12.10.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

Frestun á kjöri forseta

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég sé ekki beint samband á milli kosningar á þingforsetum og myndunar nýrrar ríkisstj.

Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, sem er háttvirtur enn þá — verður kannske hæstvirtur innan skamms, að núv. ríkisstj. baðst lausnar í morgun. Forseti beindi þeim tilmælum til hennar að hún gegndi störfum þar til ný ríkisstj. væri mynduð. Allir ráðherrar urðu við þeim tilmælum með mikilli ánægju.

Þess eru geysimörg dæmi, að starfsstjórn hefur setið að völdum svo mánuðum skiptir. Það gæti farið svo um þessa. Það getur ekki verið ætlun hv. þm. að fresta að koma fastri skipan á Alþingi allan þann tíma sem þessi starfsstjórn kynni að sitja með góðum vilja allra aðila, en það má segja að hún hafi þegar fengið nokkra traustsyfirlýsingu sem lýsi sér í fram kominni þáltill.

Ég vil segja það með fullum alvöruþunga, að ég tel það þinginu til vansæmdar að ganga ekki frá kosningu forseta og koma ekki skipulagi á þingið, þannig að þingstörf geti byrjað sem allir hljóta þó að vera sammála um, geri ég ráð fyrir, að þurfi að ljúka þó að til þingrofs komi. Eða er það ætlun manna að láta bráðabirgðalög t.d., sem þegar hafa verið lögð fram, falla úr gildi? Ég held að það væri skárri kostur, ef menn væru ekki enn þá við því búnir að kjósa þingforseta, að athuga hvort það væri ekki möguleiki að halda síðdegisfund í dag eftir að mönnum hefur gefist frekari umhugsunarfrestur.

Ég endurtek það, að það er alger undantekning að alþingisfundir séu haldnir á laugardögum. Slíkt á sér yfirleitt ekki stað og hefur ekki átt sér stað nema þegar þingi er að ljúka. Eftir hinu man ég ekki, að það hafi dregist að kjósa forseta og þingið þurft að sitja aðgerðarlaust undir stjórn aldursforseta, þótt ágætur sé, nema það hefur kannske gerst fyrir nokkrum áratugum þegar deilt var um kjörbréf, en út í þá sögu fer ég ekki. Ég veit að hv. síðasti ræðumaður er fróður í þessum efnum og mér þætti gott ef hann gæti bent á dæmi slíks.