16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kem hér upp hryggur í huga og særður eftir þá ræðu sem flokksmaður minn og félagi, hv. 2. þm. Norðurl. e., sá sig tilneyddan að flytja hér. Það fer ekki á milli mála að hæstv. núv. dómsmrh. á mikinn þátt í því hvernig mál af þessu tagi hafa þróast í þjóðfélaginu. Það er hugarfar sem ríkir ekki lengur, að opinberir embættismenn, þeir a.m.k., þegi yfir þeim leyndarmálum, sem þeir kunna að komast að sem opinberir starfsmenn, þangað til réttir aðilar — í þessu tilfelli dómskerfi landsins — hafa kynnt sér málin til hlítar.

Það, sem hér hefur verið gert að umræðuefni, var ég búinn að heyra áður en þau mál voru hæstv. forseta Sþ. kunn, því hann upplýsti sjálfur að það umslag, sem geymdi leyndardóminn, hefði ekki verið opnað. Það eru ríkisendurskoðendurnir sem ber að rannsaka fyrst í þessu tilfelli. Ég skora á hæstv. ráðh. að standa við þau orð, sem hann lét hér falla, og láta athuga þetta mál til hlítar.

Ég geri ráð fyrir að dagskrármálið sé enn þá á dagskrá, og með leyfi forseta held ég þá áfram með það mál. Hæstv. fjmrh. kom hér sakleysið uppmálað. Satt að segja, eftir kynni af honum sem þm. og þær umræður sem farið hafa fram hingað til, hélt ég að hann ætti ekki til sakleysið uppmálað. En hann talaði í léttum tón og sagði: Enginn bóndi hengir allar sínar girðingar á einn staur. Það veitir ekki neina vörn. — Við getum allir tekið undir það. En þessi orð minntu mig á sögu af mætum manni úr bæjarlífinu á sínum tíma og ég held að hún eigi ágætlega við Alþfl. í sigurvímu hans í dag. Maðurinn lá dauðadrukkinn í götunni og var spurður: „Af hverju ferð þú ekki heim að sofa, vinur? Af hverju sefur þú hér á götunni?“ Þá leit maðurinn upp og svaraði: „Það vantar stakket, góði. Það vantar meira stakket, góði.“ Það er einmitt það sem Alþfl. vantar. Hann vantar „stakket“. Hann kemst ekki lengra. Hann verður að fara sömu leið til baka.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort þm. hafa tekið eftir því, að frá því að Alþfl. fór úr ríkisstj. hefur veður verið blítt og gott. Það hefur verið sólskin og logn alla daga og kvöldfagurt. Höfuðborgin hefur skartað sínu fegursta og fólk notið veðurblíðunnar að loknum vinnudegi kvöld eftir kvöld og ekki þurft að hafa með sér yfirhafnir. Slíkt gerist sjaldan um hásumar á Íslandi.

En hafið þið, hv. þm., tekið eftir því, að nú, daginn sem ný ríkisstj. er mynduð, skipast veður í lofti og þessi dagur er einn sá dimmasti undanfarnar vikur? Mun þetta ekki nokkuð táknrænt?

Íslenska þjóðin er gott fólk og dugmikið, en býr við erfiðar aðstæður borið saman við veðráttu og auðlindir annarra þjóða. Því ber okkur, sem gegnum trúnaðarstörfum á Alþingi Íslendinga, skylda til að sjá þjóðinni fyrir góðri stjórn til forustu í landsmálum. Ég held að land og þjóð eigi betra skilið en þá ríkisstj. sem tók við völdum í dag.

Aðdragandinn að nýloknum stjórnarskiptum líkist helst valdayfirtöku án meiðsla, líkt því sem víða gerist þar sem lítill, sterkur kjarni ævintýramanna nær með klókindum valdaaðstöðu. Þrátt fyrir allar yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið í sambandi við valdatöku Alþfl., er þó langt frá því að hún hafi farið hljóðlaust fram. Og þótt líkamsmeiðsl hafi engin komið fram, þá eru til menn í sárum.

