frá því að hann selur vöruna þar til niðurgreiðslurnar berast honum í hendur. Það er á þennan hátt, hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, sem söluaðilarnir verða að líða fyrir þessar niðurgreiðslur. Það er ekki á einu sviði, heldur öllum, sem staðreyndunum er bókstaflega snúið við. Oft hefur dregist að ríkissjóður hafi innt þessar greiðslur af hendi, þó að þær hafi síðustu mánuði verið greiddar á tilskildum tíma.

Þegar um útflutning er að ræða verður útflutningsaðilinn að greiða niður afurðalánin sem söluverðmætinu nemur. Þegar greiðslan berst erlendis frá til gjaldeyrisbanka útflutningsaðilans og þegar ríkissjóður innir útflutningsbæturnar af hendi er lánið svo greitt upp að því marki sem út var flutt í hvert sinn. Söluaðilinn fær því útflutningsbæturnar aldrei í hendur. Þær fara sjálfkrafa til að greiða afurðalánin niður. Hins vegar hafa greiðslur á útflutningsbótum oft dregist verulega, allt frá 2 mánuðum upp í 31/2 mánuð frá því að reikningur um útflutning hefur verið sendur. Hefur þessi dráttur á greiðslum verið mjög bagalegur fyrir söluaðila og af honum hefur verið verulegt vaxtatap. T.d. var vaxtatapið árið 1974 15 millj. 673 þús. kr. af þessum ástæðum, árið 1975 51 millj., árið 1976 102 millj. 960 þús. Framleiðsluráð greiddi þá af þessari upphæð 75 millj. og komu því á söluaðilana 27 millj. 960 þús. Þetta er sá hagnaður í reynd sem söluaðilarnir-hafa haft af þessu fjármagni.

Í sambandi við mjólkurframleiðslu eru engin rekstrarlán veitt nema að því leyti sem greiðslufrestur er á áburðarkaupum, sem kemur til góða allri landbúnaðarframleiðslunni. Afurðalán eru veitt út á birgðir eins og þær eru á hverjum tíma, sama hlutfall af verðmætinu og út á sauðfjárafurðir. Mjólkurvinnslustöðvarnar borga bændum í öllum tilfellum verulega meira en sem nemur afurðalánunum.

Hv. þm. fullyrti að hægt væri að lækka sláturkostnaðinn, sem hann kallar svo, um 100 kr. á hvert kg eða fast að 1/3. En um hvað er hv. þm. að tala. Í umr. um kostnað vegna slátrunar hefur nær alltaf verið blandað saman kostnaði vegna slátrunar og heildsölukostnaði. Ef maður athugar þessi mál skiptist þessi liður, sem er kallaður slátur- og heildsölukostnaður, þannig: Í haust ákvað Sexmannanefnd, að slátur- og heildsölukostnaður skyldi vera 303 kr. á hvert kg af kindakjöti. Ef kostnaði væri skipt mætti skrifa á sjálfa slátrunina um 159 kr. á hvert kg kjöts, þar af eru laun, launatengd gjöld og fæðiskostnaður starfsfólks 99.90 kr. Rafmagn, olía, hiti er reiknað á 7.60 kr., kjötskoðun og stimplun á hvert kg. 2.80 kr., umbúðir á ýmsar rekstrarvörur um 17 kr. á kg. Viðhald sláturhúsa, afskriftir og húsaleiga er reiknað á 16.40 kr. Eftir er tæp 21 kr., sem fer til greiðslu á opinberum gjöldum og skrifstofukostnaði. Áætlaður kostnaður við frystingu kjötsins er 27 kr. á kg. Rýrnun er áætluð 19 kr. á kg. Verðjöfnunargjald er reiknað 8.30 kr., en það er vegna flutningskostnaðar annars en hins venjulega flutningskostnaðar á milli dreifiaðila, sem er 11.30 kr. Sjálfur heildsölukostnaðurinn er reiknaður 43.60 kr. Kostnaður, sem fellur á hvert kg kjöts frá framleiðanda til smásalans, var í fyrra 200 kr. á kg. Nú er þessi kostnaður, eins og áður segir, 303 kr. Ef Sexmannanefnd áætlaði kostnaðinn minni en hann raunverulega yrði, þá mundi það koma fram í lægra útborgunarverði til bænda og þeir fengju ekki grundvallarverð fyrir kjötið vegna þess að kjötreikningurinn er alveg gerður upp, a.m.k. hjá þeim kaupfélögum sem ég þekki til.

