16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Það hlýtur ævinlega að vera mikið alvörumál þegar ríkisstjórnir springa eftir eitt starfsár. Það var Alþfl. sem sprengdi ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar. Þetta gerði Alþfl. vegna þess að þrátt fyrir það að það væru meginákvæði stjórnarsáttmála að ná verðbólgu niður í áföngum, þá reyndist þeirri ríkisstj. ekki unnt að standa við þau fyrirheit sín. Þessar ástæður eru í raun ákaflega ljósar og skýrar. Alþfl. ályktar svo, að takist ríkisstj. ekki að standa við slík meginmarkmið sem hún þó hefur heitið, þá eigi slík ríkisstj. sér ekki seturétt. Alþfl. ályktar svo, að í stórmáli sem þessu beri stjórnmálaflokkar siðferðilega ábyrgð. Hafi stjórnmálaflokkar, hafi heil ríkisstj. heitið tilteknum árangri í verkefni sem þessu og takist ríkisstj. ekki að ná slíkum árangri og ef það er ekkert útlit fyrir að slíkur árangur náist, þá á slík ríkisstj. að segja af sér.

Fyrri ríkisstj., ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, hafði sett sér það yfirlýsta markmið að ná verðbólgu niður í 15%. Á miðjum starfsferli þeirrar ríkisstjórnar var mætavel 1 jóst að við þessi markmið yrði ekki staðið. Það var vaðið áfram, en stjórnin sat og sat. Sú seta gjaldþrota ríkisstjórnar varð þessari þjóð dýr. Sú seta jók við ranglæti það og þá upplausn sem ævinlega fylgir mikilli verðbólgu.

En Alþfl. einn stjórnmálaflokkanna er stefnumiðum sínum trúr þegar hann neitar að bera ábyrgð á þróun sem þessari. Það var þess vegna rökrétt ályktun að hætta stjórnarsamstarfi þegar ljóst var að pólitísk svik blöstu við.

Samstarf í samsteypustjórnum getur vissulega verið umdeilanlegt og orkar ævinlega tvímælis. Það getur verið áhorfsmál hvenær samningar hafa farið þannig fram að allir megi vel við una. En þegar ríkisstj. hefur mistekist höfuðviðfangsefni sitt og ljóst er að engin samstaða er um nýjar leiðir í tengslum við þetta viðfangsefni, þá á mælirinn að vera fullur, þá á það að vera siðferðileg skylda okkar að halda ekki áfram á sömu braut. Þetta hefur Alþfl. gert. Hann hafði forustu um að rjúfa fyrrverandi stjórnarsamstarf, þar sem ljóst var að ekki var möguleiki á myndun samstæðrar meirihlutastjórnar á Alþingi. Þá var það ekki einasta rétt, heldur skylt að skjóta þessum málum öllum á ný undir dóm þjóðarinnar. Það hefur verið gert og kosningar munu fara fram 2. og 3. des. n.k.

Ég trúi því að fólkið í landinu muni meta þessa afstöðu. Ég trúi því að fólk muni vissulega komast að niðurstöðu sem er í samræmi við það sem áður hefur gerst. Alþfl. einn stjórnmálaflokka hefur ekki þráast við að sitja í ríkisstjórn sem missir tök á þessu höfuðviðfangsefni. Við höfum kosið að fara öðruvísi að. Við höfum kosið að spyrja fólkið í landinu. Slíkt hlýtur ævinlega að vera góðum málstað til framdráttar á tímum þegar menn ná ekki samkomulagi. Það var í trausti þess sem við höfum tekið þessa ákvörðun.

Meðan þessir tímar eru að ganga yfir hefur Alþfl. tekist á hendur að mynda minnihlutastjórn. Það er auðvitað í fullu samræmi við það, sem gerst hefur, að Alþfl. skuli axla þessa ábyrgð. Alþfl. hefur samvinnu við Sjálfstfl. um það að efna til þingrofs og nýrra kosninga. Alþfl. mun ganga til þessara kosninga í fullu trausti þess, að kjósendur muni meta og taka afstöðu til þess ágreinings sem uppi hefur verið í samfélaginu um efnahagsmál, stjórnkerfismál, félagsmál, landbúnaðarmál og fjölmarga aðra málaflokka.

ríkisstj., sem mynduð hefur verið, mun efna til kosninga svo sem samkomulag hefur orðið um. Í þessum kosningum verður tekist á um fjölmargt og það verður einnig tekist á um þær verulegu skekkjur sem verðbólguþjóðfélagið hefur getið af sér. Um þetta vil ég fara nokkrum orðum.

