13.12.1978
Neðri deild: 1. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

120. mál, Stjórnarráð Íslands

Flm. (Bragi Jósepsson):

Herra forseti. Með lögum um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda frá 10. apríl 1968 og nánar í auglýsingu um skipulagsbreytingu frá 7. maí 1971 var fræðslumálaskrifstofan gerð að deild í menntmrn. Með samþykkt þessara laga voru felld úr gildi lög um fræðslumálastjórn frá 1930. Í 2. gr. þeirra laga segir svo:

„Fræðslumálastjóri stýrir framkvæmdum í kennslu- og skólamálum. Hann sér um að gildandi lögum og fyrirmælum um fræðslumál sé hlýtt og heimtar allar nauðsynlegar skýrslur um skólahald í landinu.“ — Þá segir einnig, að álits fræðslumálastjóra skuli leitað um öll skólamál, er undir rn. heyra, og rn. geti falið fræðslumálastjóra fullnaðarafgreiðslu einstakra mála.

Í gær skaut einn hv. þm. því að mér í sambandi við þetta frv., að rétt væri að líta á umr. sem fram hefðu farið um þetta mál á sínum tíma. Þar kemur fram, að mjög miklar umr. urðu um frv. Það sem þó vakti athygli mína enn meira var það, að fjölmargir hv. þm. voru mjög andvígir 7. gr. frv., sem er þannig:

„Fræðslumálaskrifstofan skal vera deild í menntmrn., og falla jafnframt úr gildi lög nr. 35/1930, um fræðslumálastjórn, og önnur ákvæði, sem brjóta kunna í bága við þetta.“

Það væri fróðlegt að lofa hv. þm. að heyra eitt og annað sem sagt var um þetta mál á þessum tíma, en ég ætla ekki að tefja umr. með því. Þó langar mig til þess að vitna í örfáa hv. þm., m.a. langar mig til þess að grípa niður í ræðu hv. þáv. þm. og núv. forsrh. Ólafs Jóhannessonar. Hann segir:

„Þetta frv. heitir: „Frv. til laga um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda“, og það er að langmestu leyti að sjálfsögðu um að lækka ríkisútgjöld. Í raun og veru mætti heldur segja, að réttasta heitið á þessum lögum hefði verið: Frv. um breytingu á fjárlögum, því það er fyrst og fremst um að lækka tiltekin ríkisútgjöld á þessu ári — á þeim tíma, sem þessi fjárl. eiga að gilda. Það er ekkert við því að segja. Það form hefur áður þekkst, að frestað væri um sinn framkvæmd ýmissa laga til þess að spara ríkisútgjöld, en svo kemur bara þessi 7. gr. eins og skrattinn úr sauðarleggnum — verður maður að segja — inn í þetta frv. og fjallar ekki um neina lækkun á ríkisútgjöldum, heldur um gerbreytta skipan á stjórn fræðslu- og skólamála. Nú er það kerfi, sem þarna á að breyta, ekki neinn unglingur, ef svo má segja, vegna þess að fræðslumálastjóraembættið er orðið líklega 60 ára gamalt. Því hefur að vísu verið eitthvað breytt, en skipan þeirra mála á því tímabili og þau lög, sem um það fjalla nú, eru, eins og þarna segir, frá 1930.“

Síðan segir núv. hæstv. forsrh.:

„Það er ekkert óeðlilegt við það, þó að það þurfi að gera breytingu á skipun á stjórn fræðslumála, og það væri ekkert óeðlilegt við það, þó þessi lagasetning, sem er orðin nær 40 ára að aldri, þyrfti einhverra breytinga við.“

Í niðurlagi segir núv. hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta:

„En ég vil segja það, að athugun á því máli á að fara venjulega þinglega leið áður en horfið er að þeirri skipan. Það frv. á ekki fjmrh. að bera fram, og hann á ekki að mæla fyrir því frv. Fyrir því frv. á menntmrh. að mæla. Hann á að flytja þau rök, sem liggja til þvílíkrar skipulagsbreytingar á æðstu stjórn menntamálanna.“

Þetta voru orð núv. hæstv. forsrh. við umr. sem leiddu til þess að lög voru samþ. um að fræðslumálaskrifstofan skyldi lögð niður og sameinuð menntmrn.

Eins og fram kemur í ræðu hæstv. núv. forsrh. var það hæstv. fjmrh., sem þá var Magnús Jónsson, sem flutti þetta frv. Magnús Jónsson segir um þetta:

„Vitanlega geta það verið margvísleg álitamál, sem koma upp í sambandi við það, hvernig eigi svo að skipa þessum málum í framtíðinni. Það er alveg rétt, sem hv. þm. hafa bent á, að fræðslumálastjórnin lætur mörg svið skólamála til sín taka; vitanlega þarf að endurskoða og athuga þau lög og með hvaða hætti þessum málum verður fyrir komið í þessu nýja skipulagi. Hins vegar er ekki í þessu frv. beinlínis gerð nein till. um að breyta hlutverki fræðslumálastjóraembættisins sem slíks. Það er aðeins gert að deild í rn. í stað þess, að það er nú embætti, sem vitanlega heyrir undir rn. eins og öll slík embætti, þannig að á því á ekki að þurfa að verða veruleg skipulagsbreyting. Ég get í rauninni ekki svarað spurningunni á annan veg en þann, að mér er ekki kunnugt um, að á þessu stigi málsins sé það ætlun hæstv. menntmrh. að breyta í einu né neinu því starfi, sem fræðslumálastjóri hefur unnið.“

Og hvað sagði svo hæstv. menntmrh. um þetta mál? Það er líka athyglisvert. Hann segir, og það er Gylfi Þ. Gíslason:

„Í tilefni af ummælum hv. 4. þm. Reykv. vil ég láta það koma alveg skýrt fram, að það er ekki tilætlunin, að neinar breytingar verði á raunverulegu starfsmannahaldi í menntmrn. eða á vegum þess eða í stöðum einstakra starfsmanna innan rn. eða í tengslum við það í framhaldi af þeirri lagabreytingu, sem hér er um að ræða.“ — Og síðan: „Eftir sem áður mun fræðslumálastjórinn heita fræðslumálastjóri og gegna nákvæmlega sams konar störfum í þágu íslenskra skólamála og hann gegnir nú í dag.“

Þetta voru orð hæstv. þáv. menntmrh.

Síðan voru lögin samþ. og fræðslumálaskrifstofan var gerð að deild í menntmrn., og nú eru liðin 10 ár og heitir fræðslumálaskrifstofan nú fræðslumáladeild og síðan grunnskóladeild. Þessi deild, sem áður fyrr var áhrifamesta stofnun um framgang íslenskra skólamála, er nú minnsta og fáskipaðasta deild innan menntmrn. og áhrifaminnsta þrátt fyrir úrvalsstarfsmenn sem þar eru.