Hv. þm. Albert Guðmundsson spurði um umboðslaun af þessari framleiðslu og deildi á það, að umboðslaun væru reiknuð á heildsöluverðið eins og það er reiknað á hverju hausti, t.d. á það sem út er flutt. Hv. þm. taldi að eðlilegra væri að umboðslaun væru reiknuð af því verði, sem fyrir vöruna fengist hverju sinni, en miða þessa greiðslu við heildsöluverð. Um það má deila, hvaða regla sé eðlilegust í þessu sambandi. En ég hygg þó að ýmis rök mæli með þeirri reglu, sem gilt hefur í þessu efni, þegar málið er nánar skoðað. Frá sumum sláturhúsum er verulegt magn flutt út, frá öðrum ekkert. Mjög misjafnt verð fæst t.d. fyrir dilkakjöt erlendis, og það er nánast tilviljun ein sem ræður því, til hvaða lands kjöt fer frá hverjum stað. Þegar fyrirhöfnin er minnst við söluna, eins og að selja til Noregs, er verðið hæst. Þar sem fyrirhöfnin var langmest var verðið minnst, eins og í Frakklandi. Það er full verðjöfnun, eins og hv. þm. vita, á milli bænda innbyrðis fyrir þessa framleiðslu alla. Því er ekki óeðlilegt að umboðslaunin séu þau sömu frá öllum. Þar sem umboðslaunin eru miðuð við haustverð voru þau reiknuð 2%, en reyndust vera af verðmæti þessara vara fyrir verðlagsárið 1977 1.67% miðað við heildsöluverð á árinu. Við skulum athuga þetta ögn nánar.

Áður en Osta- og smjörsalan var stofnuð voru heildsalarnir að verulegu leyti dreifingaraðilar fyrir kaupfélögin úti um land. Umboðslaunin, sem þessar heildverslanir tóku fyrir þessa þjónustu, voru 12% af smjöri og ostum. Á ýmsu gekk með greiðslur frá sumum þessum fyrirtækjum til vinnslustöðvanna. Eftir að Osta- og smjörsalan tók til starfa hefur kostnaður við rekstur hennar reynst vera um 3%, en mjólkurvinnslustöðvarnar greiða jafnmikið fyrir þessa þjónustu og kostnaðurinn er í reynd hvert ár. Osta- og smjörsalan hefur tekið 4–5% af þeim söluvörum sem hún fær til dreifingar, en endurgreiðir síðan til vinnsluaðilanna eftir því hvernig reksturinn kemur út ár hvert. Þó þessi kostnaður hafi ekki reynst vera nema um 3%, þá annast Osta- og smjörsalan eftirlit með öllum mjólkurvinnslustöðvunum og rekur rannsóknarstofu til þess að fylgjast með framleiðslu þessara vara, en við það er verulegur kostnaður sem að líkum lætur. Eins og sést af þessu, hafa orðið mikil umskipti með tilkomu Osta- og smjörsölunnar. Ég hygg að bændur hafi enga löngun til að hverfa aftur til þess tíma, að heildsalar höfðu dreifinguna á hendi, enda er kostnaður við hana í reynd ekki nema 1/4 af þeim kostnaði sem áður var þegar tillit er tekið til rekstrar rannsóknastofunnar og eftirlitsins með mjólkurbúunum.

Ég tel að þessar tölur sýni einnig að umboðslaunum Sambands ísl. samvinnufélaga, sem reyndust, eins og áður sagði, 1.67% á síðasta ári, sé það í hóf stillt að ekki sé hugsanlegt að sú tala lækki frá því sem hún er, hvaða aðferð sem notuð yrði til að ákvarða þessi umboðslaun.