Á undanförnum árum hafa átt sér stað deilur um dómskerfið í landinu. Þessar deilur snerta sjálfar undirstöður þjóðfélagsins. Snemma á þessum áratug fór verðbólga upp úr öllu valdi. Önnur þjóðfélög hafa ekki sloppið og við munum ekki sleppa við þá staðreynd að slíku ástandi fylgir upplausn og spilling. Verðbólgunni fylgja siðlausar eignatilfærslur, ævinlega frá þeim, sem minna mega sín í þjóðfélaginu, og til hinna, sem fljóta ofan á. Þess varð fljótlega vart, að kerfið var hvorki í stakk búið til þess að mæta þessu ástandi né heldur var fyrir hendi pólitískur vilji. Til að nefna alkunna staðreynd: við erum þjóðfélag þar sem mikið er svikið undan skatti. Þetta veit samfélagið allt. Skattsvik, mismunandi afstaða manna til þess að hagræða tekjum sínum ræður miklu um raunverulega afkomu fólksins. Engu að síður hefur skort pólitískan vilja til að snúast gegn þessu ástandi. Það er varla tilviljun að margar ríkisstjórnir, einnig sú sem kvaddi í gær, hafa haft slíkt á stefnuskrá sinni og heitið slíku, en það hefur einfaldlega ekki gerst.

Í ljós kom einnig að þótt það væri deginum ljósara að fjármálaafbrot, smá og stór, færu í vöxt, þá er jafnframt deginum ljósara að dómskerfið var vanmegnugt að fást við slíkt. Í ljós kom að kerfið lokaði sig af. 1 ljós kom að dómskerfið hlýddi stjórnmálavaldinu á þann hátt sem dómskerfið átti ekki að hlýða stjórnmálavaldinu. Stjórnmálavaldi var beitt til að setjast ofan á mál, fela þau og svæfa. Ég tíunda ekki þessar deilur hér. Ég ítreka aðeins hve þetta ástand var og er óþolandi.

Þessu verður vitaskuld ekki breytt í einu vetfangi og ekki af ríkisstj. sem situr til bráðabirgða. En væntanlega verður hægt að ryðja inn nýju blóði, að eyða þeim fordómum gamla valdakerfisins, að þar skuli þeir einir sitja sem tilheyra þessu valdakerfi, sem hafa varið það með oddi og egg og hafa tekið þátt í því að loka því fyrir almenningi.

Við Alþingi, við þá sem á mál mitt hlýða vil ég segja í mikilli alvöru: Kröfluvirkjun og fjárreiður vegna hennar hafa verið til umræðu undanfarin ár. Þar hafa gagnrýnendur með rökstuddum hætti fullyrt að fjármálasagan öll væri með svo undarlegum hætti að skattgreiðendur ættu heimtingu á skýringum. Þetta á við um smáa eyðslu og stóra, þetta á við um vélakaup og smæstu reikninga. Blöð hafa nýverið skýrt frá staðreyndum um þessi efni sem snerta ekki aðeins framkvæmdirnar, heldur einnig hið háa Alþingi. Þessar staðreyndir eru þess efnis að yfir verður ekki þagað. Þetta mál er nefnt vegna þess að það er nýlegt og að það er spegilmynd af þjóðfélagsástandi sem hefur verið að myndast við verðbólguaðstæður. Og þetta saman, þessir ágallar í samfélagi og hið óþolandi þenslukerfi, — á þessu getum við ekki borið ábyrgð.