Lögin um fræðslumálastjórn voru samin í anda þeirrar skólastefnu, sem mörkuð var hér á landi með lögum um embætti fræðslumálastjóra frá 1907, og í anda þess starfs, sem fræðslumálastjórarnir, hver eftir annan, höfðu forustu um innan fræðslumálaskrifstofunnar. Eftir 1930, næstu fjóra áratugina, var íslensku skólastarfi stjórnað í anda þessarar stefnu, sem að vísu var ekki alltaf nútímaleg, en þó ævinlega áhrifamikil og heilsteypt. Með sparnaðarlögunum sem svo voru nefnd, þ.e. lögunum sem ég var að vísa til áðan frá 1968, var klippt á afar viðkvæman streng í sögulegu tilliti að því er varðar uppbyggingu og þróun skólamála á Íslandi. Með þessari lagasetningu var bundinn endir á það forustuhlutverk sem fræðslumálastjóri hafði gegnt í rúma sex áratugi. Þetta forustuhlutverk er síðan fært yfir til Stjórnarráðsins í hendur ráðuneytisstjóra menntmrn.

Skipulagsbreyting 1968 og 1971 var hugsuð sem liður í ráðstöfunum til lækkunar ríkisútgjalda, eins og áður hefur komið fram. Flestir, sem til þekkja, munu þó sammála um að hreyting hafi verið afdrifaríkari á öðrum sviðum en þeim að lækka útgjöld og auka hagræðingu. Auk þess hefði mátt ætla að meiri háttar skipulagsbreyting sem þessi hefði verið kynnt og flutt á Alþ. sem sjálfstætt frv., en ekki laumað inn í sparnaðarfrv. eins og raun varð á. Þessi þáttur kom mjög við sögu í umr. um frv. á þeim tíma.

Síðasti áratugur hefur verið tímabil mikillar útþenslu, ekki síst hér á Íslandi. Þessa þróun má greinilega merkja í útþenslu hinna ýmsu stofnana þjóðfélagsins, bankakerfinu, heilbrigðisþjónustunni og samgöngukerfi, svo nokkuð sé nefnt. Innan menntakerfisins er sömu sögu að segja. Deildir menntmrn. eru nú orðnar níu talsins og öll starfsemi rn. hefur þanist út jafnt og þétt. Þessi þróun er því að vissu leyti eðlileg ef litið er á þjóðfélagið og þjóðfélagsþróunina í heild. Flm. er þó þeirrar skoðunar að uppbygging menntmrn. síðasta áratuginn og rúmlega það hafi markast af stjórnunarlegri óreiðu. Fjölgun starfsdeilda hefur verið handahófskennd og vinnutilhögun og starfshættir innan rn. hafa verið með þeim hætti að furðu gegnir að ekki skuli búið að taka í taumana fyrir löngu. Mun ég víkja nánar að þessum þætti á eftir.

Með þessu frv. er lagt til að skólamál og uppeldismál verði tekin út úr menntmrn. og færð til fræðslumálaskrifstofunnar að nýju, sem þá yrði sjálfstæð stjórnardeild undir yfirstjórn menntmrh. Yfirmaður rn. yrði áfram ráðuneytisstjóri, en yfirmaður fræðslumálaskrifstofunnar yrði fræðslumálastjóri samkv. þessu frv. Samkv. þessu frv. færi menntmrn. með stjórn hinna ýmsu menningarmála, lista, vísinda og alþjóðlegra samskipta á sviði menningarmála. Fræðslumálaskrifstofan færi með uppeldismál og skólamál almennt.

Það er skoðun flm., að með þessari skipulagsbreytingu megi koma á margvíslegri hagræðingu og mjög tímabærum lagfæringum. Deildum mætti fækka og verkaskipting verða hagkvæmari en nú er. Þannig mætti gera ráð fyrir tveimur deildum í menntmrn. og fjórum í fræðslumálaskrifstofunni. Jafnhliða þessu væri æskilegt að láta framkvæma ýmsar breytingar á umfangi og verkefnum deildanna og gera þær sjálfstæðari starfseiningar. Það er t.d. orðið tímabært að gera fjölmiðlakennslu hærra undir höfði en nú er og víkka út starfsemi þeirrar deildar, sem nefnd er skólarannsóknadeild, og færa þar inn bæði fræðslumyndasafn ríkisins og ríkisútgáfu námsbóka.

Það er skoðun flm., að með því að aðskilja menningarmálin og skólamálin innan stjórnkerfisins sé lagður grundvöllur að áhrifameiri og virkari stjórnun og um leið skapaður möguleiki til þess að endurskipuleggja starfshætti þessara stofnana og laga þjónustuna að nýjum og breyttum þörfum þjóðfélagsins.

Það er skoðun mín, að starfshættir menntmrn. hafi stórlega versnað við það, að fræðslumálaskrifstofan var gerð að deild í rn. Breytingin hafði truflandi áhrif á þau störf sem þar höfðu verið unnin, og auk þess reyndist menntmrn. ekki fært um að veita það forustuhlutverk í skólamálum sem fræðslumálaskrifstofan hafði veitt á sínum tíma. Þetta dæmi, breyting á fræðslumálaskrifstofunni í kjölfar sparnaðarlaganna 1968, sýnir að skipulag stjórnkerfisins getur haft afdrifaríkar afleiðingar um framkvæmd mála. Rekstur menntmrn. frá því skólamálin komu þar inn hefur verið einn allsherjarharmleikur, endalaus mistök, áframhaldandi mistök. Ég tel því að orðið sé tímabært að spyrna við fæti og gera tilraun til að endurheimta það jákvæða og heillaríka samband sem ríkti milli yfirstjórnar fræðslumála og kennarastéttarinnar þann tíma sem fræðslumálaskrifstofan var og hét.

Eins og þessum málum er háttað í dag ríkir algert neyðarástand í skólamálum þjóðarinnar. Forustan um uppbyggingu þessa undirstöðuþáttar í fræðslu- og menningarlífi þjóðarinnar er í rúst. Þar gilda sjónarmið valdsins og óttans ofar öllu. Þar hefur fasisminn í raun og veru verið innleiddur innan íslenska stjórnkerfisins.

Skal ég þá víkja nokkrum orðum að þeirri stjórnunarlegu óreiðu sem nú er innan menntmrn. og hefur verið síðustu árin. Ég held það sé gott að hv. þm. fái að heyra þetta frá manni sem hefur verið þarna fyrir innan dyr. Skal ég þá fyrst víkja að þeirri furðulegu og einstöku ritsmíð sem ráðuneytisstjórinn samdi sjálfur og nefnist: „Menntmrn. verkefni, skipulag og starfsreglur.“ Þetta er reglugerðin sem rn. hefur starfað eftir og starfar eftir enn í dag. Ritsmíðin er fyrir margra hluta sakir athyglisverð. Hún ber þess greinilega vott, að höfundurinn hefur lagt á það megináherslu að tryggja sér sjálfum vald sem er margfalt áhrifameira en þekkist í öðrum rn. stjórnarráðsins. Þessi valdagræðgi embættismannsins gekk það langt, að hann hirti ekki um að gæta þess að plaggið væri efnislega í samræmi við þau lög sem það átti að byggjast á, nefnilega lögin um Stjórnarráð Íslands frá 1969. Embættismaðurinn vílaði því ekki fyrir sér að leggja fyrir þáv, hæstv. menntmrh. plagg til undirskriftar sem í raun gekk í herhögg við lögin. Skal ég skýra það nánar.

