10.10.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning Ingólfs Flygering

Aldursforseti (Oddur Ólafsson):

Áður en þingstörf hefjast að þessu sinni vil ég minnast nýlátins fyrrv. alþm. Ingólfs Flygenring, sem andaðist í St. Jósepsspítala í Hafnarfirði 15. sept., 83 ára að aldri.

Ingólfur Flygenring var fæddur í Hafnarfirði 24. júní 1896. Faðir hans var Ágúst Flygenring skipstjóri, kaupmaður og útgerðarmaður í Hafnarfirði og alþingismaður, sonur Þórðar bónda og hreppstjóra að Fiskilæk í Borgarfjarðarsýslu Sigurðssonar. Móðir Ingólfs Flygenring var Þórunn Stefánsdóttir bónda að Þóreyjarnúpi í Húnavatnssýslu Jónssonar. Kona Ingólfs var Kristín Pálsdóttir bónda og hreppstjóra í Tungu í Fáskrúðsfirði. Hún lifir mann sinn. Hann stundaði nám í Flensborgarskóla veturinn 1908–1911 og lauk þar gagnfræðaprófi, nam síðan í Hólaskóla 1913–1915 og lauk búfræðiprófi. Eftir það var hann bóndi á Hvaleyri við Hafnarfjörð árin 1916–1919. Framkvæmdastjóri við útgerð og verslun í Hafnarfirði var hann 1919–1928 og síðan við útgerð og rekstur frystihúss þar 1928–1968. Hann var í skólanefnd Flensborgarskóla 1925–1958, átti sæti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 1950–1954 og í stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar 1958–1967. Þar var hann stjórnarformaður frá 1965. Alþingismaður Hafnfirðinga var hann eitt kjörtímabil, 1953–1956, en hafði áður tekið einu sinni sæti á Alþingi sem landskjörinn varaþingmaður. Var það á öndverðum vetri 1950. Hann átti því sæti á fjórum þingum.

Ingólfur Flygenring var á æskuárum í sveit á sumrum og hugur hans hneigðist að búnaðarnámi og síðar búskap, sem hann stundaði þó ekki til langframa. Þegar aldur færðist yfir föður hans, Ágúst Flygenring, sem átti og stýrði umfangsmiklum atvinnurekstri í Hafnarfirði, hlaut Ingólfur ásamt bróður sínum að taka þar við forstöðu og á því sviði vann hann mikið ævistarf. Hann var íhugull og gætinn framkvæmdamaður og farnaðist vel við rekstur og eflingu fyrirtækis síns, Íshúss Hafnarfjarðar, og öðlaðist traust og vinsældir starfsmanna sinna. Hann var hlédrægur að gerð, en vegna mannkosta og starfssviðs lenti hann í forustusveit í félagsmálum atvinnurekenda og hlaut að gegna ýmsum forustustörfum í félagsmálum Hafnfirðinga og var kvaddur af flokksbræðrum sínum í framboð til Alþingis. Hér átti hann sæti í efri deild, var í sjútvn., heilbr.- og félmn. og menntmn. og var formaður hennar. Hann var ekki hávaðamaður, en vann með festu og ljúfmennsku að framgangi mála sem hann beitti sér fyrir í þágu bæjarfélags síns og þjóðar sinnar allrar.

Ég vil biðja þingheim að minnast Ingólfs Flygenring með því að rísa úr sætum. — [Þingheimur reis úr sætum.]

Fundi frestað.

Fimmtudaginn 11. okt., kl. 2 miðdegis, var fundi fram haldið.