Það er eðlilegt að spurt sé á þessari stundu: Af hverju féll ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar? Þegar stjórnin var mynduð réðu og höfðu mikil áhrif um samninga hv. þm. Lúðvík Jósepsson og Ólafur Jóhannesson. Þeir léku gamaldags samningaaðferðir og sá leikur er orðinn þessari þjóð nokkuð dýr. Þessi leikur var m.a. fólginn í því að gera samkomulag í stjórnarsáttmála sem aldrei virðist hafa staðið til að standa við. Í stjórnarsáttmála var kveðið á um að koma verðbólgunni niður í áföngum. Frá þessu var einasta gengið með atmennum orðum. Ég held að þar hafi verið stærstu mistökin gerð. Það voru mistök vegna þess að gamalreyndir stjórnmálamenn, sem svo eru stundum kallaðir, virðast meta refskapinn refskaparins vegna. Þeir líta á stjórnarsáttmála sem orðaleik. Það stóð aldrei til að standa við þessi orð. Hvað þýðir að koma verðbólgunni niður? Það þýðir, að beita verður hörðum og ströngum aðhaldsaðgerðum með þeim tækjum sem ríkisvaldið ræður yfir. Það þýðir, að þvinga verður fjárlög og þar með eyðslu ríkisins niður. Það þýðir, að hemja verður peningaþensluna innanlands og lántökur erlendis. Á mannamáli þýðir þetta, að það verður að draga úr eyðslu, hætta að þenja framkvæmdir, skera niður. Þetta þýðir, að það verður að beita aðhaldsaðgerðum í verðlags- og launamálum. Þetta þýðir, að skipulega verður að hagræða í kerfinu. Það getur ekkert þjóðfélag og hefur aldrei getað til langframa eytt meiri en það aflar.

En þetta var ekki gert. Þvert á móti var þenslunni haldið áfram. Það var þanið í bákni, í landbúnaði, í opinberum framkvæmdum, og nú þegar stjórnarslit urðu var ljóst að kröfurnar voru áfram í þá átt að þenja meira. Það var auðvitað ævinlega hægt að réttlæta allar framkvæmdir á vegum ríkisins, hverja einstaka út af fyrir sig. En þessa mynd verður að skoða í heild sinni. Þegar þanið er umfram verðmætin sem til eru, þá verður rýrnun, verðbólga, dýrtíð. Í slíku ástandi verður stöðugt stríð. Hagsmunahóparnir reyna að verja sig sem vonlegt er. Við þekkjum þetta verðbólgustríð. Braskið þrífst, en þeir, sem sífellt verða undir, eru þeir sem lægst hafa launin, ellilífeyrisþegar, sparifjáreigendur og aðrir slíkir.

Þegar í upphafi þings 1978 flutti þingflokkur Alþfl. frv. um raunvexti. Það þarf ekki að kynna það, hvert réttlætismál raunvextir eru. Raunvextir eru réttlætismál vegna þess að þeir, sem spara, sem venjulegast eru hinir efnaminni í þjóðfélaginu, hafa tryggingu fyrir sparnaði sínum. Raunvextir draga úr þeirri óbærilegu bankamisnotkun sem viðgengst hefur í lokuðu bankakerfinu. Þá þegar beitti hv. þm. Lúðvík Jósepsson sér hatramlega gegn raunvöxtum og með honum Alþb. allt, þó ég raunar efist um að yngri talsmenn þar séu raunverulega sömu skoðunar. En Lúðvík beitti sér hatramlega gegn þessu og hann kallaði raunvaxtamenn ekki raunvaxtamenn heldur hávaxtamenn. Hann talaði um 50–60% vexti. Hvernig gat það komið heim og saman? Það gat því aðeins komið heim og saman að stjórnarsáttmálinn væri marklaust plagg, sem og varð raunin. Menn verða að skilja alvöru þessa máls. Þjóðfélag, sem telur sig ekki hafa efni á því að greiða sparendum raunvirði upphaflegra verðmæta, er ranglátt þjóðfélag. Hinu hefur aldrei nokkur maður neitað, að raunvaxtastefnan ein sér gengur ekki. En aðeins sú ríkisstj., sem getur framkvæmt raunvaxtastefnu, á rétt á sér, og það getur hún aðeins með aðhaldsaðgerðum á öðrum sviðum.