Það hefur oft komið fram, að vinnslu- og sölukostnaður á landbúnaðarvörum er minni hér en í nokkru landi sem ég þekki til eða hef heyrt um. T.d. fá bændur í Bandaríkjunum 1/3 af verðinu, eða u.þ.b., sem neytandinn verður að gefa fyrir þessar vörur. Í sumar fengu bændur í Svíþjóð um 59% af verði mjólkurinnar. En hér fengu bændur þegar ég athugaði þetta fyrir mánuði, t.d. um 73% af verði kjötsins. Þetta segir sína sögu um það, hvernig að þessum málum hefur verið staðið.

Til enn frekari áréttingar því, er ég hef sagt um þessa till., vil ég vitna í umsagnir nokkurra aðila. Ég vil þá fyrst koma með umsögn sem hefur borist frá samstarfsnefnd búvörudeildar SÍS, en formaður hennar er Ólafur Sverrisson kaupfélagsstjóri í Borgarnesi, með leyfi forseta:

„Eins og greint var frá í síðasta hefti kaupfélagsritsins hefur KB nú í sumar greitt þau rekstrarlán, sem Seðlabanki Íslands hefur veitt út á væntanlegt innlegg dilka í haust, inn á viðskiptareikning bænda hjá kaupfélaginu. Var þessi háttur tekinn upp án þess um það væri beðið af bændum. Telja verður þessa aðferð við greiðslu rekstrarlánanna hina réttu, þó að þetta breyti litlu fyrir þorra bænda, m.a. miðað við fyrri aðferðina, þ.e.a.s. að sláturfjárreikningurinn taki lánið. Þó hefur þetta þann ótvíræða kost, að bændur sjá glöggt hver rekstrarlánin raunverulegu eru, en nú eru þau 995 kr. á dilkinn í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Hnappadalssýslu, þ.e.a.s. þar sem er aðalmjólkurframleiðsla, en 1490 út á dilkinn úr Snæfellsnessýslu.“ — Ég vil bæta við þetta, að þar sem eru talin sauðfjárhéruð eingöngu eru þetta tæpar 2000 kr. sem greiðast á mánuðunum frá mars í jöfnum greiðslum fram undir sláturtíð. — „Rekstrarlánin verða bakfærð í októbermánuði þegar Kaupfélag Borgfirðinga greiðir út á sláturfjárinnleggið.

Hugmyndir manna á Alþ. um að afurðalán, útflutningsbætur og jafnvel niðurgreiðslur verði af ríkinu greiddar beint til bænda virðast tæplega framkvæmanlegar, enda hafa menn, sem til þessara mála þekkja, ekki fengist til stuðnings þessum hugmyndum. Skýringar á því, hvernig framkvæma ætti slíkar greiðslur beint til framleiðenda, liggja ekki heldur á lausu. En hætt er við því, að byrgja þyrfti upp mikið skrifstofubákn til þess að annast þessi viðskipti. Afla yrði upplýsinga um framleiðslu hvers einasta bónda, ekki aðeins á liðnu ári eða mánuðum, heldur einnig að fá áætlun um væntanlega framleiðslu. Hver bóndi þyrfti auðvitað að hafa sinn viðskiptareikning hjá þessari stofnun. Síðan yrðu söluaðilarnir, kaupfélögin og aðrir, að greiða mánaðarlega inn í reikning bænda hjá stofnuninni, sem væntanlega yrði í Reykjavík. Þeim greiðslum mundu að sjálfsögðu þurfa að fylgja skilagreinar um selt afurðamagn og óseldar birgðir afurða hvers bónda. Til þess að annast alla þessa skriffinnsku mundi þurfa mikinn fjölda starfsliðs. Augljóslega mundi slíkt kerfi sem þarna þarf að koma upp verða dýrara og seinvirkara heldur en núverandi fyrirkomulag, mundi auk þess stuðla að því að færa þjónustu við bændur frá landsbyggðinni til Reykjavíkur.

