12.10.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

Frestun á kjöri forseta

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það er margt óvenjulegt um það ástand sem nú ríkir í stjórnmálum landsins, eins og kunnugt er, og ekki alltaf hægt að vitna í fordæmi. T.d. held ég að líf og dauði þessarar ríkisstj. sé með svo óvenjulegum hætti að það sé ekki hægt að finna nein fordæmi fyrir einu eða öðru.

Ástandið nú er, eins og kunnugt er, þannig að í dag fékk ríkisstj. lausn, og ég verð að segja að þó að það sé sjaldan í byrjun þings að þurfi að halda fundi á laugardögum, þá hafi virðulegur Framsfl. átt að gera sér grein fyrir því, að ástandið væri þannig nú að það þyrfti að vinna í rauninni jafnt virka daga sem helga. Mér finnst þess vegna heldur óvarlegt af þeim flokki nú í byrjun þings að boða til stjórnmálafunda um allt land þegar í rauninni mátti gera ráð fyrir að halda þyrfti þingfund.

Ég ætla að okkur, sem höfum óskað eftir þessari frestun, sé ekkert að vanbúnaði að ganga til kosninga um þingforseta á morgun. En þá virðist stranda á Framsfl. sem hefur öðru að sinna.

Ég held að ekki sé hægt með réttu að ásaka okkur um að tefja þingstörf þó að kosning forseta frestist um einn dag. Ég endurtek, að það er eðlilegt og alls ekki óvenjulegt — þvert á móti — að í sambandi við umræður og samninga um nýja ríkisstj. komi að sjálfsögðu einnig samtöl og samningar um val á þingforsetum. Ný ríkisstj. þarf í rauninni og ég ætla að það sé oftast þannig að hún vilji hafa nokkur áhrif á það, hvernig forustu þingsins eða vali þingforseta er háttað.