Í stuttu máli má segja að saga stjórnarinnar fyrrverandi fjalli um slík mál. Og það var rökrétt, að slíkt yrði henni að falli, svo mikið áttum við að vita um skoðanir hvers annars og svo mikið áttum við að vita um það sem stóð efst á blaði í stjórnarsáttmálanum. Spyrja má: Hver er skylda stjórnmálaflokks? Ber stjórnmálaflokkur siðferðilega ábyrgð? Ber stjórnmálaflokkur yfirleitt nokkra ábyrgð? Getur stjórnmálaflokkur heitið því að ætla að ná verðbólgunni niður, en svikið það síðan? Getur ríkisstj. heitið slíkum markmiðum en svikið þau síðan. Verða ekki stjórnmálaflokkar að bera einhverja ábyrgð?

Alþfl. hefur gert það eitt sem honum bar að gera. Þegar ljóst var að ríkisstj. gat ekki og vildi ekki standa við þau markmið sem heitið hafði verið, þá var rétt að slíta henni. Undir slíkum kringumstæðum er rétt að kjósendur felli sinn dóm. Sannfæring mín er sú, að fari Alþfl. vel út úr þeim kosningum sem í hönd fara, þá hefur íslenska þjóðin reist varanlegt vígi gegn verðbólgu, þá hefur íslenska þjóðin sagt, svo að ekki verður um villst og ekki um deilt, að stjórnleysi undanfarinna ára er henni á móti skapi. Þá hefur þjóðin sagt að hún meti stjórnmálaflokka sem standa við fyrirheit sín, sem setja markmið ofar öllu öðru. Fari kosningarnar á annan veg, fari kosningarnar þannig að verðbólguflokkarnir hafi betur, þá verða erfiðir tímar fram undan. Um þetta verður valið.

Alþfl. vann fyrir rúmu ári stærstan kosningasigur í sögu lýðveldisins. Nær fjórðungur þjóðarinnar veitti flokknum brautargengi. Andstæðingar flokksins hafa þrástagast á því, að fylgi Alþfl. væri lausafylgi, gervifylgi, lánsfylgi frá einhverjum öðrum. Það lýsir furðulegum hugmyndum um fólkið í landinu þegar slíkt er borið á borð. Hv. þm. Geir Hallgrímsson, sem sat sem forsrh. í 4 ár, lofaði 15% verðbólgu og skildi eftir sig 50% verðbólgu og nærfellt gjaldþrota þjóðarbúskap, hann þrástagast á því, að kjósendur hafi verið blekktir. Hvers konar hugmyndir gera þessir menn sér um fólkið í landinu? Nærfellt sá fjórðungur þjóðarinnar, sem greiddi Alþfl. atkv. sitt, greiddi m.a. atkv. gegn verðbólgu og afleiðingum hennar. Fulltrúar flokksins hafa hér á hinu háa Alþingi unnið sleitulaust að því að fylgja fram þessum kröfum. Alþfl. hafði gert skriflegt samkomulag í stjórnarsáttmála um þessi fyrirheit. Við þau hefur ekki verið staðið. Þegar ljóst er að það tekst ekki við þær aðstæður sem hér ríkja, þá stendur Alþfl. upp og biður um endurnýjað og aukið traust, því að menn skyldu velta fyrir sér hvað hefði gerst á árinu 1980, hvernig hefði verið umhorfs í efnahagsmálum, ef áfram hefði verið látið reka á reiðanum.

Alþfl. axlar þá ábyrgð sem honum er skylt. Hann hefur myndað minnihlutastjórn sem situr fram yfir þær kosningar sem verða í landinu 2. og 3. des. Í þeim kosningum biður Alþfl. um aukið traust til þess að halda áfram þeirri baráttu sem hann hefur hafið. Það hafa verið mikil átök hér í þingsölum. Þau hafa stundum verið illskeytt, kannske of illskeytt. Það er slík spenna úti um þjóðfélagið allt, og það er kannske eðlilegt að eitthvað af henni berist hingað inn. En ég spái því engu að síður, að að loknum þeim kosningum, sem í hönd fara, hafi menn lært og sá lærdómur muni hafa í för með sér aukinn slaka, þann slaka sem samfélagið þarf á að halda.