Í 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðherra kveður á um skiptingu rn. í starfsdeildir eftir verkefnum.“ — Hvergi í þessum lögum er nokkurt ákvæði að finna, er heimili ráðuneytisstjóra að ákveða skiptingu verkefna milli starfsdeilda rn. Það vald, samkv. 7. gr., er einungis í höndum ráðh. Valdssvið ráðuneytisstjórans samkv. lögunum er að stýra rn. undir yfirstjórn ráðh., sbr. 10. gr. Í 11. gr. segir: „Starfsdeild rn., sbr. 7. gr., stýrir deildarstjóri undir umsjón ráðuneytisstjóra.“ — Í reglugerðinni, sem embættismaðurinn samdi, segir þó á bls. 6, um valdssvið ráðuneytisstjóra, með leyfi hæstv. forseta, — þarna kemur það sem hann vill að sé lög, — hann segir: „Hann getur fært verkefni milli deilda og fjölgað eða fækkað verkefnum einstakra deilda og starfsmanna eftir því sem hentar og sjálfur annast að einhverju eða öllu leyti hver þau verkefni sem hann ákveður.“ — Það er sem sagt ráðuneytisstjórinn sem ákveður þessa verkaskiptingu, sem skýrt er tekið fram í lögum um Stjórnarráð að sé í hendi ráðh. og einskis annars.

Með þessu ákvæði reglugerðarinnar er vald ráðh. samkv. 7. gr. laganna fært yfir til ráðuneytisstjórans. Það er algerlega í andstöðu við laganna hljóðan, að ráðh. geti með því að undirskrifa reglugerð afsalað sér í eitt skipti fyrir öll því valdi og þeirri ábyrgð sem honum er falin með ákvæðum laganna, og ekki aðeins honum heldur einnig falin þeim ráðh. sem á eftir koma og þurfa þá að taka við þessu valdaafsali. Hér er eitt dæmi til að byrja með.

Lögin um Stjórnarráð Íslands kveða á um það, að rn. skuli skiptast í starfsdeildir eftir verkefnum. Í algerri andstöðu við þetta lagaákvæði má lesa á bls. 6 í reglugerð ráðuneytisstjórans eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Starfslið rn. vinnur að verkefnum allra hinna ýmsu deilda eftir þörfum, auk þeirra sérverkefna sem hverri deild eru ætluð, eftir því sem hentar heildarstarfinu og ráðuneytisstjóri ákveður.“

Með þessu reglugerðarákvæði er enn á ný verið að sniðganga lögin sem skýrt og greinilega kveða á um að rn. skuli skiptast í starfsdeildir eftir verkefnum. Ég held að allir hv. þm. hljóti að gera sér ljóst, að með þessari verkefnaskiptingu er átt við verkefnaflokka, þ.e.a.s. skyld verkefni, en ekki verkefni sem ráðuneytisstjóranum þóknast í það og það skiptið að afhenda þessum eða hinum embættismanninum. Þetta er brot af því sem ég kalla stjórnunarlega óreiðu, lítið brot. Það á mikið eftir að koma enn.

Þrátt fyrir þessi furðulegu ákvæði reglugerðarinnar, sem að sjálfsögðu stangast á við öll meginlögmál um stjórnun og skipulag stofnana, er í reglugerðinni að finna skrá yfir þá málaflokka sem hver deild um sig á að annast. Samkv. því eintaki af reglugerð, sem rn. hefur nú til útdeilingar, þ.e.a.s. sérprentun nr. 70. A. með síðustu breytingu samkv. neðanmálsskýringu frá 22. ágúst 1974, segir m.a., og skulum við aðeins grípa niður í þetta, að verkefni A-deildar, sem heitir safna-, lista- og æskulýðsmáladeild, séu: höfundarréttur, lögfræðilegar álitsgerðir, barnaverndarmál, skemmtanaskattur, launakjara- og réttindamál, mannanöfn, náttúruverndarmál, fuglafriðun og fuglaveiðar, dýravernd, friðun hreindýra, eftirlit með þeim, Íþróttakennaraskóli Íslands og íþróttamál. Þessi upptalning er ekki tæmandi, en sýnir þó að þarna er málaflokkum fleygt inn fyrir dyrnar af algjöru virðingarleysi og án nokkurs tillits til skynsamlegrar flokkunar á verkefnum, enda er þessi flokkun samkv. áður tilgreindum ákvæðum reglugerðarinnar fótum troðin eftir því sem embættismönnunum þykir henta hverju sinni. Mér þykir ótrúlegt, að hv. alþm. geti skilið hvers vegna lögfræðilegar álitsgerðir eiga heima í safna-, lista- og æskulýðsmáladeild, eða fuglafriðun og eftirlit með hreindýrum. Að vísu hefur þessari deild nú verið skipt í tvennt og íþróttamálin sett undir sjálfstæðan deildarstjóra, og má vera að það hafi eitthvað hreinsað til í skranhrúgu rn.

Samkv. verkaskiptingu reglugerðarinnar fer fræðslumáladeild, sem nú heitir grunnskóladeild, með málefni er varða skyldunámsskóla. En þó þessi gamla og nú fátæklega deild, sem einu sinni hét fræðslumálaskrifstofa, eigi að fara með, eins og segir í reglugerðinni, „málefni er varða skyldunámsskóla,“ þ.e. málefni grunnskóla, þá er það allt önnur deild sem fer með gerð stundaskráa, skipun í bekkjadeildir, lengd námsstunda, fjölda nemenda í bekkjum, og síðast en ekki síst heyrir það ekki undir fræðslumáladeild að annast hvaðeina er lýtur að hinu innra starfi skólanna. M.ö.o.: sú deild sem fer með málefni grunnskóla á ekki að koma nærri neinu af því er lýtur að hinu innra starfi þessara skóla. Hafið þið heyrt annað eins? — Ég ætla að endurtaka þetta: Sú deild, sem fer með málefni grunnskóla, á ekki að koma nærri neinu því er lýtur að hinu innra starfi þessara skóla. Kannske málningunni á þakinu eða gluggunum! Það er kannske verkefni þessarar deildar.