Því hefur verið dróttað að samvinnufélögunum, að þau valsi með fjármuni bænda í lengri eða skemmri tíma meira og minna eftirlitslaust, en svo segir í grg. með till. til þál. um beinar greiðslur til bænda, sem nú liggur fyrir Alþ. Með þessum orðum gefa flm. í skyn að afurðasölufélög bænda liggi á fjármunum bændanna, skili afurðalánum, niðurgreiðslu- og útflutningsbótafé of seint. Ekki telja flm. sig þurfa að rökstyðja þetta hið minnsta. Hvað Kaupfélag Borgfirðinga snertir er það svo, að félagið leggur á haustin til verulegt fjármagn af rekstrarfé sínu til þess að rísa undir útborgun til bænda á innlagðar sláturfjárafurðir. Nú hefur t.d. verið ákveðið að greiða út til bænda 82.8% af verðlagsgrundvallarverði, auk þess sem kaupfélagið leggur út fyrir flutningskostnaði á sláturfé að sláturhúsi. Þar að auki verður félagið auðvitað að greiða allan kostnað við slátrun o.fl. Hætt er því við að útlagt fé þess vegna muni nema miklu hærri upphæðum en afurðalánin verða, en hækki þau verulega verður útborgun Kaupfélags Borgfirðinga að sjálfsögðu endurskoðuð.

Í árslok 1977 hafði Kaupfélag Borgfirðinga greitt 160 millj. út á búvörur að viðbættum útlögðum kostnaði umfram það sem inn hefði komið í sölu eða fengist í afurðalán. Þar fyrir utan er fjárfesting í fasteignum o.fl. Þá er það alkunna, að kaupfélögin veita bændum rekstrarlán í stórum stíl til búrekstrar síns einkum þó tímabilið frá seinni parti vetrar og fram á haust. Þetta er gert af illri nauðsyn vegna þess hvað rekstrarlán bankakerfisins til landbúnaðarins eru lág. T.d. voru skuldir viðskiptavina KB utan Borgarness — og því nær eingöngu bænda — í lok ágústmánaðar 550 millj. kr. Þó höfðu rekstrarlánin frá Seðlabankanum verið færð inn í reikning hvers þeirra. Gjaldfrestur á áburði á þeim tíma, 130 millj. kr., kemur að vísu nokkuð þarna upp í, en þó er heildarskuldin fyrir utan það hjá þessum bændum 420 millj. kr.

Hér verður látið staðar numið að sinni,“ segir kaupfélagsstjórinn, „þótt margt megi segja um þessi mál. Raunar er engin ástæða til að kvarta undan umræðum um þau, en gagnrýni, sem ekki er byggð á þekkingu og velvilja, er gagnslaus og ekki marktæk. Viðskipti Kaupfélags Borgfirðinga við bændur, þá sem eru félagsmenn og aðra sem við það skipta, eru góð og ekki annars orðið vart en að í þeim viðskiptum ríki gagnkvæmt traust. Það er því næsta ólíklegt að bændur hér um slóðir treysti opinberri stofnun betur til þess að annast innheimtu niðurgreiðslna, útflutningsbóta og útvegun afurðalána heldur en sínu kaupfélagi.“

Ég gæti lesið upp miklu fleiri bréf frá ýmsum aðilum og einnig frá bændum, en næst ætla ég að lesa upp umsögn sem barst frá Búnaðarbankanum og Magnús Jónsson fyrrv. fjmrh. og bankastjóri skrifar undir. Ég efast ekki um að flestir hv. þm. telji Magnús Jónsson hafa þekkingu á þessu málefni. (Gripið fram í.) Með leyfi forseta ætla ég að lesa þetta:

„Með bréfi dagsettu 21. febr. hafið þér sent bankanum til umsagnar till. til þál. um greiðslu rekstrar- og afurðalána til bænda. Það er vafalaust ætlunin að fá fyrst og fremst skoðun bankastjórnarinnar á hinni tæknilegu hlið þessa máls, því að tilhögun á greiðslu lána þessara er að öðru leyti stjórnmálaleg ákvörðun.

Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir samhengi þessara lána, þótt þau séu mismunandi að eðli. Rekstrarlánin eru veitt að vorinu og fyrri hluta sumars án veðsetningar afurða. En lánin eru síðan greidd með afurðalánum að haustinu og því óhjákvæmilegt samhengi á milli lánanna. Upphaflega var ætlunin að rekstrarlánin gengju beint til bænda til að auðvelda þeim kaup áburðar og fleiri nauðsynja, en í reynd varð framkvæmdin strax í upphafi sú, að viðkomandi sláturleyfishafar öfluðu sér framsals bænda á rekstrarlánum og veittu þá aftur aðstoð við áburðarkaup o.fl. Varð því veiting lánanna til bænda aldrei raunhæf og hafa sláturleyfishafar tekið lánin og ábyrgst þau gagnvart viðskiptabönkunum.

