23.10.1978
Sameinað þing: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Aðeins varðandi fjárlfrv. og meðferð þess.

Hv. þm. Matthías Bjarnason taldi tormerki á því að afgreiða fjárl. fyrir áramót vegna þess hversu seint fjárlagafrv. kæmi fram. Ég ætla að vona, eins og ég sagði hér áður, að fjárlagafrv. komi fram um mánaðamótin, og þess vegna ætti að gefast nægur tími til þess að afgreiða fjárl. fyrir jól.

Ég vil geta þess, að árið 1974, sem hv. þm. minntist á í sinni ræðu, háttaði svo til að Alþ. var frestað. Alþ. kom ekki saman 1974 fyrr en 29. október og þá kom fjárlagafrv. fram. Þannig ætla ég að að vona að það verði ekki mjög mikill munur á því og nú verður, fjárlagafrv. komi fram um mánaðarmótin og þess vegna muni gefast nægur tími til þess að afgreiða það fyrir jól. Að sjálfsögðu er ætlun ríkisstj. að afgreiða fjárl. fyrir jólin.