Það verkefni, sem sagt innra starfið, á að vera í höndum allt annarra manna, það á að heyra undir skólarannsóknadeild. Ég fæ ekki með nokkru móti skilið hvernig hv. þm., sem fengist hafa við kennslu, ekki síst barnakennslu, geta réttlætt annað eins hugsanabrengl. Skólarannsóknadeildin á samkv. reglugerðinni að vinna að tilraunastarfsemi í kennslumálum og rannsóknum á námi og kennslu. Við þetta er ekkert að athuga. Hins vegar sýnir það nokkuð glöggt hversu handahófskennt hefur verið unnið að hlutunum, að deild, sem á að hafa með höndum rannsóknastörf, skuli einnig fá í hendur námseftirlit og námsmat. Og þó að námsmat heyri undir skólarannsóknadeild, þá heyra prófverkefni undir fræðslumáladeild. Sérkennsla heyrir undir skólarannsóknadeild, en Heyrnleysingjaskólinn og blindrakennsla og kennsla afbrigðilegra nemenda, eins og það heitir í reglugerðinni, heyra undir fræðslumáladeild. Fyrir þá, sem ekki vita, er kennsla blindra og heyrnarskertra það sem nefnt er sérkennsla og þar með einnig kennsla afbrigðilegra nemenda, sem er efnislega það sama. Ég get ekki séð, hvernig menn sjá nokkra glóru í svona samsetningu. Þarna er annars vegar talað um að sérkennsla eigi að heyra undir skólarannsóknadeild, en hins vegar eru taldir upp þættir, sem eru það sama og sérkennsla, sem heyra undir aðra deild. Heildaryfirlitið á að vera í einni deildinni, en svo á hver flokkur um sig að heyra undir aðra deild. Það er engu líkara en sumir menn, sem hafa samið þetta, viti raunverulega ekkert hvað þeir eru að tala um. Það þyrfti að láta útbúa orðabók handa þessu fólki!

Að lokum skal tekið eitt atriði til viðbótar af þessu taginu. Eins og áður segir heyra barnaverndarmálin undir safna-, lista- og æskulýðsmáladeild og það er út af fyrir sig í lagi, það getur fallið undir æskulýðsmál. En þótt furðulegt megi teljast heyra forskólar undir fræðslumáladeild. Svo, til að kóróna meistaraverkið, eru dagvistarheimili sett undir verk- og tæknimenntunardeild. Dagvistarstofnanir heyra undir verk- og tæknimenntunardeild! Það getur verið að það þurfi að leggja mikla áherslu á tæknilega þekkingu litlu barnanna við að raða saman legokubbum, en ég býst þó við að þetta sé algert heimsmet í handahófskenndri niðurröðun í stjórnkerfinu. Maður hefur það oft á tilfinningunni að verið sé að gera grín að ráðh., sem með þetta fer, og jafnvel hv. þm., ég tala nú ekki um alla hina sem vinna í skólakerfinu, sem sagt kennarana.

Ég held að það fari ekki á milli mála, að það þarf meira en lítið hugmyndaflug til að setja saman aðra eins endileysu. Dagsetning reglugerðarinnar, sem ég hef nú eytt nokkuð miklum tíma á, er 7. maí 1971. Þó er augljóst af neðanmálsskýringu, eins og ég hef bent á áður, að reglugerðin hefur verið endurprentuð einhvern tíma eftir 28. águst 1974. Ætla hefði mátt að embættismaðurinn og jafnvel hæstv. þáv. menntmrh. hefði beitt sér fyrir endurskoðun á reglugerðinni. Svo var þó ekki. Þvert á móti notaði ráðuneytisstjórinn þetta tækifæri til að hnykkja enn betur á þeirri opinberu yfirlýsingu, að það sé hann, embættismaðurinn, en ekki ráðh., sem ráði á þessum bæ. Breytingin, sem þarna er smeygt inn í reglugerðina, er á bls. 7 og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðslustjórar, samkv. grunnskólalögum nr. 63/1974, heyra beint undir ráðuneytisstjóra, en ekki neina sérstaka deild.“

Í grunnskólalögunum, sem höfðu verið samþykkt þrem mánuðum áður, er ekkert ákvæði að finna sem segir eða gefur í skyn að fræðslustjórarnir eigi að heyra undir ráðuneytisstjóra, hvað þá heldur beint undir ráðuneytisstjóra. Í 13. gr. grunnskólalaganna segir: „Menntmrn. setur eða skipar fræðslustjóra að fengnum tillögum hlutaaðeigandi fræðsluráðs.“ Og í 14. gr. laganna segir, með leyfi hæstv, forseta: „Fræðslustjóri er fulltrúi menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarfélaga um fræðslumál í umdæminu.“ Þá fer að verða erfitt að sjá hvernig hann á að heyra beint undir ráðuneytisstjóra. Og síðan segir: „Hann er framkvæmdastjóri fræðsluráðs.“ Ákvæðið í reglugerðinni er því hrein skjalafölsun, þar sem hvergi í grunnskólalögunum segir að fræðslustjórar eigi að heyra beint undir ráðuneytisstjóra. Þetta ákvæði fer einnig í berhögg við lög um Stjórnarráð Íslands, t.d. 10. gr., þar sem segir að ráðuneytisstjórar stýri rn. undir yfirstjórn ráðh., 11. gr., þar sem segir að deildarstjórar stýri starfsdeildum undir yfirumsjón ráðuneytisstjóra, og sömu grein þar sem segir að ráðh. setji yfirmönnum rn. erindisbréf þar sem kveðið er á um starfssvið þeirra og starfsskyldur. Það fer því ekki á milli mála, að þetta vald, sem ráðuneytisstjórinn hefur tekið sér og hæstv. fyrrv. menntmrh. afsalað sér, á ekki stoð í lögunum.

Ef hv. þm. halda í alvöru að þetta sé eitthvert grínmál, þá hlýt ég brátt að fara að sannfærast um að hv. þm. hafa engan áhuga á því að kynna sér þá botnlausu óreiðu og glannaskap sem viðgengst í ákvarðanatöku innan stjórnkerfisins rétt framan við nefið á hæstv. ráðh. Það er orðið tímabært, að hv. alþm. fari að fylgjast með því, hvernig lögum og reglugerðum er framfylgt og hvernig reglugerðir eru samdar. Þar er menntmrn. í algerri sérstöðu. Ég fullyrði og get sýnt fram á það með rökum og mun gera það hér á eftir til viðbótar því sem ég hef þegar sagt, að stjórnun þess rn., sem hér um ræðir, er botnlaust hneyksli. Kaupin á Víðishúsinu og mistökin í Krýsuvík eru bara smámunir hjá mörgu öðru sem fjölmargir skólamenn og aðrir áhuga- og valdamenn um fræðslumál vita, en hafa ekki þor til að viðurkenna.

Fyrrv. formaður fræðsluráðs Reykjanesumdæmis lýsti þessu ástandi í Dagblaðinu hinn 26. okt. 1976. Niðurstaða þáv. formanns fræðsluráðs var á þá leið, að fræðsluráðsmenn væru undir þrýstingi frá menntmrn. á þann veg, að þeir þyrðu ekki að taka sjálfstæðar ákvarðanir af ótta við refsiaðgerðir frá rn. Hliðstæðar skoðanir hef ég heyrt frá öðrum fræðsluráðsmönnum og starfsmönnum í menntmrn., kennurum og skólastjórum. Það eru því fleiri hliðar á þessu máli en það sem ég hef nefnt stjórnunarlega óreiðu. Þarna er einnig á ferðinni valdníðsla sem vonandi á sér fáar hliðstæður hér á landi. Þar sem valdníðslu er beitt er ekki von á heilladrjúgu eða áhrifaríku starfi. Skal ég nú víkja nokkuð að þessum þætti.