Þótt látin séu liggja milli hluta vandkvæði bankanna að lána hverjum einstökum bónda er rétt að benda á að þessi aðferð gæti valdið bændum, sem erfitt eiga um tryggingar, verulegum erfiðleikum. Afurðalán bænda er veitt gegn tryggingu í afurðum á sama hátt og afurðalán í sjávarútvegi, og endurgreiðsla þeirra er tengd sölu afurðanna. Bændum er ógerlegt að tryggja afurðalánin á þennan hátt eftir að þeir hafa afhent afurðirnar. Það er því ekki sjáanleg leið til að framkvæma núverandi afurðalánakerfi, ef greiða ætti lánin beint til bænda án milligöngu þeirra fyrirtækja sem hafa afurðirnar í sinni vörslu og annast sölu þeirra.“

Ég tel ekki að það þjóni miklum tilgangi að lesa meira úr þessari umsögn Magnúsar Jónssonar og Þórhalls Tryggvasonar. Komið hefur skýrt fram álit þeirra á þessari breytingu.

Ég tel rétt að inn í Alþt. komist enn fremur það sem Samband ísl. samvinnufélaga hafði um þessi mál að segja, með leyfi forseta:

„Vegna þess að umræður um þessi mál hafa verið mjög almenns eðlis og stundum yfirborðskenndar, er nauðsynlegt að menn fái rétta mynd af afurða- og rekstrarlánum landbúnaðarins. Þess vegna verður þetta álit nokkru lengra en ella.

Afurðalánin: Reglur Seðlabankans miðast við það, að hann endurkaupi afurðalánavíxla frá viðskiptabönkunum að hámarki 52% af heildsöluverði búvara og eru birgðir í mánaðarlok lagðar til grundvallar. Ofan á þessa upphæð lána viðskiptabankarnir 15.6% af heildsöluverði, þannig að afurðalánin eru samtals um 67.6% af heildsöluverði. Afurðalánin eru veitt sláturleyfishöfum og mjólkursamlögum út á birgðir og bera þessir aðilar ábyrgð á því að skila bönkunum niðurgreiðslu á lánunum af söluandvirði.

Hvað varðar samvinnufélögin, þá hafa þau greitt afurðalánin beint til bænda og annarra innleggjenda og í svo til öllum tilvikum hafa þau sjálf bætt við bankalánin með því að greiða frá 75% upp í 85% af innleggi í lok sláturtíðar og eftirstöðvar þegar afurðir eru seldar. Kaupfélögin hafa greitt þessar upphæðir inn í viðskiptareikninga innleggjenda, sem er hliðstætt því að fjárhæðirnar hefðu verið greiddar í bankareikninga viðkomandi aðila. Kaupfélögin eru hluti af bankakerfinu og staðfestir Seðlabankinn þann skilning með því að gera innlánsdeildum skylt að greiða í Seðlabanka bindingu af spariinnlánum. Ekki virðist ástæða til þess að gera greinarmun á reikningsinnstæðum í sambandskaupfélögunum, sem nú annast slátrun, og innstæðum í viðskiptabanka. Þáltill. er því óþörf hvað varðar afurðalán sambandskaupfélaganna.

En það er annað atriði, sem snertir afurðalánin, sem ástæða er til að leggja áherslu á, þ.e. að taka undir ályktanir bændafundanna um að afurðalánin verði hækkuð úr sem svarar 67.6% í a.m.k. 90%. Það er þetta atriði sem bændur leggja höfuðáherslu á. Fyrirkomulag greiðslnanna hefur ekki, svo vitað sé, verið ágreiningsatriði á bændafundum.

