13.12.1978
Neðri deild: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

120. mál, Stjórnarráð Íslands

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þegar ákveðið var að leggja niður fræðslumálaskrifstofuna á sínum tíma, eins og hv. flm. þessa máls ræddi hér um ítarlega, þá var það gert, eins og hann gat réttilega um, í sparnaðarskyni. Það var talið að mun ódýrara væri að leggja niður fræðslumálaskrifstofuna og færa hana undir menntmrn. Á þeim grundvelli hygg ég að mér sé óhætt að fullyrða að Alþ. hafi samþykkt þessa nýskipan mála.

Nú er liðinn langur tími og ég vil láta það koma fram strax við 1. umr. þessa máls, að ég tel að þessi breyting hafi ekki í framkvæmd orðið til góðs hvað snertir peningalegan sparnað, því síður hvað snertir stjórnarfarslega breytingu. Ég hygg að hið gamla góða embætti fræðslumálastjóra hafi verið náinn og mikilvægur tengiliður á milli kennarastéttarinnar og skólanna annars vegar og rn. hins vegar. Ég fyrir mitt leyti tel að það sé ekki rétt að stækka svo verulega rn. sem gert var með þessari breytingu og mörgum öðrum, — sérstaklega hvað snertir menntmrn. sem er orðið alstærsta rn. Ég hygg að hitt sé mun eðlilegra, að þarna sé tengiliður á milli skólanna og rn., eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég tel að á margan hátt mætti ganga jafnvel lengra en þetta frv. gerir ráð fyrir með því að gera fræðslumálaskrifstofuna að sjálfstæðri stofnun aftur, sem auðvitað væri undir stjórn menntmrh.

Efnislega er ég mjög hlynntur því sem þetta frv. gerir ráð fyrir, en frv. fjallar um breyt. á lögum um Stjórnarráð Íslands. En margt fleira er í lögum um Stjórnarráðið sem væri eðlilegt að breyta frá því að þau voru sett í maí 1969 og þá gagnvart fleiri rn, en þessu eina.

Ég ætla ekki að koma inn á annað það sem hv. flm. ræddi, og síst af öllu vil ég ræða samskipti þessa hv. þm. við menntmrn. og þá sérstaklega ráðuneytisstjórann þar. Ég tel, að það mál hafi verið rætt á öðrum vettvangi og ég tel ekki ástæðu til þess fyrir menn, sem eru illa að sér í því, að ræða það ítarlega í sambandi við flutning þessa frv. Hinu er ekki að leyna, að í ræðu hv. þm. felast mjög ákveðnar ásakanir á hendur menntmrn. um valdníðslu er hann telur að þar hafi átt sér stað á undanförnum árum. Hann var mjög þungorður í sambandi við þessi mál, en ég vil aðeins taka undir eitt af því sem hann sagði, að ég tel mjög hæpið að ákveðnir starfsmenn í ákveðnum rn. heyri undir viðkomandi ráðuneytisstjóra. Til þess ætlast löggjafinn ekki. Ég held að það sé alveg tvímælalaust, að ráðh. hljóti að hafa þar æðsta vald og vera húsbóndi þessara starfsmanna sem annarra þar. Það er einnig mjög athyglisvert — margt hefur verið rannsakað sem síður skyldi en það — ef reglugerðir, sem gefnar eru út, stangast á við lög í þessum efnum. Það fær ekki staðist að einn embættismaður geti farið með meira vald en ráðh., nema löggjöfin geri ráð fyrir því, sem hún gerir ekki.

Ég ætla ekki efnislega að ræða þetta frv. frekar. En ég tel að hér sé hreyft athyglisverðu máli og það eigi að fá vandlega yfirvegun í n. og þá jafnframt að n. yfirfari lögin um Stjórnarráð Íslands, sem þarf að breyta og hefur staðið til að breyta á undanförnum árum, en ekki orðið úr því. Sömuleiðis finnst mér ástæða til að það berist einhver svör við þeim þungu ásökunum sem flm. þessa frv. bar á hendur ráðuneytisstjóra menntmrn. og í raun og veru á menntmrh. sem verið hafa á liðnum s.l. árum, allt frá árinu 1971.