Hinn 10. okt, 1974, þegar flm. þessa frv. var deildarstjóri í menntmrn., skrifaði hann bréf til þáv. hæstv. menntmrh. og núv. hv. 2. þm. Austurl., þar sem þess er óskað að gerð verði rannsókn á starfsháttum menntmrn., þannig að fyrir liggi hvort ásakanir deildarstjórans eigi við rök að styðjast eða ekki, eins og segir í niðurlagi bréfsins. Í þessu bréfi segir á öðrum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þau tæp tvö ár sem ég hef starfað í menntmrn. hef ég reynt að benda á það uggvænlega ástand, sem þar hefur þróast, með það fyrir augum að koma á einhverjum lagfæringum. Þetta hefur ekki tekist. Ég tel nú að þetta ástand sé svo alvarlegt að nauðsyn beri til að krefjast opinberrar rannsóknar á störfum og starfsháttum menntmrn.

Hér er það yfirmaður fræðslumáladeildar sem talar um uggvænlegt ástand og fer fram á að málið verði kannað. Þetta er sem sagt yfirmaður fjölmennustu og áhrifamestu deildarinnar í rn. á þeim tíma. Deildin hefur reyndar verið möluð niður síðan, eins og ég hef bent á áður. Síðan er í 28 liðum vikið að einstökum atriðum sem deildarstjóri óskaði eftir að yrðu þá könnuð, og ég mun víkja að þeim liðum síðar.

Við skulum halda áfram með atburðarásina. Sem sagt, deildarstjórinn er þarna búinn að senda inn ósk um að þetta uggvænlega ástand verði kannað. Viðbrögð hæstv. þáv. menntmrh. við þessu erindi frá 10. okt. 1974 voru óvenjulega snögg, því 16. okt., aðeins 6 dögum síðar, felur hann ráðuneytisstjóranum að meta efni bréfsins, þ.e.a.s. þessa ósk um rannsókn. Og ráðuneytisstjórinn lætur ekki á sér standa, því að sama dag, 16. okt., skrifar hann ráðh. um hæl þar sem hann vísar á bug öllum ásökunum deildarstjórans. Ráðuneytisstjórinn var þar með gerður að dómara í eigin máli. Ráðh. sá enga ástæðu til þess að fara að leita eitthvað annað til þess að athuga hvort ásakanirnar, sem beint var til yfirmanns rn., væru á rökum reistar eða hvort þær væru svo alvarlegar að ástæða væri til að taka þær til afgreiðslu. Nei, það er sakborningurinn sjálfur, eða sá sem á að standa fyrir máli sínu, sem er beðinn um að gefa ráðh. embættislegar ábendingar um það, hvernig á málinu skuli tekið. — Svo kemur þráðurinn áfram. Upphafsorð bréfs ráðuneytisstjórans eru þessi, með leyfi hæstv. forseta, þ.e. bréfsins sem ráðuneytisstjóri skrifaði strax samdægurs, — hann segir:

„Þér hafið, hæstv. menntmrh., í dag beiðst umsagnar minnar um bréf dr. Braga Jósepssonar deildarstjóra fræðslumáladeildar menntmrn. til yðar, dags. 10. þ.m., þar sem hann segir m.a. að nauðsyn beri til að krefjast opinherrar rannsóknar á störfum og starfsháttum menntmrn.

Eins og áður segir vísaði ráðuneytisstjórinn á bug öllum ásökunum deildarstjórans. Hann segir þær sprottnar af illum hvötum, en hendir á að deildarstjórinn hafi hins vegar skrifað grein í tímaritið Heimili og skóli og sent í heimildarleysi út úr rn. skýrslur um hjálparkennslu í skólum. Niðurlagsorð bréfsins eru svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég álít að bréfið frá 10. okt., meðferðin á fyrrnefndri skýrslu dr. Arnórs Hannibalssonar og grein í Heimili og skóli sæmi ekki manni sem gegnir ábyrgðarstöðu í rn.

Virðingarfyllst.

Birgir Thorlacius.

M.ö.o.: deildarstjórinn fer fram á það við viðkomandi ráðh., að gerð verð könnun á stjórnunarlegri óreiðu hjá tilteknum ráðuneytisstjóra. Ráðh. felur ráðuneytisstjóranum að gefa sér embættislega ábendingu um hvernig bregðast skuli við. Ráðuneytisstjórinn telur ásakanirnar ekki eiga við rök að styðjast, en segir að deildarstjórinn geri sér litla grein fyrir starfsskyldum sínum og sé lítt til ábyrgðarstarfs fallinn, eins og segir í bréfinu. Þessa staðhæfingu rökstyður ráðuneytisstjórinn síðan með þrem ábendingum: 1. Bréfið frá 10. okt. er vítavert. 2. Útsendingarnar á skýrslu Arnórs Hannibalssonar eru vítaverðar. 3. Greinin í Heimili og skóli er vítaverð. Þar með var þáv. hæstv. menntmrh. búinn að fá í hendur hina embættislegu ábendingu um það, hvort leyfa skyldi rannsókn á störfum og starfsháttum menntmrn. Þetta er eitt dæmið um embættisleg vinnubrögð rn.

Ósk deildarstjórans um að athuga málið er svarað með ákæru. Það er kjarni málsins. Á grundvelli þessarar embættislegu ábendingar tók hæstv. menntmrh. síðan ákvörðun í málinu. Þessi ákvörðun birtist í bréfi til deildarstjórans, dags. 6. des. 1974. Bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem menntmrh. hefur skýrt yður frá, hefur yður verið veitt lausn frá deildarstjórastarfi í fræðslumáladeild menntmrn. frá 9. þ, m. að telja.“

Síðan skulu menn taka eftir á hverju þetta byggist. Ég held áfram að vitna í bréfið, með leyfi hæstv. forseta: „Ákvörðun þessi er byggð á því, að ýmsar athafnir yðar og framkoma hafi verið óhæfa og ósamrýmanlegt starfi yðar sem deildarstjóri í rn. Má í því sambandi nefna ritgerð yðar í tímaritinu Heimili og skóli, 1. tbl. 1974, formála, fjölritun og dreifingu á skýrslu dr. Arnórs Hannibalssonar um hjálparkennslu í skyldunámsskólum án vitundar ráðh. og ráðuneytisstjóra svo og ákærubréf yðar til menntmrh. 10. okt.“ — Það var sem sagt bréfið, þar sem farið var fram á rannsóknina. — „Hins vegar hefur þess verið beiðst, að fjmrn. greiði yður fjárhæð mánaðarlega næstu 6 mánuði, þ.e. til 1. júlí 1975, sem svarar til hinna föstu launa deildarstjóra. Ber yður að sjá um að lyklar, skjöl og önnur embættisgögn, sem þér hafið undir höndum sem deildarstjóri, verði nú þegar afhent fulltrúunum Sigurði Helgasyni og séra Sigurði K. G. Sigurðssyni.

Lausnarbréf yðar fylgir hér með.

Vilhjálmur Hjálmarsson.