Rekstrarlánin: Kaupfélögin hafa lengst af, frá því að fyrsta kaupfélagið var stofnað árið 1882, verið aðalbankastofnanir bænda. Kaupfélögin hafa haft þá reglu í nær heila öld að gefa bændum kost á að fá lán út á væntanlegt haustinnlegg. Rekstrarmál bænda hefðu vart orðið leyst á annan veg. Kaupfélögin hafa einnig veitt bændum lán til uppbyggingar, og er ekki ofsagt að félagsmenn kaupfélaganna hafi beitt félögunum fyrir uppbyggingu í sveitunum eftir því sem kostur var á í hverju félagi. Þessi bankastarfsemi kaupfélaganna var félagsmönnum ekki aðeins nauðsynleg, heldur einnig mjög hagstæð samanborið við aðra möguleika.

Á seinni áratugum hafa orðið miklar breytingar í landbúnaði hér á landi. Vélar hafa leyst handafl af hólmi, rekstrarvörur, svo sem áburður og kjarnfóður, hafa orðið æ þýðingarmeiri þættir í landbúnaðinum og landbúnaðurinn í dag er rekinn sem fjármagnsbúskapur. Það er ekki síst sauðfjárbúskapurinn sem þarf mikið rekstrarfé, vegna þess m.a. hve langan tíma tekur að fá afurðir frá búrekstrinum. Í þessu sambandi má bregða upp mynd er skýrir þetta betur.

Bóndi kaupir áburð á tún sitt nú í vor, heyjar túnið í sumar og gefur búfénu heyið ásamt kjarnfóðri veturinn 1978–1979. Í maí 1979 fæðast lömbin fyrst og afurðir þeirra eiga að greiða allan rekstrarkostnað við sauðfjárbúskapinn. Þá koma aftur áburðarkaup og heyöflun til næsta vetrar. Í sept. og okt. 1979 er dilkunum slátrað og verið er að selja afurðirnar til haustsins 1980. Þannig líða nær tvö ár frá því að byrjað er að eyða verulegu fjármagni í rekstrarkostnað, sem er margþættur, þar til afurðaverðið skilar sér endanlega.

Hér verður líka að vekja athygli á hinum mikla fjármagnskostnaði, en vextir hér í verðbólgunni eru bændum mjög þungir í skauti og auka á misræmi í framleiðslukostnaði hér miðað við samkeppnislöndin. Á árunum 1955–1956 byrjaði bankakerfið að veita sérstök rekstrarlán vegna sauðfjárframleiðslu. Má segja að með þessu hafi verið greitt fyrir því, að samvinnufélögin og aðrir sláturleyfishafar gætu haldið áfram að veita bændum lán út á haustinnlegg sitt. Á árinu 1958 voru rekstrarlánin, sem Seðlabankinn veitti, 53.8% af heildsöluverði sauðfjárafurða og voru lánin veitt á tímabilinu mars-ágúst. Þessi lán fóru lækkandi næstu árin og árið 1977 voru þau 17.5 % af heildsöluverði miðað við árið 1977. Í þessu sambandi er þó rétt að geta þess, að til viðbótar hafa komið lán út á áburð frá Áburðarverksmiðjunni. Þrátt fyrir að rekstrarlánin fóru hlutfallslega svo mjög lækkandi reyndu kaupfélögin að halda hinni áratugagömlu reglu að veita bændum lán út á haustinnlegg sitt. Þetta hefur þó orðið kaupfélögunum ofraun. Sveiflan í fjármagnsstöðunni frá mars til nóv. hefur verið meiri en kaupfélögin gætu ráðið við. Til þess að útskýra þetta nánar er rétt að nefna dæmi.

