11.10.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Lausnarbeiðni ríkisstjórnarinnar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Er núverandi stjórn var mynduð var það sammæli formanna þeirra flokka, sem að stjórninni stóðu, munnlegt að vísu, að þingrofsrétti skyldi ekki beitt nema allir stjórnarflokkarnir væru um það sammála.

Það hefur verið kannað hver afstaða flokkanna væri til þeirrar kröfu Alþfl., að þing skyldi rofið og stofnað til nýrra kosninga innan tveggja mánaða frá þingrofi. Báðir hinir samstarfsflokkarnir, Alþb. og Framsfl., hafa lýst sig andvíga þessari kröfu og tilgreint þær ástæður sem þeir telja að mæli á móti henni. Þegar af þessari ástæðu tel ég mér óheimilt að gera tillögu um þingrof.

Ég vil bæta því við, að ég persónulega tel óforsvaranlegt að efna til kosninga um hávetur, í svartasta skammdegi að kalla. Veðurguðirnir gætu orðið svo hliðhollir að þetta gæti tekist með skaplegu móti, en þó alltaf við erfiðleika í afskekktum sveitum. En veðrátta gæti líka orðið slík að kosningar á þessum tíma væru með öllu óframkvæmanlegar, og getur það átt við um kosningaundirbúning, framboðsfundi og kosningarnar sjálfar. Slíkar kosningar gætu orðið skrípamynd þar sem fjöldi fólks væri í reynd sviptur atkvæðisrétti.

Alþingiskosningar hafa aldrei átt sér stað á þeim árstíma sem hér er um að ræða. Ég vil ekki bera ábyrgð á því að skapa slíkt fordæmi.

Ég álít það fullkomið ábyrgðarleysi að leysa þingið upp, áður en það er í raun og veru tekið til starfa, og efna til harðvítugrar kosningabaráttu við ríkjandi aðstæður í efnahags- og atvinnumálum, en þær ætti ég að þekkja flestum öðrum betur. Þar bíða mörg mikilvæg verkefni sem kalla á úrlausn. Ég nefni það t.d., að fjárlög yrðu væntanlega ekki afgreidd á tilskildum tíma, sama máli gegnir um lánsfjáráætlun og hlyti af því að skapast mikil óvissa um margvíslegar framkvæmdir. Svo að segja allir kjarasamningar eru ýmist lausir eða verða það um áramót. Kosningabarátta væri að mínum dómi ekki heppilegur undirbúningur friðsamlegrar eða farsællar lausnar í átökum á vinnumarkaði. Ákvörðun um fiskverð rennur út um áramót. Verðbólga mundi vafalaust magnast meðan kosningabarátta stæði yfir því að á því tímabili yrði erfitt að beita nokkrum úrræðum til að hemja hana. Hitt skulu menn hins vegar ekki ætla, að ríkisstj. geti á því tímabili, sem fram undan er, setið um tveggja eða þriggja mánaða skeið aðgerðalaus.

Þingrof strax eftir þingsetningu hefur aldrei átt sér stað hér á landi. Það er að vísu ekki ólöglegt, en því geta fylgt ýmis vandkvæði. T.d. mundu óafgreidd brbl. væntanlega falla úr gildi ef þingrofsboðskapur hefur verið birtur og þingmenn sviptir umboði.

Eftir að þingrofi hefur verið hafnað liggur ljóst fyrir að Alþfl. hefur slitið stjórnarsamstarfinu, þar sem ráðh. hans hafa óskað eftir því að vera leystir frá störfum. Ríkisstj. nýtur því ekki lengur stuðnings meiri hl. á Alþingi. Við þessar aðstæður og með skírskotun til þess, sem áður er sagt, hef ég talið rétt að biðjast nú þegar lausnar fyrir mig og ráðuneyti mitt. Mun ég leggja lausnarbeiðni mína fyrir ríkisráðsfund sem haldinn verður í fyrramálið, og hef ég skýrt bæði forseta Íslands og ríkisstj. frá þessari ákvörðun minni. Ég hef með því viljað án tafar skapa svigrúm til myndunar þingræðislegrar stjórnar er hefði meiri hl. á bak við sig. Það er að mínum dómi mikil nauðsyn á því að slík stjórn sé mynduð sem allra fyrst, því að málefni þau, sem úrlausnar bíða, eru mörg og vandleyst. Vilji sú ríkisstj. efna til þingrofs og nýrra kosninga er eðlilegt að hún beri ábyrgð á þeirri stjórnarathöfn og á stjórn landsins á meðan kosningabarátta stendur yfir og kosningar fara fram. Það vona ég að allir hv. alþm. skilji. Það vona ég að allir landsmenn skilji.