Sjálfstfl. hefur tekið að sér að verja hina nýju ríkisstj. falli. Ég hefði vonað að Sjálfstfl. biðu önnur og meiri verkefni í stjórnmálasögu þjóðar okkar á þessu ári.

Eins og málum er nú háttað ætla ég ekki að endurtaka neitt það sem sagt hefur verið um verðbólguna, hverjum hér er um að kenna o.s.frv. eða hvaða flokkur á mesta sök á henni.

Það er augljóst að sú ríkisstj., sem nú hefur tekið að sér að sitja í tvo mánuði, leysir engin mál, vinnur engin afrek. Það hefur hinn nýi forsrh. sagt í dag. Hans orð eru að hann og ráðherrarnir muni aðeins afgreiða þau mál sem berast á borð þeirra frá degi til dags. Þeir afgreiða mál eins og búðarmenn vörur þegar viðskiptavini ber að garði.

Frá því fráfarandi ríkisstj. tók til starfa hafa þm. Alþfl. sýnt, bæði hér á hv. Alþ. og utan þess, að samstarf milli vinstri flokkanna var ekki tímabært, og ég harma það, að nú skuli svo komið að Sjálfstfl. hefur tekið að sér að verja falli stjórn óróa- og hreinsunardeildar Alþfl., — hlutverk sem gæti orðið Sjálfstfl. ofviða.

Alþfl. er eins og íslensk veðrátta, rok og blíða.

Við sjálfstæðismenn hljótum að vona að tímabilið til kosninga verði okkur hliðhollt, að kjósendur geri sér ljóst nú að allar samsteypustjórnir hafa endanlega gefist upp, hvort sem um vinstri stjórnir hefur verið að ræða eða samstarfsstjórnir vinstri flokkanna og Sjálfstfl. Það eina, sem hin íslenska þjóð hefur aldrei reynt, er eins flokks stjórn á Íslandi. Eftir misheppnaðar tilraunir vinstri flokkanna s.l. hálft annað ár á þjóðin eina von og sú von er meirihlutastjórn Sjálfstfl. Hafni þjóðin meirihlutastjórn Sjálfstfl. nú upphefst nýtt stjórnartímabil samsteypustjórna með öllum þeim hrossakaupum og baktjaldamakki sem því fylgir.

Þótt stríðsyfirlýsingar verkalýðsforustunnar dynji á Sjálfstfl. og eigi að hræða kjósendur frá honum, þá óttast Sjálfstfl. ekki það stjórnartímabil sem við honum blasir að kosningum loknum nái hann hreinum meirihluta — trausti landsmanna. Sjálfstfl. hefur fylgi meðal verkalýðshreyfingarinnar. Sjálfstfl. er stærsti verkalýðsflokkurinn þótt annað komi fram í málflutningi verkalýðsforustunnar.

Við sjálfstæðismenn göngum til þeirra verka, sem fólkið í landinu felur okkur, með sanngirni og hreint hugarfar að vopni. Sanngirni og heilbrigð hugsun hlýtur að verða slagorðum Alþb.-manna og annarra yfirsterkari í komandi kosningabaráttu.

Við, sem sitjum á Alþ. nú, munum bráðlega hverfa héðan. Sumir koma aftur að kosningum loknum, aðrir ekki.

Kosningaorrustan fram undan verður hörð, kannske miskunnarlaus, en ég vona heiðarleg. Vonandi verður nýtt Alþingi færara um að veita þjóðinni þá forustu sem góð þjóð á skilið en það sem nú er að kveðja.

Nú reynir á það að sjálfstæðisfólk standi saman í órjúfandi fylkingu í þeim átökum, sem fram undan eru, og með vinnu sinni og málflutningi hrífi með sér fjöldann á bak við sverð og skjöld þeirra sem gera rétt, en þola ekki órétt — Sjálfstfl.