19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að gera hér að umræðuefni hvort ríkissjóður stendur það vel eða ekki, að hann þurfi ekki á þeim heimildum að halda í janúarmánuði, sem farið er fram á í frv. til l. sem nú liggur hér fyrir um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimildir til lántöku árið 1980. En ég tel eðlilegt að verða við beiðni hæstv. fjmrh. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði. Ég tel einnig eðlilegt að slík heimild verði í gildi þar til fjárlög fyrir árið 1980 hafa verið samþykkt. Setji hv. Alþ. ákveðna dagsetningu á greiðsluheimildir til handa hæstv. fjmrh. eða ríkisstj. er Alþ. þar með að ákveða að fjárlög skuli samþykkja fyrir þá tilteknu dagsetningu, eða að öðrum kosti, ef Alþ. treystir sér ekki til að standa við þá dagsetningu, þá er ekki um annað að ræða en að framlengja bráðabirgðaheimildina til handa hæstv. fjmrh. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, því að enginn hv, alþm. ætlast til að fjmrh. sitji prókúrulaus við ríkiskassann. Sem sagt, ég lýsi stuðningi mínum við þetta frv., þó svo að ég sjái út af fyrir sig ekkert á móti því að setja ákveðna dagsetningu ef meiri hl. Alþingis er fyrir því. En ég geri það ekki að neinu aðalatriði. Má segja að ég geti haft sömu orð um 3. greinina, sem fjallar um lántöku, en þar segir í aths.: „Heimildar til lántöku er leitað til þess að halda megi áfram þeim verkefnum sem þegar eru hafin. Langveigamest verkefni eru. á sviði orkumála.“

Ég auglýsi eftir þeim hv. alþm., — ég hugsa að það geti varla verið meira en einn eða tveir, — sem léti sér detta í hug að stöðva þær framkvæmdir sem þegar eru í gangi.

Og það segir áfram í aths. um þessa 3. gr.: „Í lögum um heimild til lántöku fyrir árið 1979 fengu nokkrar stærstu hitaveitur landsins heimild til erlendrar lántöku til framkvæmda.“ Eigi þessar framkvæmdir að ganga með eðlilegum hætti á árinu 1980 er óhjákvæmilegt að afla nokkurs erlends lánsfjár. Við erum allir sammála um að leggja mikla áherslu á að virkja jarðhita á sem flestum stöðum. Hvernig á að gera þetta öðruvísi en með þeim hætti sem til var ætlast í fjárlögum fyrir 1979“? Ég skil það ekki og skil það síst af öllu að fyrrv. ráðh., sem hafa fjallað um þessi mál í ríkisstj., geri athugasemdir við þessa málsmeðferð.

Hér er líka farið varlega í sakirnar. Ég held að það sé reiknað með að lánsfjárþörfin verði í erlendum lántökum um 23 milljarðar. Það er undir helmingi af þeirri upphæð sem farið er fram á að tekin verði nú til þess að brúa það bil sem um er rætt, þannig að ég geri það ekki að neinu aðalatriði hvort hér verði sett ákveðin dagsetning eða ekki. Ég lít svo á, að ef ákveðin dagsetning verður sett sé Alþ. þar með að ákveða fyrir fram að fyrir þá dagsetningu skuli fjárlög vera samþ. Og ef hv. Alþ. treystir sér til að ganga frá samþykkt fjárlaga fyrir ákveðinn dag, þá eru starfshættir Alþingis á góðri leið með að breytast til hins betra.