Birgir Thorlacius.“

Það hlýtur að vekja sérstaka athygli, að brottrekstrarsökin er í öllum atriðum byggð á ábendingum ráðuneytisstjórans við bréfinu um rannsókn frá 10. okt. Til viðbótar má benda á, að sá brottrekni fékk ekki að sjá bréf ráðuneytisstjórans frá 16. okt. fyrr en löngu eftir að honum hafði verið vikið úr starfi og þurfti þá að leita aðstoðar þáv. hæstv. forsrh., Geirs Hallgrímssonar. Ráðuneytisstjórinn sá sem sagt ástæðu til þess að leyna umsögn sinni, þar sem hann er beðinn um álit á því, hvort eigi að láta rannsaka þessa stjórnunarlegu óreiðu eða ekki. Hann stingur því bréfi undir stól, menntmrh. afgreiðir málið síðan á sinn hátt, og þegar hinn brottrekni fer fram á að fá að sjá þetta bréf, þá fær hann það ekki og það kostar það að leita þarf til forsrh., sem síðan boðsendi plaggið til hins brottrekna. Það þarf hörku til þess að standa í svona málum. Á þennan hátt afgreiðir menntmrn. menn sem vilja opinbera hið raunverulega ástand sem ríkir innan þessa stjórnkerfis.

Eins og ýmsir muna, hefur þessi brottvikning nú verið dæmd ólögmæt af dómstólum landsins og ríkissjóður hefur þurft að greiða út sekt af fjármunum skattborgaranna. Þrátt fyrir það verður ekki séð að sú niðurstaða hafi raskað mikið ró embættismannsins í menntmrn. Þar gengur allt sinn vanagang, sama stjórnunarlega óreiðan sem fyrr, sama valdníðslan, sama embættislega ögrunin gagnvart hv. Alþ. og þeim hæstv. ráðh. sem fer með stjórn menntamála.

Mig langar til að grípa niður í ræðu um þetta efni, sem flutt var hér í hv. d. af Jóni Baldvin Hannibalssyni í febr. 1975, með leyfi hæstv. forseta. Jón Baldvin segir:

„Því verður ekki af efnislegum ástæðum trúað, að brottrekstrarsök umrædds starfsmanns hafi verið sú, að hann skrifaði grein í blað eða hann dreifði skýrslu til skólastjóra. Hér býr eitthvað annað að baki, og ég harma, að svo skuli vera, og á erfitt með að trúa því, að hér sé um annað að ræða en misráðnar aðgerðir sem raunverulega byggjast ekki á nægilegri íhugun á því raunverulega hvað í þeim felst. Hugsanlega er einmitt hér um það að ræða að stjórnmálamönnum á Íslandi, sem skyndilega taka að sér forstöðu fyrir viðamiklum stofnunum og ráðuneytum, hætti til þess að hafa einmitt ekki nægilegt sjálfstæði gagnvart því kerfi sem þeir koma til með að starfa í. Þeir eiga ekki að vera fangar þess, þeir eiga að stýra því.“

Þetta voru orð Jóns Baldvins Hannibalssonar hér á hv. Alþ. Ég held að það sé orðið tímabært, að hv. alþ., og hæstv, ráðh. fari að gera sér grein fyrir því, að valdaaðstaða íslenskra embættismanna er nú orðin slík, t.d. að því er varðar menntmrn., að það skiptir nánast engu hvernig hv. þm. þóknast að orða lögin sem hér er verið að samþykkja. Embættismennirnir ráða þessu að verulegu leyti í framkvæmd, ef þeir hafa minnsta áhuga á því. Að vísu má segja að mörgum embættismanninum fari þetta býsna vel úr hendi. Öðrum tekst hins vegar miður vel og enn aðrir komast upp með háttsemi sem hefur lamandi áhrif og niðurdrepandi á alla þá starfsemi sem þeir bera ábyrgð á. Þannig er ástandið í menntmrn.

Skal ég þá víkja að ábendingunum, sem deildarstjórinn tilgreindi og áður er vitnað til, í bréfinu þar sem farið var fram á rannsókn á störfum og starfsháttum menntmrn. Hv. þm. skulu hafa það í huga, að þarna talar yfirmaður stærstu deildar ráðuneytisins, eins og ég sagði áður. Í þessum 28 liðum voru tilgreind atriði sem hér skal greint frá, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkaskipting innan rn. er svo óljós, að fáir starfsmenn, þar með taldir deildarstjórar og fulltrúar, vita í raun og veru hvaða málefnum þeim ber að sinna.“

Það þykir nú nauðsynlegt að menn viti hvað þeir eiga að gera þegar þeir koma til vinnu sinnar. Þarna fullyrðir yfirmaður deildarinnar, sem á að stjórna rekstri þessarar deildar, að menn viti ekkert hvað þeir eru að gera, fái ekki að vita hvað þeir eru að gera vegna vitlausrar reglugerðar. Og þarna má líka skjóta öðru atriði inn í, að þegar embættismaðurinn, deildarstjórinn, fór fram á að fá erindisbréf, sem honum ber að fá samkv. lögum, þá var því hafnað. Þetta er skjalfest. Ég held áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Einstök verkefni hafa fyrirvaralaust verið tekin úr höndum einnar deildar og falin annarri deild. Einstökum starfsmönnum, fulltrúum eða riturum hafa verið falin tiltekin verkefni án samráðs við viðkomandi deildarstjóra.“ — Þarna kemur reglugerðin til. — „Einstök mál og erindi hafa verið í afgreiðslu hjá tveimur eða fleiri aðilum samtímis án þess að einn aðilinn vissi um hinn. Þetta hefur yfirleitt haft í för með sér meiri háttar árekstra.“ — Þarna er einnig reglugerðin í gangi. — „Hálfunnin verkefni eru tekin frá einstökum starfsmönnum og falin öðrum án þess að þeir fái um það að vita.“ — Reglugerðin aftur. Hér er ekki verið að tala út í bláinn. Við höfum skriflegar sannanir fyrir hverjum einasta lið sem hægt er að leggja fram, og menn þurfa reyndar ekki annað en fara niður í borgardóm og fletta upp í dómsskjölum í þessu máli, þar sem þetta liggur allt saman opið og verður stór þáttur í skólasögu Íslands og mjög merkilegur. Síðan held ég áfram: „Mál, sem heyra undir eina deild, eru oft afgreidd án nokkurs samráðs við viðkomandi deildarstjóra.“ — Það þætti nú ekki gott hér. — „Einstakar nefndir eru oft skipaðar til að undirbúa og gera tillögur um mál án samráðs við viðkomandi deildarstjóra. Margt bendir til þess, að menntmrn. sé óeðlilega háð fjmrn. miðað við tengsl annarra rn. við rn. fjármála.“ — Ég verð nú að viðurkenna það, að eftir að ég er búinn að kynnast meira stjórnmálum, þá hallast ég að þeirri skoðun að þar komi fleira til, — þetta eigi kannske við önnur fagráðuneyti og það sé fjmrn. sem ráði þarna nokkuð miklu. — „Fulltrúar og skrifstofustúlkur hafa fyrirvaralaust verið tekin úr einstökum deildum og færð í aðrar.“ — Það þykir slæmt ef deildarstjóri eða yfirmaður deildarinnar fær ekki einu sinni að vita það, að einn daginn, þegar hann kemur til vinnu, er skrifstofustúlkan farin eða einhver annar starfsmaður farinn kannske allt annar kominn í staðinn. Ég veit ekki hvort það yrði talið mjög gott hér.

