16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Sú ríkisstj., sem nú hefur verið mynduð, er bráðabirgðastjórn. Henni er eingöngu ætlað það hlutverk að tryggja að fram fari kosningar í byrjun desember þannig að ný meirihlutastjórn geti tekið við völdum. Fráfarandi ríkisstj., vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, hrökklaðist frá völdum á nýju vinstristjórnarmeti. Hún hefur sannað það fyrir íslensku þjóðinni að vinstri stjórnir eru ófærar um að leysa efnahagsvandamál þjóðarinnar. Fólkinu í landinu er því ljósara nú en ávallt áður að vinstri stjórnir valda upplausn og óstjórn og tímabil þeirra hefur ætíð verið dýrkeypt og döpur reynsla fyrir þjóðina.

Við munum verða vitni að því í þessum umr., hvernig fulltrúar vinstri flokkanna koma sökinni hverjir á aðra. Nú vill enginn kannast við þær efnahagsaðgerðir sem hafa leitt þjóðina í meiri ógöngur óðaverðbólgu og upplausnar en við höfum þekkt áður, og erum við Íslendingar þó ýmsu vanir í þeim efnum. Í þeirri kosningabaráttu, sem fram undan er, munu brigslyrðin ganga á milli þessara fyrrv. samherja og við munum kynnast nánar því hugarfari bræðralags sem einkennt hefur samskipti vinstri flokkanna að undanförnu. Það eina, sem forustumenn vinstri flokkanna eiga sameiginlegt þessa dagana, er óttinn við kosningar og kosningaúrslitin sem verða dómur þjóðarinnar um verk þeirra í fráfarandi stjórn.

Eins og hv. síðasti ræðumaður benti á munu fyrrv. kjósendur Alþb. íhuga rækilega þann árangur sem ráðh. þeirra hafa náð. Þeir lofuðu stöðugu gengi. Gengissig hefur samt aldrei verið meira. Þeir lofuðu litlum verðlagsbreytingum. Verðlag hefur aldrei hækkað hraðar. Þeir lofuðu samningunum í gildi, en samt heldur kaupmátturinn áfram að rýrna og launabilið að breikka. Og Alþb. hefur staðið að því að banna verkföll með lögum.

Það er sorgarsaga að rifja upp kosningaloforð Alþfl. og bera þau saman við efndirnar. Alþfl. lofaði stórfelldri skattalækkun og stöðvun verðbólgunnar. Efndirnar þekkir hver einasti maður í landinu, enda hlupust þeir úr stjórninni þegar kjarkurinn brást. Það má kannske halda því fram, eins og hæstv. dómsmrh. Vilmundur Gylfason gerði áðan, að það hafi ekki verið kjósendurnir sem voru blekktir til fylgilags við Alþfl. fyrir kosningar, en þá er það óvefengt og ómótmælanlegt að þeir sömu kjósendur voru sviknir eftir kosningar.

Ég hirði ekki um að ræða um Framsfl. Markmið forustumanna hans er að vera í stjórn hvað sem það kostar og eins lengi og sætt er. Þessi áratugur hefur verið áratugur Framsfl. og um leið áratugur upplausnar og óstjórnar í íslenskum stjórnmálum. Gengi flokksins hefur verið í samræmi við þessa staðreynd, enda er hann nú minnsti stjórnmálaflokkurinn í landinu.

Hér á landi hefur að undanförnu aukist skilningur á því, að það, sem öðru fremur hefur veikt undirstöðu efnahagslífsins og um leið rýrt lífskjörin, eru of mikil afskipti ríkisins, of mikil ríkisumsvif. Ísland hefur raunar enga sérstöðu í þessum efnum. Víðast hvar í nágrannalöndum okkar leita kjósendur einnig nýrra leiða til að losna út úr þeim ógöngum sem stjórnmálamenn hafa ratað í þegar þeir lofa meiru en hægt er að efna, reisa sér minnisvarða sem síðan eru borgaðir með skattpeningum almennings í landinu.

