16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Nú er það endanlega staðfest, að forysta Alþfl. hefur tekið þá örlagaríku ákvörðun að tengjast Sjálfstfl., fyrst með þeirri bráðabirgðastjórn sem tekið hefur við völdum með ábyrgð Sjálfstfl., óformlegt bandalag í komandi kosningum og samstjórn-viðreisnarstjórn-að kosningum loknum.

Það þýðir ekkert fyrir þessa flokka að sverja þetta af sér nú. Samruni þeirra speglast í athöfnum þeirra síðustu daga. Alþfl. hefur algerlega brugðist þeim mörgu, ekki síst launþegum, er trúðu glamuryrðum frambjóðenda hans í síðustu kosningum. Grundvöllur þess stjórnarsamstarfs, sem hann hefur hlaupist frá, var fyrst og fremst að tryggja atvinnuöryggi, koma fram umbótamálum í félagsmálalöggjöf, ekki síst fyrir láglaunafólk og þá sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni, elli- og örorkulífeyrisþega, reyna að slá skjaldborg um kaupmátt launa og stefna að réttlátari tekjuskiptingu í landinn, tryggja rekstrargrundvöll undirstöðugreina atvinnulífsins.

Að þessum málum öllum var fyrrv. ríkisstj. að vinna. Það hefði verið kraftaverkaríkisstj. sem hefði getað komið öllum þessum verkefnum í höfn á fyrsta ári stjórnarathafna, það hljóta allir að viðurkenna.

Fyrrv. stjórnarflokkar höfðu alla möguleika til að ná góðum árangri í öllum þáttum framfaramála: þingstyrk, traust launþegahreyfinga í landinu sem studdu þessa ríkisstj. til síðasta dags. Hvað brást?

Í fyrsta lagi: Tortryggni Alþfl. og Alþb. hvors í annars garðs virtist óyfirstíganleg. Þessi tortryggni og keppni, sem fór fram bæði innan ríkisstj. og í fjölmiðlum, var í raun alvarleg aðför að öllum stjórnarathöfnum.

Í öðru lagi lét þingflokkur Alþfl. alls ekki að stjórn. Ráðh. hans voru því frá fyrsta degi algerir bandingjar þingflokksins sem virtist ekki vilja virða eðlilegar samstarfsreglur. Ég nefni sem dæmi um siðfræði Alþfl. afgreiðslu fjárl. 1979. Þm. hans ákváðu að samþykkja fjárl. við lokaafgreiðslu, en jafnhliða lögðu 9 þm. fram brtt. sem gekk þvert á fjárl. og hefði í raun gert þau marklaus. Skýring þessa er að þeirra dómi ósköp einföld. Við stöndum við að samþykkja fjárl. eins og meiri hl. fjvn. hefur gengið frá þeim. En hvernig? Jú, 5 okkar, ráðh. og fjvn.- menn, segja já, það nægir. Hinir 9 máttu leika sér. Þetta sýnir glögglega ábyrgðarleysið og við hvaða erfiðleika fyrrv. stjórn varð að búa. Auðvitað gáfust þessir 9 upp og drógu til bráðabirgða tillöguna til baka. Það var eftir öðru.

Framsfl. taldi það skyldu sína að reyna eftir megni að fá flokkana til að snúa bökum saman um skynsamlegar aðgerðir við stjórn þjóðmála, byggja upp stjórnarathafnir og stefnu til að tryggja þjóðarhag og ráðast í alvöru að vandamálunum. Stjórnarflokkarnir höfðu haft til meðferðar mótaða stefnu Framsfl. um lausn efnahagsvandans, hjöðnun verðbólgu í áföngum.

Það hafði ekki verið fullreynt um samkomulag. Þess vegna er brotthlaup Alþfl. ábyrgðarleysi og uppgjöf. Eru ummæli hæstv. félmrh., Magnúsar H. Magnússonar, gleggsta vitnið um það.

Mörg merk umbótamál voru á lokastigi hjá fyrrv. ríkisstj. sem við þm. Framsfl. höfum tekið þátt í að móta og fá fram.

Ég nefni heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, þar sem lögð verði megináhersla á tekjujöfnunaráhrif tryggingakerfisins og að tryggingalöggjöfin verndi og styðji þá þjóðfélagsþegna sem þurfa á samfélagsaðstoð að halda hverju sinni. Við þessa endurskoðun sé gerð úttekt á kjörum og aðbúnaði aldraðra og öryrkja sem miði að því að tryggja jafnræði óháð búsetu, — úrbætur í atvinnumálum aldraðra, — lögð áhersla á að bæta aðstöðu þeirra sem eru líkamlega og andlega fatlaðir, — löggjöf um fæðingarorlof og verðtryggðan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Þáltill. okkar þm. Framsfl. um þetta mál var samþ. á síðasta þingi. Mál þetta er nú í fullum gangi. Frá þessu hleypur Alþfl.

Löggjöf um eftirlaun aldraða átti að ná fram að ganga á þessu haustþingi, eitt mesta réttlætismál þingsins til að tryggja um 4000 landsmönnum, sem ekki eru í lífeyrissjóði, lífeyri. Frá þessu máli hleypur Alþfl.

Það er skoðun mín, að málefni aldraðra hafi ekki fengið þá meðferð hér á hv. Alþ. sem vera ber. Aldrað fólk í landi okkar á í vök að verjast. Okkur ber heilög skylda til að taka höndum saman og tryggja viðunandi lífsafkomu þessa fólks sem hefur skilað sínu dagsverki með lífi sínu og starfi. Tryggingakerfi okkar á þessu sviði er of veikt og meiri samræmingar um félagslegar aðgerðir er þörf. Þetta var vissulega hlutverk fyrrv. ríkisstj.