„Fræðslumáladeild var fyrirvaralaust skipt í tvær deildir án samráðs við viðkomandi deildarstjóra og einn af fulltrúum hans síðan fyrirvaralaust gerður að deildarstjóra.“ — Þetta er brot á 11. gr. laga um Stjórnarráð, þar sem segir að deildarstjórar stýri starfsdeildum rn. Það þætti nokkuð slæmt í ríkisstj., ef forsrh. væri búinn að skipta einu rn. í tvennt þegar ráðuneytisstjórinn kæmi þar til starfa eða skipta störfum ráðh. til einhvers annars. Ég er hræddur um að þá færi að syngja í tálknunum á einhverjum. — Ég bið menn að afsaka orðbragðið.

„Skýrslusöfnun og skýrslugerð er í algeru lágmarki og það, sem er, er ekki í samræmi við kröfur nútíma skýrslugerðar.“ — Hér er náttúrlega um það að ræða, að stjórnkerfið hefur verið svolítið seint að taka upp nýjungar og við erum 10, 20 eða 30 árum á eftir nágrannaþjóðum okkar í ýmsu af þessu tagi. Það má kannske segja að þarna hafi skort peninga í sambandi við skýrslusöfnun og skýrslugerð.

„Uppeldislegar forsendur eru ekki teknar hátíðlega þegar rætt er um fjárveitingar til skólamála. Þar ráða fyrst og fremst formúlur og reglur sem oft eiga enga stoð í veruleikanum og voru jafnvel í algerri andstöðu við raunverulega þörf.“ — Þarna talar líka yfirmaður fræðsludeildarinnar sem átti áð hafa einhverja þekkingu á því sem hann var að gera — væntanlega. Við getum talað við fjölmarga skólamenn í dag, skólastjóra og yfirmenn skólanna, og spurt þá hvort það sé tekið mikið mark á uppeldislegum forsendum. Það er brosað að slíku. Það mætti alveg eins nota þessi hús sem sláturhús eða reka þar svínabú, mörg hver.

„Áætlanagerð rn. um framtíðarskipulag og skólabyggingar er yfirborðsleg og byggist ekki á raunhæfri athugun á sérstöðu hinna einstöku byggðarlaga. Fjárhagsáætlun rn. er eitt allsherjar handahófsverk og tillögur rn. til fjárl. því oft í litlu samræmi við raunverulega þörf.“ — Þetta er atriði sem ég hafði sérstakt yndi að vinna að og sérstaklega að lesa eftir á. — „Samskipti rn. við fræðslustofnanir og þátttaka í erlendum ráðstefnum er handahófskennd. Samskipti við erlenda aðila og stofnanir eru því ekki nýtt eins og efni standa til .“ — Ég verð þó að viðurkenna að á þessu sviði hefur ýmislegt gagnlegt og mjög gott verið framkvæmt, það ber að undirstrika og það skal virða, enda koma þar ýmsir úrvalsmenn til skjalanna. En það er ekki rn. að þakka.

„Deildarstjórar og fulltrúar rn. hafa oft verið ráðnir án þess að viðkomandi stöður hafi verið auglýstar til umsóknar. Eftir að þessir menn hafa síðan starfað í eitt ár eru stöðurnar auglýstar og aðrar umsóknir virtar að vettugi.“ — Þetta er hluti af valdníðsluprógramminu. „Ráðning bókara og ritara miðast fyrst og fremst við það að hafa sem jafnastan hóp starfsmanna í deildunum án þess að nokkurt tillit sé tekið til ólíkra viðfangsefna og raunverulegrar starfsmannaþarfar.“ — Þetta hefur að vísu breyst nokkuð, en ég veit ekki hvort það hefur breyst í rétta átt. Ég held að það hafi jafnvel versnað. — „Fjöldi bókara og ritara er í algeru lágmarki, enda liggja óunnin verkefni í haugum og óafgreidd fylgiskjöl safnast fyrir svo mánuðum skiptir.“ — Einn skólamaður og hv. þm. sagði mér sína reynslu um þessi mál, að það væri nú svo leiðis með rn., að þar gætu menn ekki afgreitt erindi, sem þeim bærust, önnur heldur en bara „rútínuvinnu“ Ef það kæmi eitthvað sem væri örlítið fyrir utan „rútínuna,“ þá væri hægt að ganga út frá því vísu að það yrði ekki afgreitt, vegna þess að þeir gætu ekki afgreitt það, þeir kynnu ekki að afgreiða það eða vildu ekki afgreiða það sem þeir kynnu. — Þetta sagði einn hv. þm. mér í gær. Sem sagt: óunnin verkefni liggja í haugum og óafgreidd fylgiskjöl safnast fyrir svo mánuðum skiptir.

„Öll almenn upplýsingaþjónusta um kennslu- og skólamál er ófullnægjandi. Kennarar, skólastjórar og skólanefndarmenn vita oft ekki til hverra ber að leita í rn. um afgreiðslu einstakra mála, enda vita ráðuneytismenn það oft ekki sjálfir.“ — Þarna kemur inn á sama atriði og reyndar áður. „Fjöldi mála og erinda, sem rn. berst á hverju ári, fær enga afgreiðslu og oft er það svo, að einstök mál hreinlega týnast. Húsnæði rn. er óhentugt og starfsaðstaða deildanna ekki í samræmi við hin ólíkn störf sem þær hafa með höndum. Véla- og tækjakostur rn. er ekki í samræmi við kröfur tímans. Skjalasafn, kennaraskrá, heimildasafn rn. er í niðurníðslu og megnið af þessum heimildum er geymt í kössum og óaðgengilegum hirslum í öðru húsnæði fjarri rn. Öll almenn vinnuaðstaða er með því versta sem þekkist miðað við opinberar stofnanir eða verslunar- og iðnaðarfyrirtæki hér á landi, svo að ekki sé miðað við starfsaðstöðu samsvarandi rn. eða fræðslumálaskrifstofa erlendis.“ — Og svo kemur síðasta atriðið: „Engin aðstaða er til að nýta á eðlilegan hátt skýrslur og heimildir, sem safnað hefur verið í rn.“

Þetta voru atriðin sem deildarstjórinn óskaði eftir að yrðu könnuð, og það fannst ráðuneytisstjóranum ekki ástæða til að gera. En þess í stað fannst honum ástæða til, af því tilefni að deildarstjórinn skyldi fara að skrifa svona langt og formlegt bréf, að gera eitthvað fyrir hann, og benda þar hæstv. ráðh. á að deildarstjórinn hefði skrifað ljótt um skólamenn og skólastjórnina í virðulegt tímarit, Heimili og skóli, en í öðru lagi hefði þessi maður — í heimildarleysi — sent út skýrslu um verkefni sem fyrrv. menntmrh., Magnús Torfi Ólafsson, hafði falið deildarstjóranum að vinna að í samráði við Arnór Hannibalsson. Það var þess vegna talin brottrekstrarsök, að deildarstjórinn skyldi leyfa sér að senda þessa skýrslu, sem var nú reyndar bara vinnuplagg, til skólastjóra. Og svo í þriðja lagi var sjálft bréfið með þessum 28 ásökunum álitið einn þáttur í hinni raunverulegu brottrekstrarsök. Þar með var búið að sparka þessum embættismanni og þessum starfsmanni og ráðuneytisstjórinn var búinn að tryggja að slíkar raddir heyrðust ekki frekar og undirstrika það við alla starfandi skólamenn á Íslandi, að það væri vissara fyrir þá að halda sig á mottunni, ella gæti farið verr.