Á árinu 1976 — tölur frá 1977 liggja ekki fyrir þegar þetta er skrifað — kom í ljós að skuldir viðskiptamanna sambands kaupfélaga að frátöldum innstæðum hækka frá 1. jan. til 31. ágúst 1976 um 4.1 milljarð kr., en lækka svo aftur þegar haustafurðir koma til skila. Staðan er jákvæð yfirleitt um áramót. Til frádráttar á þessari sveiflu koma svo rekstrarlánin til landbúnaðarins sem veitt voru frá Seðlabankanum, þar með lán til áburðarkaupa, á tímabilinu frá mars til ágúst, 1.1 milljarður. Sveiflan frá jan. til ágúst er því 3 milljarðar. Þessa upphæð þurfa kaupfélögin að fjármagna. Að sjálfsögðu gátu kaupfélögin ekki axlað þessa byrði án þess að fá til þess aðstoð. Sambandið hefur á undanförnum áratugum komið inn í myndina, og árið 1976 er talið að af 3 milljörðum hafi lent á Sambandinu 1.3 milljarðar. Mismunurinn, 1.7 milljarðar, lenti á kaupfélögunum sjálfum. Það gefur auga leið, að auðvitað þurfa kaupfélögin og Sambandið að leita til bankanna til þess að geta axlað þessa byrði. En þrátt fyrir nokkra fyrirgreiðslu þaðan var staðreyndin sú, að það varð kaupfélögunum og Sambandinu ofraun að veita hina miklu lánafyrirgreiðslu til landbúnaðarins á s.l. ári, eins og reyndar undanfarin ár, og óhagstæð lausafjárstaða hjá flestum félaganna og Sambandinu varð dragbítur á rekstri þeirra.“

Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því, að það hefur komið í hlut kaupfélaganna að leysa að stærstum hluta rekstrarlán landbúnaðarins vegna sauðfjárbúskaparins. Frá sjónarhóli samvinnuhreyfingarinnar yrði það mjög hagstætt ef bændum yrði með fyrirgreiðslu úr bankakerfinu gert kleift að staðgreiða kostnaðinn við búreksturinn. Slíkt mundi leysa stóran fjárhagsvanda samvinnufélaganna og losa þau við þá klemmu sem þau hafa lent í vegna rekstrarlána bænda.

En þessi mál eru kannske ekki svo einföld í framkvæmd. Fyrsta spurningin verður sú, hvort bankakerfið sé reiðubúið að taka að sér að leysa rekstrarlánin, sem mundi þýða margföldun lánanna frá því sem nú er. Yrði þá lágmarkið að vera það, að bændur ættu kost á rekstrarlánum sem svaraði 65% af heildsöluverði sauðfjárafurðanna og væru þau lán veitt á tímabilinu mars–sept. Afurðalánin yrðu þá einnig að hækka mjög verulega. Önnur spurning er trygging til viðskiptabankanna. Þriðja spurningin er stóraukinn kostnaður fyrir bændur vegna breytts fyrirkomulags. Lánafyrirgreiðsla kaupfélaganna til bænda hefur verið 6dýr. Að henni hefur verið tímasparnaður fyrir bændur. Þeir hafa verið í flestum tilfellum leystir undan því að sitja í biðstofum til lánsútvegunar og þeir hafa ekki þurft að greiða lántökukostnað. Fjórða spurningin hlýtur þó að vega mest. Vilja bændur sjálfir gera á þessu breytingu, treysta á að bankakerfið leysi rekstrarlánin, en kaupfélögin hætti að lána út á haustinnlegg? Þessi lánamál landbúnaðarins eru afar þýðingarmikil og vandasöm viðfangsefni og þurfa að athugast öll í samhengi. (Forseti: Ég verð senn að biðja hv. ræðumann að gera hlé á máli sínu vegna þingflokksfunda.) Það er sjálfsagt. (Forseti: Þegar honum hentar í ræðu sinni.) Ég get gert það hvenær sem er. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég mun halda áfram máli mínu þar sem frá var horfið. Ég tel mig hafa sýnt fram á að sú till., sem hér er til umr., mundi ekki leysa nein vandamál í landbúnaði ef samþykkt væri, heldur hið gagnstæða. Ef sú breyting, sem till. felur í sér, kæmist til framkvæmda mundi hún bitna fyrst og fremst á efnaminni bændum, eins og kom fram í því sem ég las upp áðan úr umsögn bankastjóra Búnaðarbankans og frá fleiri aðilum. Samhjálpin yrði þar með brotin niður. Hver bóndi yrði þar á eftir að fá öll sín rekstrarlán í hanka. Hvernig það mundi ganga fyrir hvern og einn geta menn deilt um. En ekki eru bankaútibú í öllum héruðum og því er vafasamt hagræði að slíkri breytingu, svo að ekki sé meira sagt. Þetta skilja bændur yfirleitt, enda leggjast þeir hart á móti því, að þessi breyting nái fram að ganga. Bankarnir telja þessa breytingu bæði óæskilega og ekki framkvæmanlega nema með verulega aukinni skriffinnsku, sem mundi hafa verulega aukinn kostnað í för með sér, ekki síst fyrir bændur. Þar við bætist að afgreiðslan yrði seinvirkari.

