13.12.1978
Efri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

133. mál, vörugjald

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 160 er frv. til l. um breyt. á 1. nr. 97 28. des. 1971, um vörugjald.

Eins og hv. þm. mun kunnugt var Styrktarsjóður fatlaðra stofnaður með lögum nr. 25 frá 1962 um aðstoð við fatlaða. Sjóður þessi er í vörslu félmrn. og var upphaflegt hlutverk hans að standa straum af kostnaði við að reisa og reka vinnustofnanir fyrir fatlað fólk. Með lögum nr. 95 frá 1965 var sú breyting hins vegar gerð á verkefnum sjóðsins að hluta af fé því, sem aflaðist með fyrrnefndum lögum, skyldi sérstaklega varið til aðstoðar við blint fólk. Tekjur þessa sjóðs voru ákveðnar til 10 ára og voru í fyrstu ákveðið gjald af innlendri framleiðslu á sælgæti sem gjaldskylt var samkv. lögum nr. 60 frá 1939, um gjald af innlendum tollvörutegundum. Fyrstu þrjú árin var gjaldið 3 kr. af hverju kg sælgætis, en árið 1965 var það hækkað í 4 kr., jafnframt því sem ákveðið var að 3/4 hlutum þess skyldi varið til aðstoðar við blinda, eins og áður sagði. Með samþykkt laga nr. 97 frá 1971, um vörugjald, var ákveðið að Styrktarsjóður fatlaðra skyldi halda tekjum sínum af innlendri sælgætisgerð óskertum til aprílloka 1972. Jafnframt var þá ákveðið með lögum þessum, að horfið skyldi frá skipan þessari um sérstakan markaðan tekjustofn til handa Styrktarsjóði fatlaðra. Í þess stað skyldi fjárþörfum sjóðsins mætt með sérstakri fjárveitingu á fjárlögum hverju sinni og þá með tilliti til rekstrarkostnaðar viðkomandi vinnustofnana og þeirra framkvæmda sem ákvarðanir í þessum efnum eru teknar um á hverjum tíma. Í samræmi við stefnumörkun þessa var sérstök fjárveiting til sjóðsins tekin upp í fjárlög í fyrsta sinn árið 1972 og hefur svo verið ætíð síðan. Ég hygg að í fjárlagafrv. fyrir 1979 hafi verið gert ráð fyrir 7 millj. í þessu skyni.

Styrktarsjóður vangefinna, sem frv. þetta snertir fyrst og fremst, var stofnaður nokkru fyrr eða með lögum nr. 43 frá 1958, um aðstoð við vangefið fólk. Sjóður þessi er eins og Styrktarsjóður fatlaðra í vörslu félmrn. og er hlutverk hans að standa straum af kostnaði við að reisa og endurbæta stofnanir fyrir vangefið fólk. Frá upphafi hafa tekjur sjóðsins verið ákveðið gjald sem lagt hefur verið á gosdrykki og öl sem framleitt er hér á landi. Fyrstu 5 árin var þetta gjald 10 aurar á hverja flösku gosdrykkja og öls sem seld var eða afhent. Árið 1962 var tappagjaldið hækkað í 30 aura og árið 1966 í 60 aura. Lög um aðstoð við vangefið fólk voru síðan afnumin með áðurnefndum lögum nr. 97 frá 1971, um vörugjald, en með ákvæðum 12. gr. þeirra laga voru Styrktarsjóði vangefinna tryggðar tekjur með gjaldi af gosdrykkjum og öli til loka júní 1976, og var það 1.95 kr. af hverjum lítra. Frá sama tíma var fyrirhugað að fjárþörfum sjóðsins yrði mætt með fjárveitingum úr ríkissjóði á fjárlögum hverju sinni á sama hátt og gilti um Styrktarsjóð fatlaðra. Framlagið var hins vegar hækkað í 7 kr. af hverjum lítra með lögum nr. 118 frá 1976 og þá jafnframt ákveðið að það skyldi haldast til ársloka 1977.

Í tengslum við framlengingu framlags til sjóðsins var fyrirhugað að endurskoðun á vörugjaldslögum færi fram. Þar sem endurskoðun þessi dróst nokkuð á langinn var framlagið enn á ný framlengt með lögum nr. 83 frá 1977 til ársloka 1978, jafnframt því sem það var hækkað í 10 kr. til þess að nægilegt fé fengist til rekstrar viðkomandi stofnana og þeirra framkvæmda sem þá stóðu yfir — eða fyrirhugaðar voru.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur aðallega í sér tvær breytingar á lögum nr. 97 frá 1971, um vörugjald.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða þá breytingu, að horfið skuli frá því að framlengja árlega framlag til Styrktarsjóðs vangefinna með vörugjaldslögum og þar með sérstakri mörkun vörugjaldstekjustofnsins, eins og gert var ráð fyrir í upphafi með setningu vörugjaldslaga, eins og ég hef rakið áður. Breyting þessi er í samræmi við stefnu þá sem boðuð var með framlagningu frv. til fjárl. fyrir árið 1979, en í grg. þess er gert ráð fyrir að ákvæði um framlag til Styrktarsjóðs vangefinna verði fellt niður. Framvegis er gert ráð fyrir að framlög til sjóðsins verði ákveðið með sérstakri fjárveitingu á sama hátt og gildir um flest önnur framlög til félags- og líknarmála. Í fjárlagafrv. hefur því í samræmi við þessa stefnumörkun verið lagt til að fjárveiting til sjóðsins verði 150 millj. kr.

Tekjuáætlun fjárlagafrv. vegna álagningar á innlenda framleiðslu og innflutning á vörugjaldsskyldum vörum er byggð á óbreyttri gjaldskrá. Í samræmi við það er lagt til samkv. frv. að gjaldskráin haldist óbreytt, en gildistími hennar verði hins vegar ótímabundinn. Eins og þm. er kunnugt er gjaldið magngjald. Eftirlit með álagningu slíks gjalds getur verið ýmsum erfiðleikum bundið. Ég tel því rétt að það verði kannað, hvort ekki yrði farsælla að tekjustofn þessi yrði í framtíðinni miðaður við verðmæti viðkomandi vara í stað þunga og allt eftirlit, þ. á m. bókhaldslegt eftirlit, þar með gert tryggara.

Samkv. 1. gr. núgildandi vörugjaldslaga er fjárhæð fyrir útgáfu leyfisbréfs, er heimilar vörugjald, sérstaklega ákveðin í lögunum. Leyfisbréf þetta kemur í stað iðjuleyfis, nú iðnaðarleyfis samkv. iðnaðarlögum nr. 42 frá 1978, en gjald fyrir iðnaðarleyfi ýmiss konar er ákveðið af ráðh. samkv. ákvæðum laga nr. 79 frá 1975, um aukatekjur ríkissjóðs. Lagt er til að um gjald fyrir útgáfu leyfisbréfs til tollvörugerðar verði látnar gilda sömu reglur og gilda almennt um önnur iðnaðarleyfi.

Ég hygg að þetta frv. hafi verið kynnt í þingflokkum, og ég vonast til að það fái greiða leið í gegnum þingið. Ég vil benda á að núgildandi gjaldskrá fellur úr gildi um áramótin og er því nauðsynlegt að það takist að fá frv. þetta samþykkt áður en þing fer í jólaleyfi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.