Meðferðin á fræðslumáladeildinni sýnir nokkuð þessa þróun. Eins og ég benti á áður var þetta deildin sem hét upphaflega fræðslumálaskrifstofa. Í umr. um þetta mál, þegar það var upphaflega rætt sagði þáv. menntmrh. og fullyrti að það hefði ekki verið meiningin með þessum lögum að breyta störfum þáv. fræðslumálastjóra, heldur yrði fræðslumálaskrifstofan aðeins gerð að deild í menntmrn. Svo kemur ráðuneytisstjórinn og tekur völdin, og síðan hefur málið þróast í samræmi við það.

Þá ætla ég að lokum — þetta er nú orðið lengra en ég hafði ætlað — að víkja að nokkrum almennum atriðum í framkvæmd skólastarfsins í landinu, sem ég tel að ráðuneytisstjórinn og rn. beri mjög mikla ábyrgð á og ég tel að það sé vísbending um að æskilegt og tímabært sé að skipta menntmrn. að nýju, láta menningarmálin verða áfram í rn. og setja á laggirnar fræðslumálaskrifstofu sem verði sjálfstæð stjórnardeild sem heyri beint undir menntmrh.

Skólakerfið hefur á síðustu árum verið undir lagt af tilraunastarfsemi um námsefni og kennsluaðferðir sem aðrar þjóðir hafa fullreynt fyrir áratugum. Það væri hægt að ræða um þetta mál sérstaklega og styðja, með ýmsum dæmum það sem hér er um að ræða. Ég tel að það sé mjög æskilegt að veita fjármunum í námsefnisathuganir, en ég tel að stjórnun á þessu máli sé í algerri ringulreið og þarna sé sóað fjármunum af miklu handahófi. Skólabyggingar eru hannaðar á grundvelli arkitektasjónarmiða einna og kemst þar lítið inn af sjónarmiðum skólamanna. Hér er um að ræða mistök og stjórnleysi sem skiptir skattgreiðendur hundruð millj. Áður hefur verið vikið að tillögugerð menntmrn. til fjárl. Ég fæ ekki séð að þar hafi verið tekin upp nútímalegri vinnubrögð en giltu árin 1973 og 1974. Af þeim sökum held ég að hv. þm. þurfi ekki að vera feimnir við að beita fallöxinni af handahófi við niðurskurð fjárl., því að allt er þetta slumpareikningur í rn. sem á ekkert skylt við örugga stjórnsemi og skipulag í áætlanagerð.

Ef litið er á ráðningar kennara og skólastjóra blasir við heldur ófögur sjón. Að vísu mun það ekki gerast, að skipuðum skólastjórum eða kennurum sé vikið úr starfi, en að því er varðar þá starfsmenn, sem settir eru til eins árs í senn, er það að segja, að þeir eru látnir fjúka og jafnvel fyrirvaralaust, þótt þeir hafi full réttindi, og aðrir, jafnvel réttindalausir, ráðnir í staðinn. Ég get bent á allnokkur dæmi þessu til stuðnings.

Það er staðreynd, að stéttarfélög kennara hafa verið gagnslaus fyrir þá kennara sem hafa verið beittir órétti af kerfinu. Ég hef að vissu leyti samúð með kennurum. Þeir þurfa að geta séð sér farborða efnalega og þess vegna er e.t.v. tryggara að hafa hljótt um sig þegar menntmrn. á í hlut. Um ofsóknir rn. gegn einstökum kennurum, skólastjórum og öðrum starfsmönnum hef ég mýmörg dæmi. Áður er vikið að ummælum þáverandi formanns fræðsluráðs Reykjanesumdæmis, þar sem hann fullyrðir að fræðsluráðsmenn séu beittir þvingunum af menntmrn. En það er ekki nóg með það, að fræðsluráðsmenn séu beittir þvingunum, heldur má einnig finna dæmi þess, að menntmrn. hefur skrifað upp á og staðfest lögbrot og valdníðslu sem fræðsluráðin sjálf standa að. Gott kennslubókardæmi um þetta atriði er að finna þegar fræðsluráð Vesturlands mælti einróma með eina réttindalausa umsækjandanum í stöðu fræðslustjóra Vesturlands. Og hvers vegna skyldi menntmrn. vera að gera aths. við slíkt? Ekki aldeilis!

Þegar frsm. þessa frv. og þáv. deildarstjóri í menntmrn. lagði til að tiltekið fræðsluráð gerði grein fyrir þeirri ákvörðun sinni — þetta var í Kópavogi — að mæla ekki með þeim umsækjandanum sem mesta hafði menntun og lengstan starfstíma, þá var ákvörðun ráðuneytisstjórans sú, að slíkra upplýsinga væri ekki þörf, enda rn. óviðkomandi, valdið væri hjá fræðsluráðinu. Og þar með var málið afgreitt. Ráðuneytisstjórinn sá sem sagt enga ástæðu til þess að beina þessari spurningu til fræðsluráðsins: Viljið þið lofa mér að heyra, hvers vegna þið mælið ekki með manni sem hefur meiri starfsreynslu og meiri menntun, heldur mælið þið með öðrum? — Það geta út af fyrir sig verið til rök, en mig langar að heyra þessi rök og þá skulum við afgreiða málið. — En þegar deildarstjóri fræðslumáladeildar óskar eftir því að þetta skuli athugað, þá segir ráðuneytisstjóri stopp. Okkar er valdið. Við förum eftir ákveðnum reglum. Við hringjum þá heldur til einhverra manna og fáum úr því skorið, hvað eigi að gera. Embættismennirnir hafa sem sagt margir hverjir sínar aðferðir við að stjórna þessu landi.

Herra forseti. Hér hafa verið tínd til ýmis dæmi um stjórnleysi og mistök í starfsemi eins stærsta og viðkvæmasta rn. stjórnarráðsins. Þessi mistök byrjuðu fyrst og fremst eftir að fræðslumálaskrifstofan var gerð að deild í menntmrn., eins og ég hef bent á. Það, sem hér liggur fyrir, er frv. til t. sem gengur út á það að endurskipuleggja yfirstjórn fræðslu- og menningarmála. Ég er þeirrar skoðunar, að mistökin, sem hafa verið gerð til þessa, verði ekki lagfærð nema skipulagsbreyting komi fyrst til. Ég held að það sé tímabært einmitt nú að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og allshn.