Innan Sjálfstfl. hefur undanfarin misseri átt sér stað stefnumörkun í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar þar sem nýrra viðhorfa gætir. Í þeirri stefnu situr í fyrirrúmi trúin á manninn sjálfan, trúin á einstaklinginn sem tekur ákvarðanir um eigin hag, hefur frelsi til athafna og ber ábyrgð á verkum sínum. Í kosningabaráttunni verður tekist á um það, hvort þjóðin vill reyna nýjar leiðir og nýjar lausnir í stað þeirra sem gengið hafa sér til húðar, hvort hún vill djarfar leiðir eða áframhaldandi ríkisumsvifastefnu.

Sjálfstfl. hefur heitið því að leggja niður þá skatta sem fráfarandi ríkisstj. stofnaði til af frábæru ímyndunarafli. Slík skattalækkun kemur að sjálfsögðu niður á opinberum rekstri. Þess vegna er nauðsynlegt að endurskoða markmið opinberra stofnana og spyrja þeirrar grundvallarspurningar, hvort ekki sé ástæða til að leggja sumar þeirra niður. Opinberar stofnanir hafa tilhneigingu til að öðlast eigið líf, rétt eins og þær séu okkur sendar af æðri máttarvöldum, en ekki mannanna verk, kostaðar af almenningi. Í fjármálum ríkisins ber að leggja áherslu á verkefnin, en ekki stofnanirnar. Við skulum því spyrja fyrst: Geta einstaklingarnir leyst verkefnin sjálfir? Hvað um starfandi fyrirtæki landsmanna? Eru þau ekki hæfari en ríkisvaldið til að sinna viðkomandi verkefni? Eða sveitarfélögin? Eru þau ekki betur í stakk búin en stofnanir ríkisins? Þannig skulum við spyrja okkur áður en við tökum þann kost að láta ríkisvaldið framkvæma hlutina á okkar kostnað.

Sjálfstæðismenn vilja frjálsa verðmyndun sem með samkeppni færir neytendum lágt vöruverð og stýrir framleiðslunni á arðsamar brautir. Íslendingar hafa reynt svokallaða verðstöðvunarleið í 7 ár samfleytt með þeim árangri að verðlag hefur aldrei vaxið hraðar.

Hér gefst ekki á fáeinum mínútum frekara tækifæri til að tíunda einstök atriði úr efnahagsstefnu Sjálfstfl.

Á tímum svokallaðrar olíukreppu komumst við ekki hjá því að nýta orkulindir okkar hraðar en við höfum gert hingað til. Við verðum að gera okkur ljóst, að lífskjörin verða ekki bætt í kjarasamningum, heldur aðeins með því að þjóðin snúi sér að þeirri atvinnustarfsemi sem mest gefur í aðra hönd. Orkulindirnar eru lykillinn að bættum lífskjörum og þær verðum við að virkja og nýta til útflutnings einir sér eða í samningum við erlenda aðila.

Herra forseti. Sú kosningabarátta, sem fram undan er, mun annars vegar einkennast af uppgjöri vinstri flokkanna innbyrðis og hins vegar af sameiginlegum ótta þeirra við hugsanlegan sigur Sjálfstfl., sem spáð er velgengni í næstu kosningum. Þetta sést m.a. á ummælum Lúðvíks Jósepssonar, hv. þm., þegar hann hótar öllum illum látum að loknum kosningum, eftir kosningarnar sjálfar sem sagt. Sífellt verður á næstu vikum klifað á því við kjósendur, að þjóðinni stafi stórhætta af íhaldsstjórn, eins og það er orðað af þeim kraftaverkamönnum sem nú hafa hrökklast frá völdum. Þjóðin á í raun aðeins eitt svar við þessum hótunum og það er að kjósa Sjálfstfl., þannig að í fyrsta skipti verði mynduð meirihlutastjórn eins stjórnmálaflokks sem ber einn ábyrgð á verkum sínum. Sá kostur er nú nærtækari en oftast áður.