15.10.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

Kosning forseta og skrifara

Aldursforseti (Oddur Ólafsson):

Þá verður fundi fram haldið í sameinuðu Alþingi. Svofelld dagskrá liggur fyrir fundinum: 1. Kosning forseta. 2. Kosning 1. varaforseta. 3. Kosning 2. varaforseta. 4. Kosning skrifara.

Fer nú fram kosning forseta sameinaðs Alþingis, en um kjör forseta segir svo í 3. gr. þingskapa:

„Rétt kjörinn forseti er sá, er hefur meira en helming greiddra atkv., þeirra er á fundi eru. Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu, skal kosið af nýju óbundnum kosningum. Fái þá heldur enginn nógu mörg atkv., skal kjósa um þá tvo þm., er flest fengu atkv. við síðari óbundnu kosninguna; en hafi við þá kosningu fleiri fengið jafnmörg atkv., ræður hlutkesti, um hverja tvo skuli kjósa. Ef þeir fá báðir jafnmörg atkv. við bundnu kosninguna, ræður hlutkesti hvor þeirra verði forseti.“

Aldursforseti lét nú fara fram kosningu forseta sameinaðs Alþingis. Kosningu hlaut

Oddur Ólafsson, 4. þm. Reykn., með 34 atkv. Gils Guðmundsson, 3. þm. Reykn., hlaut 25 atkv.