13.12.1978
Neðri deild: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

118. mál, fjáröflun til vegagerðar

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 135 er prentað frv. til l. um breyt. á lögum um fjáröflun til vegagerðar. Þetta frv. er flutt af 7 þm. auk mín, þeim hv. þm. Albert Guðmundssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Einari Ágústssyni, Gils Guðmundssyni, Ingvari Gíslasyni og Gunnlaugi Stefánssyni.

Efnislega gengur frv. út á það að létta þungaskattsgreiðslum af almenningsvögnum sem eingöngu eru notaðir á götum í þéttbýli.

Þetta mál er ekki flókið og ég þarf því ekki að hafa langa framsögu. Það er vitað mál, að strætisvagnar eða almenningsvagnar fara aldrei út fyrir gatnakerfi þéttbýlis og aka svo til einvörðungu á götum sem viðkomandi borgar- eða bæjarsjóður kostar að öllu leyti, bæði lagningu þeirra og viðhald. Að vísu má benda á að um nokkrar undantekningar er að ræða, t.d. á leiðinni frá Kópavogi til Reykjavíkur. Þar mun ekið einhvern spotta eftir þjóðvegi. En ég tel að það ætti ekki að koma í veg fyrir að þetta mál nái fram að ganga, enda höfum við notað orðið „þéttbýli“, en ekki bæjargötur eða eitthvað álíka.

Það er vitað mál, að strætisvagnar eru reknir með miklum halla víðast hvar, t.d. eru Strætisvagnar Reykjavíkur reknir með um það bil 500 millj. kr. halla á þessu ári, eftir því sem áætlað er, og það segir sig sjálft, að sú kvöð, sem á rekstraraðila strætisvagnanna er lögð með greiðslu þungaskatts, sem nemur 25 millj. á þessu ári samkv. áætlun, er mjög þungur baggi.

Almenningsvagnar af því tagi sem hér er um ræðir eru eingöngu ætlaðir til þjónustu við almenning, og þess vegna þykir ekki kleift að hafa fargjöld mjög há. Það er því engan veginn hægt að ganga út frá því að reksturinn standi undir sér. Við teljum því að í þessum tilvikum sé um óeðlilega kvöð að ræða á rekstraraðila slíkra vagna, hvort sem er hér í Reykjavík eða annars staðar á landinu í þéttbýli, og teljum sanngjarnt að vagnarnir séu undanþegnir þessum skatti.

Ég vil leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn. Ég vil leggja á það áherslu að n. afgreiði þetta mál sem fyrst.