16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hlustendur hafa nú í nokkrar klukkustundir heyrt hvernig hjúin á kærleiksheimili vinstri stjórnar kveða saman. Það verður að segja eins og er, að það er leiðinlegur kveðandi, en um margt lærdómsríkur. Í ræðu sinni staðfesti hæstv. núv. forsrh. algert getuleysi fyrrv. ríkisstj. í baráttunni við verðbólguna, sem væri, eins og hann kvað að orði, undirrót spillingar og misréttis.

Ég leyfi mér að taka orð hæstv. dómsmrh. trúanleg, a.m.k. fyrstu dagana sem hann situr í því sæti. Hann lýsti því yfir að pólitísk svik hefðu blasað víð, upplausn og spilling, þeir hefðu beitt refskap á refskap ofan, Ólafur Jóhannesson og Lúðvík Jósepsson, og aldrei ætlað að standa við orð sín. Stjórnarsáttmálinn hefur verið marklaust plagg. Ríkisstj. gat ekki og vildi ekki standa við markmið sín, sagði hæstv. núv. dómsmrh. Og svo fór hæstv. ráðh. að lokum fram á lítilæði við þjóðina: að hún veitti Alþfl. endurnýjað og aukið traust.

Af mörgu er að taka af því sem fram hefur komið. Ragnar Arnalds og Steingrímur Hermannsson spurðu hvers lags stjórn þetta væri, og Ragnar Arnalds vildi dæma hana meirihlutastjórn, enda þótt það lægi fyrir að bæði formaður Sjálfstfl. og Alþfl. lýstu því yfir að ekki yrði um slíka stjórnarmyndun að tefla og því fullreynt að af því gat ekki orðið. Og því er það að Sjálfstfl. ákvað að verja minnihlutastjórn Alþfl. vantrausti.

Geir Hallgrímsson minnti á máltækið: Allt er þegar þrennt er. — Á rúmum tveimur áratugum hafa gengið yfir þjóðina þrjár plágur í gervi vinstri stjórna og er nú mál að linni. Í árslok 1958, þegar fyrsta vinstri stjórnin lagði upp laupana, hefðu menn látið segja sér tvisvar þrisvar án þess að trúa að ónýtari stjórn ætti eftir að setjast að völdum á Íslandi. Sú hefur þó orðið raunin á og ekki ein, heldur tvær og hver annarri stórtækari á afglöpin.

Á árunum 1950 og fram til 1955 hafði skapast allgott jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Eftir að fyrsta vinstri stjórnin á lýðveldistímanum hafði setið í rúm tvö ár við stjórnvölinn reið yfir holskefla óðaverðbólgu. Þetta var játað af henni sjálfri við stjórnarslitin þá og þótti karlmannlegt, enda eru menn óvanir því að af hreinskilni sé mælt í þeim herbúðum. Þetta var þjóðinni mikill lærdómur og því varð það m.a. til þess að þjóðin hafnaði forustu vinstri stjórna um langa hríð eftir það.

1971 tókst vinstri stjórn enn að ná völdum á Íslandi og hrunadansinn hófst á nýjan leik. Alþfl. átti að vísu ekki aðild að þeirri stjórn, en sú reynsla, sem fengist hefur af störfum hans undanfarna 13 mánuði, bendir eindregið til þess að enn ógæfusamlegar hefði til tekist ef hann hefði átt þar aðild að. En þessi stjórn gafst upp í júnímánuði 1974 og þá blasti við enn eitt þrotabúið, enn ömurlegra en það sem menn höfðu haft fyrir augum árið 1958. Verðbólgualdan reis í 54% og við þennan verðbólgudraug hefur þjóðin glímt fram til þessa dags, enda þótt ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar tækist að kveða drauginn niður til hálfs.

Það er nálega útilokað að ná því hástigi lýsingarorða sem hæfa þeirri óstjórn sem íslenska þjóðin hefur mátt þola í næstliðna 13 mánuði. Það er næstum því sama hvaða mælistika er borin við, þær reynast allar of stuttar. Verðbólgan æðir stjórnlaust áfram og er nú í áður óþekktum hæðum, 63%, og stefnir auðvitað í 100% ef svo héldi fram sem horfði.