Ég hef komið fram með það í skýrum dæmum, að það sé hreinn misskilningur að sölufélögin haldi fjármunum fyrir bændum. Þau gera það hvorki að því er varðar rekstrarlán, afurðalán, niðurgreiðslur né útflutningsbætur, a.m.k. ekki þar sem kaupfélögin eiga í hlut. Í öllum tilvikum hafa kaupfélögin greitt bændum meira en rekstrar- og afurðalán nema, og þar er um að ræða umtalsverðar upphæðir. Eins og fram kom fyrr í ræðu minni borgar t.d. Kaupfélag Borgfirðinga rekstrarlánin inn í reikninga bænda jafnóðum og þau eru afgreidd, og það gera miklu fleiri kaupfélög. Það koma t.d. greinilega fram í ræðum manna á aðalfundi Stéttarsambands bænda um mánaðamótin ágúst og sept. í sumar. En þó að það væri gert hjá Kaupfélagi Borgfirðinga að borga rekstrarlánin beint, þá voru skuldir bænda í byrjun sláturtíðar samt 420 millj, fyrir utan 130 millj. sem Kaupfélagið var ábyrgt fyrir vegna áburðarkaupa. Á sama hátt hafa mjólkurvinnslustöðvarnar orðið að fjármagna birgðir í mjólkurafurðum umfram afurðalán og eftirstöðvar af mjólkurverði til bænda sem nemur verulegum fjárhæðum.

Ég hef sýnt fram á að hv. frummælandi hafi misskilið hvers eðlis niðurgreiðslur og útflutningsbætur eru. Hv. þm. leggur saman rekstrarlán og afurðalán og bætir hann við niðurgreiðslum og útflutningsbótum. Það virðist sem hann viti ekki eða a.m.k. þykist ekki vita að rekstrarlánin eru gerð upp þegar afurðalánin eru afgreidd í lok nóvembermánaðar. Veit ekki hv. þm. að niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur eru hluti af verðinu, eða ef honum er það ljóst, hvers vegna lagði hann saman þessar tölur og sagði síðan að söluaðilarnir hefðu undir höndum 8 millj. miðað við meðalbú og það væri óljóst hve lengi söluaðilarnir völsuðu með þetta fjármagn?

Herra forseti. Ég vil að endingu endurtaka það, að mér er með öllu óskiljanlegt hvernig á því getur staðið, að svona till. er flutt á hinu háa Alþingi og það af hv. þm. sem ætti að hafa talsverð tengsl við bændur og viðskiptalífið í heild. Með ólíkindum er hve lítið hann virðist þekkja þessi mál, ef dæma má af öllum þessum málatilbúnaði. Þessi mál eru síður en svo torskilin séu þau á annað borð skoðuð. Allur þessi málflutningur, bókstaflega í öllum atriðum þessa máls, er hrein öfugmæli og minnir óneitanlega á gömlu öfugmælavísurnar. Að hv. 1. flm. skuli vera fulltrúi fyrir dreifbýliskjördæmi á hinu háa Alþingi er mál út af fyrir sig sem full ástæða væri að íhuga nánar hvernig á stendur. Þar sem bændur leggjast mjög eindregið á móti því, að til framkvæmda komi sú breyting, sem í þessari þáltill. felst, og málið snertir þá eina og félagsskap þeirra, væri það hreint tillitsleysi við bændastéttina ef till. af þessu tagi yrði samþykkt. Á sama hátt tel ég að ef bændur væru þeirrar skoðunar og það lægi fyrir, það væri þeirra hagsmunamál og þeirra vilji að slík breyting væri gerð, þá ætti Alþ. að taka fullt tillit til þess og samþykkja slíka breytingu, vegna þess að þessi till. snertir bændur eina en aðra ekki.