11.10.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

Lausnarbeiðni ríkisstjórnarinnar

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hlýt fyrst að vekja athygli á því, að það er með öllu óvenjulegt og óeðlilegt að umr. um pólitískan ágreining fari fram á Alþingi áður en þingsetningarfundi er lokið og Alþingi hefur kosið forseta. Það hefur hins vegar gerst áður og getur gerst að kosningu forseta sé frestað um einn dag. Af þessum ástæðum tel ég að umr. um pólitískan ágreining, sem allir landsmenn vita að er til og það í ríkum mæli, um það, sem hefur verið að gerast og er að gerast, við þær aðstæður, sem eru hér á Alþingi nú, séu öldungis óeðlilegar. Ég tel að yfirlýsing hæstv. forsrh. um það, að hann muni biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt, hafi verið eðlileg yfirlýsing og sjálfsögð, enda í rökréttu framhaldi af því sem gerist við slíkar aðstæður þegar ríkisstj. hefur tapað meirihlutavaldi. Það var líka fullkomlega eðlilegt við þessar aðstæður, að hann skýrði frá því, vegna hvers hann teldi ekki vera möguleika á því að verða við kröfu um þingrof. En umr., sem hér hafa orðið að öðru leyti um þann ágreining sem uppi er um málsmeðferð, þ.e.a.s. um það, hvort núv. stjórn hefði átt að rjúfa þing og efna til kosninga, — umr. um það atriði eru hér óeðlilegar. Ég geri ráð fyrir að umr. um þann ágreining fari fram næstu daga á Alþingi og eflaust utan Alþingis einnig.

Ég vil aðeins segja það í tilefni af því sem hér hefur verið sagt, að hér er farið samkv. réttum leikreglum, og sé meirihlutavilji á Alþingi fyrir því að þing verði rofið og efnt verði til kosninga, þá er ekkert handhægara fyrir slíkan meiri hl. sem að því stendur en að framkvæma það. Hitt er svo aftur annað mál, að það er öldungis óvenjulegt, þegar meiri hl. á Alþingi vill fá eitthvað fram, að hann heimti að minni hl. vinni verkið.

Ég skal ekki að öðru leyti lengja þessar umr. sem ég tel að eigi ekki að fara fram við þessar aðstæður, því að venja um það hefur verið nokkuð rík á Alþingi að hafa hér ekki almennar umr. áður en forseti hefur verið kjörinn, því að ella gætum við búið við það að halda uppi umr. jafnvel í nokkra daga án þess að forseti hafi verið kosinn og Alþingi væri fullkomlega sett á þann hátt sem lög og reglur standa til um.