12.10.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Frestun á kjöri forseta

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Meðal þeirra, sem óskað hafa þessarar frestunar, er ég, svo það er rétt að gera nokkra grein fyrir því. Það er nú þannig að hæstv. ríkisstj. hefur beðist lausnar og það þarf að sjá landinu fyrir nýrri ríkisstj. Í sambandi við nýja stjórnarmyndun er ákaflega eðlilegt að val þingforseta komi inn í það dæmi. Ég held að það sé ekkert óvenjulegt, heldur venjulegt að slíkt þurfi að ræðast í samhengi. Ég vænti þess, að hæstv. dómsmrh. hljóti að viðurkenna að það sé eðlilegt að einhvern tíma þurfi til þess að ná samkomulagi um nýja ríkisstjórn og þá þar með einnig þingforseta, og þar sem nú eru ekki nema rúmar 3 klst. síðan hæstv. ríkisstj. var veitt lausn, þá er ekki hægt að ætlast til þess með sanngirni að þegar sé búið að mynda nýja ríkisstj. og gera allar ráðstafanir í sambandi við það. Ég held eftir minni reynslu að það hafi alltaf tekið lengri tíma en þrjár klst. að mynda nýja ríkisstj. Ég sé ekki rök fyrir því að mótmæla þessari frestun, hún er ákaflega eðlileg.