21.02.1980
Neðri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hygg að þær athugasemdir, sem hæstv, forseti lét falla í garð hv. formanns félmn. Nd., séu algjörlega óþarfar, og ég vil í tilefni af þeirri umræðu, sem hér hefur farið fram, minna á það sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Vesturl., að allir flokkarnir, Sjálfstfl., Framsfl, og Alþb., hafa lýst sig reiðubúna til að gera það sem hægt er til að koma þessu máli áleiðis nú í dag og á morgun, eða áður en þingfrestun yrði gerð. Það er vegna þess að öll sveitarfélög í landinu bíða nú eftir því að geta gengið frá sínum fjárhagsáætlunum. Þau eru búin að bíða lengi eftir því að geta gengið frá sínum fjárhagsáætlunum og það er nauðsynlegt fyrir þau að fá úr þessu máli skorið, vegna þess að í frv. um breyt. á lögum um tekjustofna sveitarfélaga er gert ráð fyrir að aðlaga lögin um tekjustofna sveitarfélaga að hinum breyttu skattalögum, lögum nr. 40 frá 1978, ásamt síðari breytingum.

Ég lýsi mikilli ábyrgð á hendur Alþfl. ef hann ætlar nú að bregða fæti fyrir að unnt sé að koma þessu máli áleiðis á þeim sólarhringum sem nú eru að líða. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur honum. Enda þótt það sé auðvitað ljóst og rétt með farið hjá hæstv. forsrh. áðan, að ekki hafi verið rætt um þetta mál í upphafi vikunnar sérstaklega — eða fyrir helgina — þá mátti öllum ljóst vera, sem þekkja til mála hér á hv. Alþ., að þetta mál um tekjustofna sveitarfélaganna er nátengt og náskylt frv. um breyt. á tekjuskatti og eignarskatti sem mun hafa verið afgreitt frá hv. Ed. í gær. Og mér þykir slæmt til þess að vita, ef svo á að fara að verulegur dráttur verði enn á því að sveitarfélögin geti gengið frá sínum málum vegna þess að ekki hafi verið hægt að koma á fundi um málið í tíu manna þingflokki Alþfl.

Það mál, sem hér er um að ræða — og ég kemst ekki hjá því að fara út í það örlítið efnislega er það annars vegar að verið er að laga tekjustofnalögin að þeim skattalögum sem nú hafa verið afgreidd. Hins vegar er spurningin um það, hvort hv. Alþingi er tilbúið til þess að ganga nokkuð til móts við óskir Sambands ísl. sveitarfélaga að því er varðar verðtryggingu á tekjustofnum sveitarfélaganna, eins og það hefur verið kallað. Samband ísl. sveitarfélaga hefur hvað eftir annað samhljóða og ítrekað lagt fram óskir af þessu tagi. Í vinstri stjórninni, sem starfaði hér á árunum 1978–1979, var samstaða um það með öllum þáv. stjórnarflokkum, að óhjákvæmilegt væri að styðja nokkuð við bakið á sveitarfélögunum vegna þess hvað tekjustofnar þeirra hefðu rýrnað í verðbólgunni. Þær hugmyndir, sem munu hafa komið fram í hv. félmn. Nd., eru að sveitarfélögin fengju ekki heimild til þessarar verðtryggingar að fullu, heldur fengju þau heimild til 10% álags ef sveitarstjórn óskaði eftir því, og félmrh. samþykkti. Hér er verið að ganga örlítið skref til móts við sveitarfélögin. Það getur verið að menn viti ekki hvernig ástandið er í þessum efnum. Ef menn þekkja eitthvað til ástandsins, þá tel ég það furðulegt ef menn ætla að bregða fæti fyrir þetta mál hér á Alþ. nú á þessum sólarhringum. Hér hlýtur að vera um uppgert mál að ræða hjá hv. þm., sem eitthvað hafa kynnt sér þessi málefni.

Ég vil aðeins að lokum minna á það, að eigi að hefja hér allsherjar eldhúsdaga um þetta mál, utan eða innan dagskrár eftir atvikum, þá þýðir það vitaskuld að það þinghlé, sem um hafði verið rætt, verður að hefjast án þess að þessi mál verði afgreidd, bæði málið um verðábyrgð til landbúnaðarins, 3 milljarða, og þetta mál sem snertir tekjustofna sveitarfélaga. En ég legg á það áherslu, að alþm. hv. reyni að koma sér saman um að koma þessum málum áleiðis, þannig að niðurstaða fáist með skaplegum hætti, án þess að hér hefjist langvarandi umræður, rifrildi og málþóf út af meira og minna smáum atriðum miðað við þau stóru atriði sem hér eru í húfi.