Fyrrv. fjmrh. minntist á það, að það væri svo sem ekki mikill vandi að snara út eins og 2 milljörðum vegna aðlögunargjalds iðnaðarins því að mikið rúmaðist aukreitis innan fjárl., en hann lét þess síðar getið að allar forsendur þeirra væru miðaðar við 30% verðbólgu, enda þótt fyrir liggi, ef hann réði áfram, að hún næði 100%.

En nú mun Sjálfstfl. taka við stjórn þjóðarskútunnar innan tíðar. Til þess að þjóðin geti gengið að kjörborðinu til þess að kveða upp dóm yfir óstjórnarmönnum hefur Sjálfstfl. tekið það til bragðs að binda nokkra krata við stýri og reiða, að þeir aki seglum þar um hríð — örskamma hríð, en vill að engu öðru leyti ábyrgð á þeim bera.

Þingrofi og kosningum varð ekki komið fram með þingræðislegum hætti nema annaðhvort Sjálfstfl. eða Alþfl. myndaði minnihlutastjórn, þar sem Framsókn og Alþb. neituðu að rjúfa þing fyrir hræðslu sakir við kosningar, hafandi að viðbáru að kosningar væru óframkvæmanlegar og jafnvel mannhættulegar að hausti til. Það er auðvitað þjóðarnauðsyn að kosningar fari fram hið fyrsta svo að taka megi til höndum við nýja skipan þjóðmála. Þá lífsnauðsyn létu sjálfstæðismenn sitja í fyrirrúmi þegar þeir féllust á að verja minnihlutastjórn Alþfl. vantrausti. Það er sjálfstæðismönnum að vísu ákaflega óskapfellt, svo að ekki sé meira sagt, eins og nú standa sakir, að vinna slík verk. En nauðsyn brýtur lög. Sjálfstfl. vill enga aðra ábyrgð bera á þessari minnihlutastjórn en sem nægir til að ná fram þingrofi og kosningum. En það er allur varinn góður, eins og þingflokkur Alþfl., sem núna drottnar yfir öllum rn. á þessu kalda landi, er skipaður. Þess vegna hefur Sjálfstfl. sett fram skilyrði fyrir að verja minnihlutastjórnina vantrausti. Við höfum bundið ráðh. við stýri og reiða svo að þeir geri engar vitleysur þessar örfáu vikur sem þeir hírast um borð. Við treystum Alþfl. ekki vegna starfa hans í vinstri stjórn. Við treystum honum ekki og þjóðin treystir honum ekki vegna fádæma svika við öll þau loforð sem hann gaf fyrir síðustu kosningar.

Í kosningunum 2. og 3. des. n.k. verður kosið um tvennt: stefnu Sjálfstfl. annars vegar og störf og stefnu vinstri flokkanna hins vegar, allra þriggja. Sjálfstfl. kvíðir engu um þau úrslit. Þegar Sjálfstfl. tekur við forustu í þjóðmálum eftir næstu kosningar mun hann leggja höfuðáherslu á að snarsnúið verði frá eyðslustefnunni til ráðdeildar og sparnaðar. Meginmarkmiðið er að eyða ekki umfram það sem aflast, ella vinnum við aldrei bug á verðbólgunni. Við þurfum að létta á skuldabyrðinni við útlönd og greiða upp óreiðuskuldir ríkisins inn á við, jafnframt því sem skattar verði lækkaðir, og mega menn af því sjá að ítrasta sparnaði verður beitt þar sem allar óarðgefandi framkvæmdir verða að bíða um hríð þar til jafnvægi er náð. Skattalækkunin skilar sér aftur margfaldlega í stórauknu framtaki, og gefið verður meira frelsi í hvívetna. Sparifé verður verndað gegn verðrýrnun og íslenska krónan efld til þess að vera traustur gjaldmiðill.

Það þarf ekki að taka langan tíma að ná tökum á stjórn efnahagsmála ef þjóðfélagsþegnarnir taka höndum saman undir traustri forustu. Það mun sjálfsagt heyrast hljóð úr horni einhverra hagsmunahópanna, þeirra pólitísku a.m.k., þegar hrundið verður úr vör nýju stjórnarfleyi. En Sjálfstfl. mun ekki láta hrekja sig af leið þótt misvindasamt verði, ef hann fær nægjanlegt fylgi þeirra, sem úrslitum eiga að ráða í lýðræðisríki, kjósendanna sjálfra.