Ég nefni nýja stefnu í húsnæðismálum. Í samstarfsyfirlýsingu fyrrv. stjórnarflokka segir svo um húsnæðismál:

„Áhersla verði lögð á félagsleg sjónarmið í húsnæðismálum. Sett verði löggjöf um réttindi leigjenda. Löggjöf um verkamannabústaði verði endurskoðuð. Stefnt verði að því að hækka húsnæðislán og létta fjárhagsbyrði með lengingu lánstíma.“

Félmrh. Alþfl. hafði það hlutverk að koma þessari stefnu í framkvæmd. Hann dagaði uppi með þetta mikilvæga mál, en hafði þó komið í fjölmiðla og skýrt frá stjfrv. um húsnæðislöggjöf. Samkv. lýsingu ráðh. í fjölmiðlum á þessum mikilvæga lagabálki er í vissum grundvallaratriðum verið að stíga skref aftur á bak og raunar gegn stefnuyfirlýsingu fyrrv. stjórnarflokka. í dag er lánstími almennra húsnæðislána 26 ár. Boðskapur ráðh. er að lánstími verði styttur í 21 ár, almenn lán hækki í 80% á 10 árum og vextir 3.5%, verðtrygging 100%.

Ég tel að þetta sé röng stefna sem auki erfiðleika húsbyggjenda stórlega, ekki síst unga fólksins sem allir vilja styrkja til að koma sér upp húsnæði. Mín skoðun er sú, að lán til frumbyggjenda eigi að hækka strax í 80%, en til annarra á næstu 5 árum, lánstíminn verði ekki styttri en 30 ár og vextir 2–2.5% með 100% verðtryggingu. Þetta er yfirlýst stefna Framsfl. sem ítrekuð var á síðasta flokksþingi, og það er öruggt mál að félagslegar umbætur felast ekki síst í slíkum breytingum.

Að sjálfsögðu eru ýmis atriði í væntanlegu frv. til bóta og ný stefna í húsnæðismálum: markvissari útlán til ýmissa aðila, svo sem öryrkja og fatlaðra, íbúða fyrir aldraða og elliheimila, endurbætur á eldra húsnæði, orkusparnaður o.s.frv.

Það er skoðun mín að félagslegar íbúðabyggingar heyri fyrst og fremst undir verksvið sveitarfélaga. Það sannar reynslan. Þess vegna eiga sveitarstjórnir að vera ráðandi afl um félagslegar byggingar. Ég treysti því, hvernig sem með mál fer, að ný löggjöf um húsnæðismál verði raunverulega ný stefna í húsnæðismálum. En frá þessu hleypur Alþfl.

Ég nefni orkumálin. Fyrrv. ríkisstj. hefur unnið ötullega að framförum í orkumálum. Stefna okkar framsóknarmanna er að tryggja öllum landsmönnum næga og örugga raforku á sambærilegu verði. Jöfnun orkuverðs, bæði til húsahitunar og annarra nota, er réttlætismál, eitt stærsta byggðamál á Íslandi í dag. Ég vona að þjóðin beri gæfu til að standa saman um skynsamlega lausn þessara mála. Það er þýðingarmikið að eyða ekki kröftum í deilur um svo sjálfsagt framfaramál. Þéttbýli og dreifbýli verða að taka höndum saman um þetta stórmál.

Herra forseti. Það er skoðun mín, að í stað þess að gera Alþingi óstarthæft nú á haustdögum og efna til kosninga og ýfinga í okkar litla þjóðfélagi hefði verið þjóðhollara að snúa sér að vandamálum er hvarvetna bíða úrlausnar. Þjóðin hefur ekki efni á slíku ábyrgðarleysi. Olíukreppan, sem skekur efnahagskerfi stórþjóðanna, þrýstir sér inn í okkar veikbyggða efnahagskerfi, hefur sneggri og víðtækari áhrif hér á landi en hjá flestum öðrum þjóðum. Við þessu verður að bregðast með samstilltu átaki. Við megum engan tíma missa.

Í þjóðhagsspá fyrir árið 1980 voru sett fram viðfangsefni og markmið í efnahagsmálum. Á sviði atvinnumála ber fjögur verkefni hæst: Að stuðla að hagkvæmri nýtingu nytjafiskstofnanna við landið og efla fiskiðnaðinn. Að tryggja hæfilega framleiðslu landbúnaðarafurða og æskilega nýtingu landgæða. Að auka framleiðslu og nýtingu innlendrar orku og draga úr innflutningi olíu. Að greiða fyrir vexti innlends iðnaðar, bæði til útflutnings og innanlandsþarfa. Var Alþfl. á móti þessum markmiðum?

Framsfl. gengur til komandi kosninga með skýra og ákveðna stefnu. Hann hefur reynt að ná fram stjórnarathöfnum með ábyrgð og unnið að öllum málum af fullum drengskap. Við framsóknarmenn munum verja af öllu afli þann árangur er náðst hefur í uppbyggingu og framfaramálum þjóðarinnar. Við gerum okkur fulla grein fyrir því, að ný öfl í þjóðfélaginu vilja rífa niður uppbyggingu liðinna ára, boða frjálst markaðskerfi og vilja snúa baki við og viðurkenna ekki eflingu íslenskra atvinnugreina í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, vilja láta fjármagnið taka öll völd í okkar þjóðfélagi. Þarna virðast sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn á Íslandi vera orðnir jábræður.

Móti þessari stefnu munum við berjast af alefli. Ég heiti á frjálslynt og félagslega sinnað fólk á Íslandi að taka nú höndum saman og efla Framsfl. svo að áhrif hans á Alþingi verði nægjanlega sterk til að koma fram og standa vörð um framfaramál og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar.