16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, beindi þeirri spurningu til mín, hvort ég vildi bera ábyrgð á hæstv. dómsmrh. Svar mitt er þetta: Ég frábið mér alla ábyrgð bæði á orðum hans og gerðum.

Hin ógæfusamlega sigling vinstri stjórna minnir mig á ljóð Bólu-Hjálmars:

Sálarskip mitt fer hallt á hlið

og hrekur til skaðsemdanna,

af því það gengur illa við

andviðri freistinganna.

Sérhverjum undan sjó ég slæ,

svo að hann ekki fylli,

en á hléborðið illa ræ,

áttina tæpast grilli.

Andviðri freistinganna lék þá illa fyrir kosningarnar í fyrra, Alþfl. og Alþb. Báðir féllu þeir fyrir þeirri freistingu að lofa því sem þeir vissu — eða áttu að vita — að þeir gætu ekki staðið við, enda var kosningaárið ekki liðið í aldanna skaut þegar þeir höfðu báðir tveir brugðist fyrirheitinu um samningana í gildi og loforðið um aukinn kaupmátt launa var farið veg allrar veraldar.

Á Alþingi í fyrravetur leið varla sú vika, stundum varla sá dagur, að þm. þessara tveggja flokka rynnu ekki saman og rifust um flest það sem ríkisstj. þeirra var að fást við að leysa. Þeir stóðust ekki þá freistingu að fletta hvor ofan af öðrum, og var þeim nokkur vorkunn því af mörgu var að taka. En um leið og þeir gengu svo illa við „andviðri freistinganna“ skorti ekki mannalæti og þeir létust hafa ráð undir hverju rifi. Í reynd hefur allt þetta atferli þeirra minnt á orð einnar af leikritapersónum Oscars Wilde, sem mælti: „Ég get staðist allt nema freistingar.“

Sannleikurinn er sá, að til þess að stjórna landi þarf meira en mannalæti, það þarf manndóm. Og til þess að glíma við Glám verðbólgunnar gagnar ekki orðagjálfur og umsigsláttur, heldur þarf ábyrgð og áræði. Þegar Grettir glímdi við Glám forðum daga, þá hljóp Grettir sem harðast í fang þrælnum og spyrnti báðum fótum í jarðfastan stein. Þá kiknaði Glámur á bak aftur og féll öfugur út, en Grettir á hann ofan. Ef einhver von á að vera til þess að ráða við hina válegu verðbólgu duga ekki vettlingatök, heldur föst tök ein. Það duga engir loftkastalar, heldur raunsæi og jarðsamband. Það þarf að spyrna báðum fótum í jarðfastan stein.

Á liðnu vori voru samþ. á Alþ. að tillögur hæstv. fyrrv. forsrh. efnahagslög sem voru athyglisverð á ýmsa lund. Þessi lög voru að meginstefnu óskabarn Alþfl. Með þeim átti að tryggja að verðbólgan í ár yrði ekki yfir 30–35%. Eftir örfáar vikur var hún komin upp í 55%! Eitthvað hefur gengið hér úr skorðum. Einhver bremsa hefur bilað, jarðsamband hefur brostið, það hefur orðið straumrof.

Það er reynt að skýra þetta og afsaka með verðhækkun á olíu. Það fær ekki staðist af tveim ástæðum. Olíuhækkanir lágu fyrir þegar efnahagslögin voru afgreidd, en auk þess eru olíuhækkanir aðeins um 7% af 55% verðbólgu eða u.þ.b. áttundi partur. Þó að olían hefði ekki hækkað væri hér óðaverðbólga engu að síður. Verðbólgan nú er því fyrst og fremst af innlendum toga spunnin, og einmitt af þeirri ástæðu verður vart vonleysis hjá landsmönnum. Menn virðast trúa því að verðbólgan hér á landi sé varanlegur og ólæknandi sjúkleiki. Því miður hafa tilraunir til að veita henni viðnám ekki tekist nú á síðari árum. En þó að svartsýni manna sé skiljanleg er hún röng, þessi staðhæfing um að verðbólgan sé ólæknandi. Við höfum í sögu okkar dæmi um árangursríkar aðgerðir. Þær aðgerðir og sá árangur ættu að eyða vonleysi og auka bjartsýni. Ég tel nauðsynlegt að rifja hér upp í örfáum dráttum árangurinn af hinum víðtæku efnahagsaðgerðum viðreisnarstjórnarinnar 1960 og á næstu árum á eftir.

1) Verðbólgan var stöðvuð, jafnvægi var náð í efnahagsmálum inn á við og út á við og fyrsta árið, 1960, hækkaði framfærsluvísitalan aðeins um 3%. Á fyrstu árunum, 1960–1964, var meðaltalshækkun um 10% á ári.

2) Full atvinna var öll þessi ár. Ekkert atvinnuleysi. Allar hrakspár um að viðreisnaraðgerðirnar mundu leiða til atvinnuleysis reyndust rangar.

3) Á kaupmátt launa er nú talið að réttasti mælikvarðinn sé kaupmáttur ráðstöfunartekna. Þetta er nú orðinn viðurkenndur mælikvarði vegna þess að hann tekur m.a. beina skatta með í dæmið. Á þessum árum varð aukning á kaupmætti ráðstöfunartekna sem hér segir: 1961 1%, 1962 11%, 1963 12%, 1964 10%. Heildaraukning kaupmáttar á þessu tímabili varð því um 37%.

Þegar hv. 2. þm. Reykv., Svavar Gestsson, vitnaði í að atvinnuleysi hafi orðið hér á árunum 1968 og 1969 verður að hafa í huga að orsökin var eingöngu verðfall og sölutregða á erlendum mörkuðum sem íslenskum stjórnvöldum var gersamlega um megn að ráða við. Atvinnuleysið 1968 og 1969 stafaði engan veginn af viðreisnarráðstöfunum.

Ég hef nefnt þetta dæmi hér til þess að afsanna þá svartsýniskenningu að verðþenslan á Íslandi sé ólæknandi og óviðráðanleg. Stjórnmálasagan sýnir þvert á móti að það hefur tekist að ráða niðurlögum hennar á tilteknu tímabili. Þetta er hægt að gera aftur.

Auðvitað hafa aðstæður breyst. Þótt í mörgum grundvallaratriðum megi beita sömu aðgerðum og þá þarf að laga þær að breyttum tímum og bæta öðrum við. Það mun Sjálfstfl. gera. Og grundvöllurinn er að nauðsynlegar aðgerðir verði framkvæmdar með kjarki og festu.