23.10.1978
Sameinað þing: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fjmrh. þá lýsingu sem hér kom fram á þeirri fyrirætlan og þeim starfsháttum sem verða hafðir varðandi samráð við samtök launafólks um gerð fjárlaga og aðra meginþætti í efnahagsstefnu ríkisstj. Ég tel það sérstaklega fagnaðarefni, að sú lýsing, sem hann gaf hér, skuli hafa komið fram, vegna þess villandi fréttaflutnings sem útbreiddasta blað þjóðarinnar flutti fyrir helgina af þessum fundum. Þau vinnubrögð sem þarna hafa verið ákveðin, að ræða sérstaklega í smærri hópum við fulltrúa hinna einstöku samtaka um þau málefni sem þarna er verið að fjalla um hverju sinni, vænti ég að skili jafngóðum árangri og þau vinnubrögð sem hafa verið notuð til þessa. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé miklu árangursríkara að ræða þau flóknu mál, sem þarna eru tekin til meðferðar, á smærri fundum með fulltrúum launþegasamtakanna hverra um sig og svo sér við fulltrúa atvinnurekenda heldur en á stórum og fjölmennum fundum líkt og þeim sem haldinn var s.l. föstudag. Og því ber vissulega að fagna, að þegar í morgun skuli hafa verið haldið áfram þessum vinnubrögðum með viðræðufundi ráðherranefndar ríkisstj. og fulltrúa BSRB bæði um ýmis þau málefni, sem snerta Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sérstaklega, og ýmis höfuðatriði í þeim stefnu grundvelli sem fjárlagafrv. er byggt á.

Ég tel það sérstaklega fagnaðarefni, að slíkur fundur skuli þá þegar hafa verið haldinn og þær ákvarðanir, sem fjmrh. lýsti að teknar hefðu verið á föstudagsfundinum, hafi þegar leitt til ítarlegra og útfærðra viðræðna og samráðs af þessu tagi.

Ég er nokkurn veginn viss um það, að þótt slíkir fundir kunni að leiða til þess, að fjárlagafrv. komi nokkrum dögum síðar fram en ella, þá muni ítarlegur undirbúningur, sem felur í sér samráð við fjölmennustu samtök launafólksins í landinu, gera það að verkum, að þau grundvallaratriði efnahagsstefnunnar, sem fjárlagafrv. felur í sér, hafi þá víðtæku þjóðar- og hagsmunasamstöðu sem nauðsynleg er til þess að sú stefna, sem fjárlagafrv. markar, geti verið nauðsynlegt baráttutæki í baráttunni gegn verðbólgunni sem fjárlagafrv. hlýtur að verða að þessu sinni.

Ég verð að segja það út af ummælum hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, að þótt þau lýðræðislegu vinnubrögð að ræða við fulltrúa fólksins í landinu utan þings sem innan kunni að tefja það um nokkra daga að við hér á Alþ. fáum málið til meðferðar, þá séu það miklu vænlegri vinnubrögð en þan styrjaldarvinnubrögð sem sú ríkisstj., sem hann sat í efndi til fyrr á þessu ári. Það má vel vera, að við Matthías Bjarnason höfum ekki sama skilning á því, hvað sé eðlilegt lýðræði. Ég tel það fyllilega í anda þeirrar opnu og frjálsu umræðu, sem hlýtur að eiga sér stað í lýðræðislandi, að spurning af þessu tagi komi hér fram, þannig að allur almenningur í landinu geti héðan úr þingsölum heyrt það sanna og rétta í þessu máli, en málgagn hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar sé ekki einrátt um að flytja ranga mynd af því sem gerist í þjóðfélaginu. (MB: Hvaða málgagn á ég?) Það er það málgagn sem hv. þm. Matthías Bjarnason notar til að ráðast á sessunaut sinn, Albert Guðmundsson, eins og hann gerði s.l. sunnudag.

Ég held einmitt að það hafi of mikið skort á það hér á undanförnum árum, að þessi stofnun sé notuð til þess að tjá þjóðinni jafnóðum hvað er að gerast, það sé ekki verið að loka málin og þær umr., sem eiga sér stað, inni á einhverjum þröngum fundum, þótt það sé að vísu skiljanlegt út af því heimilisböli og þeim „lýðræðislegu“ stjórnarháttum sem tíðkast í flokki stjórnarandstöðunnar, Sjálfstfl., að einn helsti talsmaður hans hér skuli undrast það, að efnt sé til umr. af þessu tagi.

Ræða hv. þm. var að ýmsu leyti furðuleg og ég ætla ekki að gera hana — vegna tilmæla forseta Sþ. — að umræðuefni hér. Þó get ég ekki stillt mig um að benda á þann skort á jarðsambandi við þjóðfélagið og reyndar jarðsambandi við eigin flokk sem greinilega einkennir suma forustumenn Sjálfstfl. hér á hv. Alþ.,þm. Matthías Bjarnason spurði með miklum þjósti og fyrirlitningu: Var haft samráð við samtök verslunarmanna í landinu?

Það vill nú svo til að Björn Þórhallsson, formaður Landssambands verslunarmanna, er einn af nm. í samráðsnefnd Alþýðusambands Íslands og sat, að ég held, þennan föstudagsfund. Þessi ágæti forustumaður launafólks, Björn Þórhallsson, er jafnframt miðstjórnarmaður í Sjálfstfl. og einn helsti forustumaður hans í launþegahreyfingunni. Ég hélt nú að skorturinn á jarðsambandinu og innanflokkstengslunum þar á bæ væri ekki slíkur, að jafnglöggur og gjörkunnugur maður og Matthías Bjarnason þyrfti að spyrja að því, hvort samráð væri haft við landssamband verslunarfólks, þegar formaður þess sambands, miðstjórnarmaður í Sjálfstfl., er einn af nm. í samráðsnefnd Alþýðusambands Íslands og tekur fullan þátt með öðrum fulltrúum launafólks í þeim viðræðum við ríkisstj. sem nú eiga sér stað og helst var að skilja á hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni að væru ólýðræðisleg vinnubrögð. Það eru þá vinnubrögð sem miðstjórnarmaður Sjálfstfl., Björn Þórhallsson, tekur jákvæðan og virkan þátt í. Ég er viss um það, þó að hann geti svarað fyrir sig, að hann er sömu skoðunar og við, að það sé eðlilegra og heilladrýgra lýðræði fyrir þjóðina í landinu að hafa uppi þau vinnubrögð heldur en þau vinnubrögð sem Sjálfstfl. beitti sér fyrir í upphafi þessa árs.